Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 18:07:14 (3060)


[18:07]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka samstarfsfólki í fjárln. fyrir samstarfið, svo og starfsfólki fjárln. og þá sérstaklega starfsfólki Alþingis í Austurstræti fyrir einstaklega gott samstarf. Einnig þeim fulltrúum fjmrn. sem unnið hafa með nefndinni og starfsfólki Ríkisendurskoðunar, sem brugðist hefur vel við flestum þeim beiðnum um vinnu sem frá okkur nefndarmönnum hafa komið.
    Ég get þó ekki varist því að nefna þá skoðun mína hér að vinna Ríkisendurskoðunar er ekki nýtt sem skyldi. Ríkisendurskoðun er stofnun sem heyrir til Alþingis og á að vera okkur til halds og trausts varðandi fjárhagsmál ríkisins.
    Stofnunin hefur skilað fjölda skýrslna til Alþingis um einstök málefni og stofnanir. Einnig liggja hjá Ríkisendurskoðun og ráðuneytum skýrslur sem ráðuneytin hafa beðið stofnunina sérstaklega um en koma aldrei fyrir okkar augu. Eðlilegt hefði verið að efni þessara skýrslna og niðurstöður væru hafðar til hliðsjónar við vinnu fjárln. við afgreiðslu á fjárlögum hvers árs. Því miður er það ekki gert nema í afar litlum mæli og því heldur lítið gert með þær ábendingar sem fram koma um fjárhag eða meðferð fjármuna hjá einstökum stofnunum eða ráðuneytum. Þá eru, eins og ég sagði áðan, dæmi þess að Ríkisendurskoðun hafi að beiðni ráðuneyta framkvæmt bókhalds- eða stjórnsýsluúttekt hjá einstökum stofnunum og skilað um þær skýrslu. Ef slík beiðni kemur frá ráðuneyti og fer ekki í gegnum Alþingi þá virðist reyndin vera sú að alþingismenn eigi engan rétt á að fá viðkomandi skýrslur í hendur, ekki einu sinni fjárln. sem á síðan að fjalla af raunsæi um fjárhag og fjárframlög til þessara sömu stofnana. Þetta hljóta að teljast fullkomlega óeðlileg vinnubrögð.
    Í fyrsta lagi er Ríkisendurskoðun stofnun sem heyrir undir löggjafarvaldið og ber að vinna með því og fyrir það.
    Í öðru lagi hlýtur það að orka tvímælis ef stofnun, sem á að vera löggjafanum til halds og trausts varðandi fjárhagsmálefni ríkisins, afhendir ekki gögn sem hugsanlega geta orðið til þess að ákvarðanir Alþingis er varða fjárlög séu traustari en ella, því það er, að mínu mati, hlutverk þessarar stofnunar fyrst og síðast.
    Ég er einnig þeirrar skoðunar að fari ráðuneyti fram á úttekt Ríkisendurskoðunar á einhverju sérstöku máli og fari sú beiðni ekki í gegnum Alþingi eigi ráðuneytin að greiða fyrir þessa þjónustu, en það er ekki gert í dag. Ég er ekki með þessu að segja að það sé ekki af hinu góða að ráðuneytin láti skoða stofnanir sem til þeirra heyra. Þvert á móti tel ég það vera til fyrirmyndar. En Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi og á að þjóna því fyrst og fremst. Það er mikil nauðsyn að koma á föstum reglum um meðferð Alþingis á þeim skýrslum sem Ríkisendurskoðun skilar svo að sú vinna sem þar er innt af hendi þjóni tilgangi sínum og skili sér í trúverðugri fjárlögum.
    Ríkisendurskoðun kemur mun minna að fjárlagavinnunni en áður og ég tel það bagalegt og nauðsyn að bæta þar úr, í það minnsta að skýrslur stofnunarinnar séu notaðar í meira mæli en nú er gert og eftirlit haft með því hvort bætt hafi verið úr þeim atriðum sem gerðar hafa verið athugasemdir við í rekstri einstakra stofnana.
    Eins og fram hefur komið þá áteljum við í minni hluta fjárln. harðlega þau vinnubrögð sem beitt hefur verið við undirbúning 3. umr. fjárlaga. Hörð gagnrýni hefur einnig komið fram um sama mál frá minni hluta efh.- og viðskn. Hér er þó ekki eingöngu við meiri hluta þessara nefndar að sakast heldur fyrst og fremst hæstv. ríkisstjórn.
    Mikilvægar tillögur hafa borist seint til nefndanna, svo seint að varla hefur unnist tími til að skoða þær eins vel og okkur ber. Fylgifrumvörp fjárlaga, meðal annars þau er lúta að tekjuhliðinni, komu seint og eru enn til umfjöllunar í nefndum eða umfjöllun rétt að ljúka. Þetta kemur m.a. fram í áliti, sem minni hluti efh.- og viðskn. skilaði til fjárln. um frv. til fjárlaga og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs en þar segir, með leyfi forseta.
    ,,Nefndin hefur farið yfir tekjugreinina og er skemmst frá því að segja að þegar afgreiðsla nefndarinnar átti sér stað var yfirferð nefndarinnar á skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar ekki hafin. Þessi staðreynd hlýtur eðli málsins samkvæmt að setja mark sitt á umfjöllunina þar sem ekki liggur endanlega fyrir hvaða áhrif skattalagabreytingarnar hafa á tekjur ríkissjóðs.``
    Enn fremur segir í þessu nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn., með leyfi forseta:
    ,,Minni hlutinn vill að lokum ítreka að það þjónar takmörkuðum tilgangi að skila áliti sem þessu meðan þau vinnubrögð eru viðhöfð sem nú tíðkast á Alþingi. Þar á minni hlutinn við að nauðsynleg fylgifrumvörp fjárlaga komi ekki fram fyrr en svo seint að ekki er hægt að viðhafa eðlilegan vinnuferil við framgang mála. Það endurspeglast m.a. í því hvað þetta mál varðar, að nefndin skuli þurfa að skila umfjöllun um tekjugreinina áður en umfjöllun um skattalagafrumvörpin er lokið.
    Það er skoðun minni hlutans að hér verði Alþingi að setja framkvæmdarvaldinu stólinn fyrir dyrnar og gera kröfur um vandaðri vinnubrögð. Haldi þessu áfram vofir því miður stöðugt yfir sú hætta að það eigi sér stað handvömm við setningu flókinna laga. Dæmin sýna að slíkt hefur átt sér stað á umliðnum árum.``
    Af þessu sést, virðulegi forseti, að það er ekki einungis um að ræða óánægju okkar sem skipa minni hluta fjárln. með þau vinnubrögð er hafa verið viðhöfð í því mikilvæga máli sem hér er til umfjöllunar og ég tek að fullu undir þau varnaðarorð sem eru í niðurlagi álits minni hluta efh.- og viðskn., svona vinnubrögð eru okkur ekki sæmandi.

    Og það er fleira en að mál berist seint og illa til fjárln. og efh.- og viðskn. Ég má til með að minnast á það hér að fyrir nokkru síðan fóru fulltrúar fjárln., ritari fjárln. og fulltrúi fjmrn. til Noregs til þess að athuga hvaða vinnubrögð Norðmenn viðhöfðu við fjárlagagerð. Mikið stóð til og skýrslum var skilað. Það átti að bæta vinnubrögð fjárln. og samskipti við fagnefndir þingsins. Fundir voru haldnir með formönnum fagnefnda og talað var um að skila tillögum og skýrslum í febrúar sl., fyrir 10 mánuðum síðan. Ekkert af þessu skilaði sér. Og ef ekki kæmu til skýrslur sem fulltrúar sem fóru í þessa ferð skiluðu til fjárln. þá hefði ég helst getað haldið að það sem hefði lærst af þessari ferð væri það að það ætti að aðskilja sem mest vinnu minni og meiri hluta fjárln. því að svo oft kom það fyrir að minni hluti fékk lítið sem ekkert að fylgjast með framgangi mála.
    Það kom einnig fyrir að tillögur meiri hluta lágu fyrir án þess að erindi sem ættu að fylgja þeim með rökstuðningi væru til staðar. Ég get nefnt þar dæmi um sérstakt verkefni sem lagt er til að fái 1 millj. á fjárlögum næsta árs, sem er einhvers konar rannsóknarverkefni á örverum í Hveragerði. Fyrst kom þetta inn sem beiðni Hveragerðisbæjar um 5 millj. í göngustíg á hverasvæði og rannsóknir á lífríki á hverasvæði Hvergerðinga. Hvergerðingum var þá víst bent á, eftir þeim heimildum sem ég hef frá forseta bæjarstjórnar, að því miður tíðkaðist það ekki að Alþingi veitti fjármagn í göngustíga á hverasvæði eða göngustíga innan sveitarfélaga, því yrði að leita annarra leiða. Þá birtist okkur tillaga þess efnis að nú skyldi veita 1 millj. kr. í sérstakt samstarfsverkefni sem væri milli Hvergerðisbæjar, Garðyrkjuskólans og að ég held, einnar deildar Háskóla Íslands. Þá átti að fara að rannsaka lífríki á hverasvæðinu. Í þetta átti að fara milljón og að byggja þarna upp þessa rannsóknastöð.
    Menn voru sammála um að hugsanlega væri best að slík fjárveiting væri geymd hjá Garðyrkjuskóla ríkisins. En þá kemur í ljós að forseti bæjarstjórnar ásamt bæjarstjórn Hveragerðisbæjar vissi ekkert um málið og var alls ekki inni á að samþykkja þennan samstarfssamning milli þessara þriggja aðila, hreint ekki, vegna þess að eftir því sem mér er tjáð af bæjarfulltrúum í Hveragerði fól samningurinn í sér að Hvergerðingar misstu yfirráð yfir hverasvæðinu. Þar með var það úr sögunni og þá þurfti að smíða nýtt erindi. Það næsta sem heyrist af erindinu er það að nú sé þetta orðið samstarfsverkefni Iðntæknistofnunar og Hveragerðisbæjar og nú skuli rannsaka örverur á hverasvæðinu.
    Hver var tilgangurinn með þessum rannsóknum? Jú, hann er m.a. sá að laða að ferðamenn. Mér finnst það út af fyrir sig, virðulegi forseti, kraftverk, ef hægt er að gera rannsóknir á örverum og amöbum og öllu öðru slíku það áhugaverðar að það laði að ferðamenn og auki ferðaþjónustuna, verði til þess að ferðaþjónustan vaxi í Hveragerði, þá finnst mér það slíkt kraftaverk að ég mun auðvitað styðja það að í þetta verkefni fari ein milljón. ( EH: Undir kartöflusöng skulu rannsóknir ...) Undir kartöflusöng skulu rannsóknirnar fara fram, segir hv. þm. Eggert Haukdal. Það veit ég ekki, en e.t.v. hefur það verið rætt í hópi þingmanna Sjálfstfl. á Suðurlandi því að þeim er sjálfsagt best kunnugt um þetta verkefni. ( EH: Ég hef heyrt þá ...)
    En það sem okkur fannst nú kannski hvað einkennilegast við þetta allt saman var að alltaf vorum við í minni hlutanum að biðja um að það yrði lagt fram erindi, rökstuðningur, við fengjum að sjá þetta erindi. Þegar það kemur loksins fram, þá er það greinargerð frá Iðntæknistofnun, Jakobi Kristjánssyni, sem er mætur maður hjá Iðntæknistofnun, og sú greinargerð er síðan í ágúst. Þannig að greinargerðin hafði legið fyrir frá því í ágúst. En það var ekki nóg því að Iðntæknistofnun vildi ekki sækja um þessa milljón og þá voru góð ráð dýr. Faxað í hvelli í Hveragerði og erindið kom sama dag og átti að fara að ljúka afgreiðslunni. Og þar með er þetta orðið að veruleika. Meiri hlutinn gerir tillögur um milljón til þess að rannsaka örverur og amöbur í Hveragerði með tilliti til aukinnar ferðaþjónustu í framtíðinni. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem eru alveg með ólíkindum.
    En það er ekki allt búið enn. Það er ávallt hægt að koma okkur í minni hlutanum á óvart. Það gerðist hér við ræðu formanns áðan þegar hann kynnti tillögur meiri hlutans, að þar kom fram samþykkt sem gerð hefur verið um samninga sem eigi að gera vegna halla á Sjúkrahúsi Suðurlands og sem er auðvitað hið brýnasta og þarfasta mál rétt eins og rannsóknir á örverum, sem reyndar vel að merkja var búið að ganga frá, ég gleymdi að nefna það hér áðan, um leið og við gerðumst aðilar að samningi um líffræðilegan fjölbreytileika. Þá átti að vera séð fyrir þessum rannsóknum á örverunum. Það var hins var ekki nefnt, held ég, í þessum samningum um líffræðilegan fjölbreytileika að þær geti haft örvandi áhrif á ferðamannastrauminn í einstök byggðarlög landsins, þannig að það er sjálfsagt að taka tillit til þess sem þeir hafa gleymt í umfjöllunni, þessir mætu menn sem stóðu að þeim samningi um líffræðilegan fjölbreytileika.
    Í ræðu formanns áðan kemur það fram að það er lagt hér til að gengið verði til samninga við Sjúkrahús Suðurlands um að bæta hallann, líkt og hefur verið gert við önnur sjúkrahús, eða fjárhagsvandamál sjúkrahússins. Þetta er hið besta mál, en það hefur bara aldrei verið afgreitt af allri nefndinni, aldrei. Þetta eru vinnubrögð sem mér finnst ekki eiga að eiga sér stað. Og er það nema von að maður sé farinn að velta því fyrir sér, hvað lærðu menn í Noregi? Hvað lærðu menn af vinnubrögðunum í Noregi? Ég er búin að sitja í þessari ágætu nefnd, ég held að þetta sé áttundi veturinn og þetta hefur ekki gerst áður. Þó að ýmislegt hafi nú gengið á í samskiptum minni og meiri hluta í gegnum tíðina þá hefur þetta ekki gerst áður, að við höfum ekki haft erindi sem liggja að baki tillögum eða það hafi komið hér inn afgreiðsla þar sem lagt er fyrir Alþingi lokatillögur fjárln. án þess að það hafi verið til umræðu í hv. fjárln. En þetta er svo sem allt á sömu bókina lært.
    Við fengum heimsókn frá Þjóðhagsstofnun sl. mánudagsmorgun þar sem kynnt voru drög að nýrri þjóðhagsspá. Seint sama kvöld, í fyrrakvöld, komu svo fulltrúar fjmrn. og fóru yfir þær breytingar sem breyttar forsendur leiddu af sér, bæði hvað varðar afkomu ríkissjóðs á árinu 1994 og 1995. Þessar breytingar eru vissulega fagnaðarefni en koma þó ekki að öllu leyti á óvart. Í þjóðhagsáætlun sem lögð var fram af hæstv. forsrh. í október í fyrra var gert ráð fyrir 2,5% samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári. Við í

minni hluta fjárln. sögðum þá að sú spá væri of svartsýn, töldum að samdráttur í þorskafla á því fiskveiðiári þyrfti ekki endilega að koma fram í samdrætti útflutningstekna og landsframleiðslu. Reynslan hafði sýnt okkur að mögulegt væri að auka aðrar veiðar og að það gæti gerst í ríkari mæli en þjóðhagsspá gerði ráð fyrir. Þá töldum við að ef lækkun raunvaxta héldist mætti reikna með auknum umsvifum í atvinnulífinu og þar með auknum þjóðartekjum.
    Nú hefur komið í ljós að þessi orð voru ekki ofmælt þar sem því er nú spáð af Þjóðhagsstofnun að hagvöxtur verði 2% og jafnvel spurning hvort þar séu öll kurl komin til grafar. Má til dæmis nefna að ritið Gjaldeyrismál, sem fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspár hf. gefur út, spáði því ekki alls fyrir löngu að hagvöxtur yrði 4% á þessu ári.
    Við töluðum einnig um það fyrir ári síðan hvaða áhrif hagstæðari efnahagsþróun ætti að hafa á ríkisfjármálin. Ef hagvöxtur yrði meiri á þessu ári en ráð væri fyrir gert, eins og ýmislegt virtist benda til, ætti það að leiða til minni halla ríkissjóðs en gert var ráð fyrir í tillögum meiri hluta Alþingis. Í ljósi þess að þetta hefur gengið eftir er enn óásættanlegra en ella að fjárlögum 1994 verði lokað með miklum halla, eins og fram kom við umræðu um fjáraukalög hér fyrr í dag.
    Vissulega er um að ræða minni halla en svörtustu spár gerðu ráð fyrir, bæði í krónum talið og sem hlutfall af landsframleiðslu. Þetta er þó ekkert til að hrósa sér af í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið, bæði frá fjmrn. og Þjóðhagsstofnun. Í raun hefði halli ríkissjóðs átt að vera minni ef allt væri með felldu. Ef halli ríkissjóðs stendur í stað, þrátt fyrir hagvöxt, er kerfislægi hallinn að aukast, en sá hluti hallans sem tengist slaka í þjóðarbúskapnum að minnka. Það er þessi kerfislægi halli sem er aðalvandamálið í dag og á honum verður að taka.
    Fyrir næsta ár er nú spáð rúmlega 2% vexti landsframleiðslu og 3% hækkun þjóðartekna. Erfiðara er að gagnrýna þessa spá Þjóðhagsstofnunar en þá sem við vorum með hér fyrir rúmu ári. Reyndar virðist mér spáin við fyrstu yfirferð um margt raunhæfari en áður. En eins og áður sagði hefur nefndin ekki haft mikinn tíma til þess að skoða þær forsendur sem að baki þjóðhagsspár liggja né heldur þær breytingar sem hún hefur í för með sér fyrir þjóðarbúskapinn.
    Ég hafði það reyndar á tilfinningunni að þeir sem komu á fund nefndarinnar með þessi gleðitíðindi væru eiginlega alveg hissa og gætu ekki almennilega skýrt hvað það er í raun sem hefur leitt til þessara breytinga. Þaðan af síður hvort þær yrðu varanlegar, enda um ýmsa stóra óvissuþætti að ræða, eins og Þjóðhagsstofnun lagði áherslu á, t.d. óvissu er varðar loðnuveiðar. Því miður er margt sem bendir til þess að loðnuvertíð verði lélegri en ráð er fyrir gert. Óvissan er einnig varðandi veiðar okkar utan landhelgi, sérstaklega á Svalbarðasvæðinu og í Smugunni og ekkert er víst um verðlag á sjávarafurðum.
    Þessir þættir eru mjög veigamiklir áhrifavaldar í þeirri þjóðhagsspá sem nú liggur fyrir. Ef spá Þjóðhagsstofnunar gengur hins vegar eftir er spáð að landsframleiðslan aukist um 2,1% á árinu 1995 og að þjóðartekjur aukist um 3%. Aukning þjóðarútgjalda er áætluð 3,3% á næsta ári. Þar skiptir mestu að gert er ráð fyrir 5,2% aukningu í fjárfestingu. Talið er að viðskiptajöfnuður verði hagstæður um 4,3 milljarða kr. og spá um verðlag er óbreytt. Þetta er allt til hins betra.
    En þrátt fyrir þennan bata er enn gert ráð fyrir verulegu atvinnuleysi á næsta ári eða um 4,6%. Þetta er alvarlegt ástand og erfitt að standa frammi fyrir því að sagt sé að allt sé á leið til betri vegar, en áfram horfum við þó fram á að mjög stór hópur fólks verði án vinnu ef ekki verður gripið til sérstakra og víðtækra ráðstafana af hálfu hins opinbera.
    Betra ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur vissulega skilað meiri tekjum til ríkissjóðs, en þeim er eytt jafnharðan og jafnframt gert út á betri tíð, eins og við sjáum í fjárlagafrv. og þeim brtt. sem hér liggja fyrir, og þessi bati skilar sér ekki til heimilanna í landinu hvað sem líður öllum skýrslum, spám og meðaltölum.
    Vaxandi atvinnuleysi, láglaunastefna þessarar ríkisstjórnar og ýmsar aðgerðir hennar á þessu kjörtímabili hafa orðið til þess að við fjölda heimila í landinu blasir ekkert við nema gjaldþrot. Þó svo bjartsýnustu spár um betra efnahagsástand gangi eftir verður sá bati því miður ekki þessum heimilum til bjargar því hann skal aðeins að litlu leyti notaður til þess. Aukið svigrúm ríkisins virðist hins vegar eiga að nota til þess að bæta enn hag þeirra sem mest hafa.
    Seðlabankinn sendi frá sér greinargerð nú í haust þar sem eftirfarandi kemur fram, með leyfi forseta:
    ,,Skuldir heimilanna við lánakerfið hafa vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum. Í lok júlí á þessu ári er áætlað að lán til heimila hafi numið um 264 milljörðum og aukist á síðustu 12 mánuðum um 11,3 milljarða eða svipaða fjárhæð og á 12 mánuðum þar á undan. Skuldir heimilanna námu í árslok 1993 um 64% af landsframleiðslu en voru rúm 13% af landsframleiðslu á árinu 1980 og hafa því tæplega fimmfaldast miðað við landsframleiðslu á þessu tímabili og skuldir heimilanna hafa aukist enn áfram á þessu ári sem nú er að líða.``
    Eins og fram kemur í nál. minni hluta fjárln. er um mjög alvarleg vanskil að ræða hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til einstaklinga hefur á síðustu tveimur árum aukist um 80% frá því sem var. Þetta kom fram á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga nú í haust og tölurnar sem nefndar eru í þessu sambandi eru ógnvekjandi. Samanlögð fjárhagsaðstoð Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Akureyrarbæjar nemur um 660 millj. kr. á þessu ári. Þetta eru beinar afleiðingar þess mikla atvinnuleysis sem verið hefur og ýmissa ákvarðana þessarar ríkisstjórnar.
    Skuldir ríkis og sveitarfélaga hafa einnig vaxið jafnt og þétt sem hlutfall af landsframleiðslu. Ekki verður séð að þær breytingar sem nú liggja fyrir snúi þeirri þróun við.
    Í fylgitöflum með frv. kemur fram að heildarskuldir ríkissjóðs munu fara í nær 49% af landsframleiðslu á næsta ári, en þær voru nærri 32% í árslok 1991 og 31% í árslok 1992. Hreinar skuldir ríkissjóðs verða rúmlega 31% af landsframleiðslu samanborið við rétt rúmlega 16% á árunum 1990 og 1991. Þetta þýðir að hreinar skuldir ríkissjóðs hafa nær tvöfaldast sem hlutfall af landsframleiðslu á einu kjörtímabili. Vel að verki staðið þar.
    Um næstu áramót er gert ráð fyrir að hreinar skuldir sveitarfélaganna nemi um 3,7% af landsframleiðslu eða um 48% af tekjum þeirra. Þetta er þróunin sem blasir við þegar litið er á skuldir hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, sem gjarnan er notað í alþjóðlegum samanburði. Heildarskuldir hins opinbera verða á næsta ári um 56% af landsframleiðslu samanborið við tæplega 36% þegar þessi ríkisstjórn tók við, en hreinar skuldir 35% samanborið við 17% áður.
    Hvað varð um hin háleitu markmið þessarar ríkisstjórnar í upphafi kjörtímabilsins um ábyrga stjórn efnahagsmála og hallalaus fjárlög? Hreinar vaxtagreiðslur eru um 7% af tekjum ríkisins. Þessi mikla vaxtabyrði þrengir óneitanlega svigrúm til athafna. Vaxtagjöldin breytast mikið við hvert prósentustig í hækkun vaxta. Í tillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir 300 millj. kr. hækkun vaxtagjalda. Þessi tillaga er í raun viðurkenning stjórnvalda á því að sú vaxtahækkun sem orðið hefur á undanförnum vikum sé í raun komin til að vera og jafnvel haldi vextir áfram að hækka.
    Það er ýmislegt óljóst við afgreiðslu fjárlaga, en óvissan er þó mest hvað varðar innlendan fjármagnsmarkað og vextina. Vextir hafa verið á uppleið nær allt þetta ár og fara hækkandi. Vextir í bankakerfinu eru mjög háir og skammtímaávöxtun á fjármagnsmarkaði er einnig mjög há. Þetta gerist þrátt fyrir að afkoma bankanna og annarra fjármagnsstofnana hafi batnað á árinu. Svigrúm þeirra til vaxtalækkana ætti því að hafa aukist. Skuldsett heimili bera einnig hærri vexti en önnur vegna þess að þeim er raðað í hærri vaxtaflokk. Þannig er vaxtapólitíkin sem bankastofnanirnar reka beinlínis notuð til að gera erfiða skuldastöðu heimilanna enn erfiðari.
    Það er ljóst að hvorki viðvarandi halli ríkissjóðs né skuldaþróunin skapa grundvöll til varanlegrar lækkunar vaxta eins og glögglega hefur komið fram að undanförnu. Áætlanir gera ráð fyrir að það dragi úr lánsfjárþörf hins opinbera. Á móti verður að horfa á að sú lækkun skulda atvinnufyrirtækja sem átt hefur sér stað að undanförnu mun líklega leiða til aukinna fjárfestinga sem aftur þrengir svigrúm ríkissjóðs á lánsfjármarkaðnum.
    Eins og ég hef áður sagt virðast betri horfur í efnahagsmálum og betra ástand en ráð var fyrir gert ekki skila sér svo nokkru nemi í betri afkomu ríkissjóðs. Áfram er haldið á þeirri braut sem ríkisstjórnin markaði í upphafi, að eyða meiru en aflað er. Nú þegar hefur verið gert út á bjartsýna spá Þjóðhagsstofnunar. Útgjaldaliður frv. hækkar um 3,6 milljarða króna á móti 2,7 milljarða hækkun tekjuhliðar. Hallinn eykst því um 900 millj. kr. frá því sem frv. gerði ráð fyrir. Áhrif skattalagabreytinga sem tengjast yfirlýsingu ríkisstjórnar frá 10. des. skipta ekki miklu varðandi útgjaldaliðinn. Þar er aðeins um að ræða tekjulækkun upp á um 200 milljónir.     
    Aðrir fulltrúar í minni hluta fjárln. munu fara ítarlega í þær breytingartillögur sem hér hafa verið lagðar fram af meiri hluta nefndarinnar, eins og hv. þm. Guðmundur Bjarnason gerði í ræðu sinni áðan varðandi heilbrigðismálin og tryggingaþáttinn. Ég vil þó aðeins benda hér á umfjöllun okkar í nefndaráliti, sérstaklega er varðar húsnæðismálin, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og mennta- og menningarmál, sérstaklega þann hluta sem fjallar um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Í umfjöllun okkar um samgöngumál kemur fram að í ýmsum liðum samgöngumála hefur verið farið fram úr áætlunum eða jafnvel hafin verk sem alls ekki eru á áætlun. Þessi vinnubrögð eru gagnrýni verð. Til dæmis hefur 170 millj. kr. verið varið til framkvæmda við flugstjórnarmiðstöð í Reykjavík þrátt fyrir að ekki hafi verið gert ráð fyrir þeim kostnaði í flugmálaáætlun.
    Samkvæmt gögnum sem ég hef frá Vegagerð ríkisins um stöðuna á þessu ári er lántaka umfram áætlanir um 614 millj. kr. Lántaka vegna vegagerðar hefur aukist stórlega sl. tvö ár. Vissulega er þar um að ræða ákvarðanir þingmanna og örugglega í öllum tilvikum um að ræða brýn og aðkallandi verkefni. En hafa verður í huga að með aukinni lántöku er verið að festa það fé sem til ráðstöfunar er á næstu árum og draga úr vægi þeirra áætlana sem gerðar hafa verið.
    Í árslok 1994 gerir Vita- og hafnamálastofnun ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs vegna hafnaframkvæmda, sem þegar hefur verið ráðist í, verði um 500 millj. kr. og er þar um hækkun að ræða frá fyrra ári. Skuldbindingar hafa verið gerðar á árinu 1994 án þess að fjárveiting hafi legið fyrir eða framkvæmdin hafi verið á hafnaáætlun. Hér er um að ræða skuldbindingar upp á um 113 millj. kr. Ef gerður hefur verið fastur samningur um verkefni og kostnaðarþátttöku ríkissjóðs í því er eðlilegt að þess sé a.m.k. getið í fjárlögum þess árs og fái eðlilega umfjöllun á Alþingi. Þess eru jafnvel dæmi að slík samningagerð standi yfir meðan vinnan við fjárlögin fer fram án þess þó að samningurinn komi nokkurn tíma til umfjöllunar fjárln. eða Alþingis. Ég er ekki að segja með þessu að þau verkefni sem hér um ræðir séu ekki hin þörfustu. Ég held reyndar að þau fengju öll sem eitt jákvæða umfjöllun og afgreiðslu Alþingis, það eru hins vegar vinnubrögðin sem mér finnst vera vítagerð.
    Þá vil ég nefna sérstaklega lið sem nefnist fyrirhleðslur og er upp á 18,8 millj. kr., sem engan veginn er nægjanleg upphæð til þess að bæta úr brýnustu þörfum. Þar er um að ræða nokkur mjög aðkallandi verkefni. Eitt það stærsta er við Markarfljót, en landbrot er gífurlegt beggja vegna fljótsins. Tillögur um skiptingu þessa liðar koma frá Landgræðslu ríkisins, en ég tel afar mikilvægt að það fari fram úttekt á þeim verkum sem falla undir þennan lið og gerð verði framkvæmdaáætlun líkt og þegar um sjóvörn er að ræða. Ef ekki er unnið eftir fyrir fram gerðri áætlun, sem byggir á nákvæmri úttekt, er hætt við að fjármunir sem fara til þessara verkefna nýtist ekki eins vel og efni standa til. Þannig er reyndar með ýmsar aðrar fjárveitingar, betri undirbúningsvinna skilar betri árangri.
    Samningsstjórnun er mál sem tekið hefur verið upp á þessu ári sem er að líða. Um er að ræða samning gerðan milli ráðuneytis og stofnunar er undir það heyrir um rekstur viðkomandi stofnunar. Á þetta

fyrirkomulag að auka sjálfstæði og forræði stofnana í sínum málum. Örfáir slíkir samningar hafa verið gerðir og verður fróðlegt að fylgjast með árangri af þessari jákvæðu tilraun.
    Virðulegi forseti. Ég sé í raun ekki ástæðu til að fara nánar í einstaka þætti þessa fjárlagafrv. og þær brtt. sem fram hafa komið því allt er þetta á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og þeirra sem styðja hana til þessara verka. En allt stefnir í sama farveg og áður hefur gerst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Löngu er kominn tími til að aðrir taki við og færi mál til betri vegar. Fjárlagafrv., vinnubrögðin við afgreiðslu þess hér á Alþingi, væntanleg niðurstaða, ef fram fer sem horfir, sýna betur en nokkuð annað nauðsyn þess að skipta um ríkisstjórn og stefnu í ríkisfjármálum. Við verðum að snúa af braut ójöfnuðar, óréttlætis og skuldasöfnunar.