Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 20:56:23 (3072)

[20:56]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þremur brtt. Það er fyrst brtt. við 4. gr. 6. liður, 395 Landhelgisgæsla Íslands. Fyrir ,,608.900`` kemur: 683.900. Lögð er til hækkun á framlagi til Landhelgisgæslunnar til að reka hina nýju björgunarþyrlu.
    Gert er ráð fyrir því að a.m.k. 60 millj. kr. þurfi til að halda þyrlunni úti með eðlilegum hætti án þess að það komi niður á öðrum þáttum í starfi Gæslunnar. Ekki er gert ráð fyrir framlögum í þessu skyni í frv. Þá er einnig lögð til 15 millj. kr. hækkun til að unnt verði að halda úti varðskipi við gæslustörf í Barentshafi á næsta ári.
    Nú hef ég tekið eftir því að það er búið að hækka framlag um 35 millj. til Gæslunnar og það er út af fyrir sig einhver viðleitni í því en það er auðséð á þeim upplýsingum sem hafa komið fram í þessu efni að það mun engan veginn nægja til þess að það sé hægt að reka hina nýju björgunarþyrlu þegar hún kemur. Það má kannski segja að það er svona eftir öðru í sambandi við þetta makalausa þyrlumál þar sem virðist hafa þurft að toga alla hluti áfram með töngum. Ég held að það væri ráð að menn að lokum viðurkenndu að það væri að minnsta kosti búið að kaupa þessa þyrlu og nota hana þá því þetta er dýrt tæki og það er okkur ekki til mikils sóma að gera ekki ráð fyrir að það sé hægt að reka hana með eðlilegum hætti þegar hún er komið til landsins. Þannig að ég held að þessi tillaga sé eðlileg og þörf. Það er fáránlegt að það þurfi að bera fram slíka tillögu þegar fyrir liggur að þetta mikla og dýra björgunartæki verður komið til landsins eftir tiltölulega stuttan tíma og það verður meiri hluti ársins sem þarf að hafa hana í rekstri ef að líkum lætur.
    Þarna er líka gert ráð fyrir framlagi til þess að hægt yrði að halda úti varðskipi við gæslustörf í Barentshafinu. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, það hefur komið mjög skýrt fram í fréttum, að það er mjög mikil þörf á því að þarna sé skip til staðar og læknir þar um borð og sú þjónusta sem veitt var sýndi sig að var mjög nauðsynleg. Og ég held að íslenskir sjómenn megi varla til þess hugsa að það vanti slíka þjónustu á þessar slóðir ef skipaflotinn fer þangað til veiða með svipuðum hætti á næsta ári eins og gerðist á þessu ári. Það er þess vegna undarlegt að það skuli ekki vera gert ráð fyrir fjármunum til að halda úti þessari starfsemi. Þess vegna er lagt til að lagðir verði til fjármunir til að kosta hana.
    Með mér flytja þessa tillögu, hæstv. forseti, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon.
    Þá flyt ég brtt. á þskj. 475 við 6. gr. fjárlaga. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði hæstv. forseti við 2. umr. fjárlaganna að því leyti til að þessi tillaga gengur út á það að í þeim sveitarfélögum þar sem hafa farið fram ítrekaðar kosningar, bæði vegna sameiningar sveitarfélaga og líka vegna þess að það hafa verið ógiltar sveitarstjórnarkosningar, þá verði fjmrh. heimilt að endurgreiða kostnað vegna aukakosninga sem hafa verið að fara fram og munu fara fram vegna kostnaðar sem beinlínis leiðir af mistökum í félmrn. vegna undirbúnings þessara kosninga.
    Það er fyrir neðan allar hellur að menn skuli ekki fá úrlausn þessara mála. Ég veit til að aðilar frá sveitarfélögum sem hafa lent í aukakosningum og kostnaði vegna þeirra hafa leitað til ráðuneytisins og farið fram á að þessi kostnaður verði bættur og það er eðlileg krafa og ég tel að það sé þess vegna rétt að gera ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. hafi heimildir til þess að koma til móts við þau sveitarfélög sem hafa lent í slíkum kostnaði. Í sumum sveitarfélögum hafa ítrekað orðið að fara fram nýjar kosningar og það sér reyndar ekki fyrir endann á því enn sums staðar. Þess vegna er þessi tillaga flutt. Ég tel nú reyndar ólíklegt annað en að hún verði samþykkt hér að það væri fráleitt að hið opinbera vikist undan því að bera ábyrgð á ráðherrum ríkisstjórnarinnar og opinberum starfsmönnum ráðuneytisins sem bera ábyrgð á þessum mistökum.
    Þá vil ég koma að þriðju tillögunni sem er á þskj. 474 og er við 4. gr., lið 11-399, þ.e. Niðurgreiðsla á rafhitun. Þar er lagt til að fyrir ,,397.000 þús. kr.`` komi: 497.000 þús. kr. Þarna er um að ræða 25% hækkun á niðurgreiðslum til húsahitunar og reyndar hugsuð í því skyni að eitthvað miði nú áleiðis við það að lækka húshitunarkostnað á hinum köldu svæðum sem kölluð eru á landsbyggðinni og þar sem mjög dýrar hitaveitur eru.

    Hæstv. ríkisstjórn hafði það á sinni stefnuskrá og minntist á það í hvítbókinni frægu að það stæði til að lækka húshitunarkostnað þar sem hann væri hæstur á landinu. Það var síðan gert á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar hæstv. að hækka niðurgreiðslur nokkuð. En síðan ákvað hæstv. ríkisstjórn að taka upp virðisaukaskatt á húshitun þegar settur var virðisaukaskattur á ýmislegt fleira sem ég ætla ekki að fara að telja hér upp. En niðurstaðan varð sem sagt sú að setja 14% virðisaukaskatt á húshitun. Síðan var ákveðið endurgreiðslukerfi sett í gang á virðisaukaskattinum sem kemur þannig út að það mun vera í kringum 140 millj. af heildarfjárhæð sem nemur líklegast í kringum 530 millj. kr. Það mun vera innheimt sem svarar 530 millj. kr. vegna beinnar húshitunar í virðisaukaskatti. Endurgreitt sem svarar 130 millj., svo ég leiðrétti nú það sem ég sagði hér áðan, þannig að mismunurinn þarna á er um 400 millj. sem ríkissjóður hefur þá upp úr krafsinu. Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá er það nokkurn veginn sama upphæðin og hefur verið á fjárlögum á síðustu tveimur árum og gert er ráð fyrir að verði á fjárlögum núna til niðurgreiðslu á rafhitun.
    Ég verð að segja það að eftir allar stóru yfirlýsingarnar hjá hv. þm. Sjálfstfl. og Alþfl. um að það ætti að jafna húshitun á landsbyggðinni þá eru efndirnar ekkert mjög merkilegar. Ef við skoðum hvernig ferillinn hefur verið í þessu þá lítur dæmið þannig út að þegar hæstv. ríkisstjórn tók við þá voru á þeim fjárlögum 262 millj. kr. til niðurgreiðslu á húshitun og þær voru notaður til þessarar niðurgreiðslu. Síðan þegar virðisaukaskatturinn er settur á þá er ekkert lagt til niðurgreiðslu húshitunar nema sem svarar virðisaukaskattinum. Það er fyrir neðan allar hellur að úr því að menn ákváðu að mynda þennan tekjustofn, þ.e. að setja virðisaukaskatt á húshitunina, að ganga þá ekki lengra í því að rétta hlut þeirra sem hafa dýrustu kyndinguna. Þetta er þannig að jafnvel mjög dýrar hitaveitur eru að greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð, hitaveitur sem eru inni á borðum hæstv. ráðherra. Ég vil óska eftir því, hæstv. forseti, að hæstv. iðnrh. komi til umræðunnar og svari fyrir það sem hann hefur látið frá sér fara um þessi mál. Er hæstv. ráðherra í húsinu?
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti mun kanna það.)
    Ég tel, hæstv. forseti, að það sé gjörsamlega ólíðandi að í því skuli vera fólgin uppspretta fjármuna í ríkissjóð að skattleggja svo dýra orkugjafa sem þessar hitaveitur eru. Ég get nefnt t.d. Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar sem er með hvað hæst orkuverð á landinu. Þeir sem greiða þar húshitunarkostnað borga 5,32% í virðisaukaskatt í ríkissjóð. Þannig er þetta með fleiri hitaveitur allt í kringum landið. Það er ótrúlegur hlutur að sjá að svona skuli vera staðið að málum. Og að þær tekjur sem ríkisstjórnin ákvað að verða sér úti um með því að leggja virðisaukaskatt á húshitun skuli ekki hafa verið notaðar í því skyni að ná niður húshitunarkostnaði á landsbyggðinni. Þar hefur ekkert miðað. Það mun vera álíka mikill kostnaður núna af því að hita upp hús á þessum köldu svæðum og var þegar ríkisstjórnin tók við. Og ég held að hv. þm. Sturla Böðvarsson ætti að fara yfir tölurnar og skoða þær betur því þannig er þetta. Þetta lækkaði að vísu lítillega á árinu 1992 og 1993 en hefur síðan hækkað aftur og hefur náð álíka mikilli fjárhæð, þ.e. meðalkyndingarkostnaður á þessum köldu svæðum, og var þegar ríkisstjórnin tók við. Ríkissjóður skilar raunverulega núlli til þess að greiða þetta niður. Öll niðurgreiðslan fer sem sagt fram með því að taka virðisaukaskatt af sjálfum orkunotendunum.
    Ég er ekki hissa á því þó hæstv. ríkisstjórn hafi sett þetta markmið sitt frá því í upphafi síns ferils í laugardagsplaggið sem hún lagði fram um daginn um að það þyrfti nú að lækka húshitunarkostnaðinn því þar standa menn í sömu sporum sannarlega eins og þegar af stað var farið. Ég hefði gjarnan viljað, hæstv. forseti, að hæstv. iðnrh. sem lagði það á sig að skrifa grein í blað fyrir nokkrum dögum síðan um að það væri búið að hækka svo niðurgreiðslur á húshitun, um líklega 80%, ef ég man rétt, kæmi og svaraði fyrir þetta mál og gerði mönnum grein fyrir því hvernig þessar miklu niðurgreiðslur koma til lækkunar á húshitunarkostnaði á köldu svæðunum.
    Það ber vel við að hæstv. samgrh. skuli vera hér á ferli því í þessu plaggi sem hefur verið til umræðu, frhnál. hv. meiri hluta fjárln., er nokkuð fjallað um hið fræga átak í vegamálum. Það heitir framkvæmdaátak vegna atvinnumála. Ég held að það sé full ástæða til þess að bera þær tölur saman við nýdreifða þáltill. um vegáætlun sem liggur fyrir þinginu. Það kemur fram í nál. að það muni eiga að vera um 1.250 millj. kr. framlag vegna sérstaks átaks í vegamálum á árunum 1995--1999. Þegar maður fer síðan að skoða hvernig þessum fjármunum er komið fyrir þá kemur í ljós að á árinu 1995 eru þessir reikningar þannig að það er tekið af mörkuðum tekjustofnum til vegamála 275 millj. kr. í ríkissjóð. Síðan er búið til reikningsdæmi þar sem talað er um að framlag úr ríkissjóði sé 350 millj. og þarf ekki merkilegan útreikning til að sjá að þá mundi framlagið líklega verða 75 millj. en ekki 350 því ríkissjóður hefur tekið til sín 275 millj. af mörkuðum tekjustofnum. Þ.e. af þeim peningum sem komnir eru til Vegasjóðs eiga að koma 310 millj. og lánsfé á að vera upp á 590. Þannig kemur þetta dæmi út. Það er alveg ótrúlegt að sjá hvers konar talnaleikfimi menn stunda í sambandi við þetta vegaátak bara til að slá ryki í augun á fólki og rugla það með tölum. Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því að menn geri sérstakt átak í vegamálum. En við höfum nú farið í gegnum þessar tölur svo oft að ég ætla ekki að fara að gera það núna. Sannleikurinn um hið mikla átak í vegamálum á þessu kjörtímabili er sá að það kemur út þannig að það er mjög lítið eftir af átakinu ef menn reikna með því að markaðir tekjustofnar hefðu verið notaðir til vegamála, því miður. Einfaldlega vegna þess að aðrir útgjaldaliðir sem teknir hafa verið inn í vegamálin, þ.e. rekstur ferja og flóabáta og síðan skerðingarnar í ríkissjóð af mörkuðum tekjustofnum, éta þetta allt saman upp.
    Það eru þess vegna ósköp að sjá það að menn skuli sífellt halda áfram að reikna sér einhvers konar stórátak í vegamálum út úr þessum hlutum. Hv. formaður fjárln. hélt því fram í sinni ræðu í dag að framlag til framkvæmda í vegamálum ykist með þessum hætti um u.þ.b. 1 milljarð króna á næsta ári. Ég held að ef menn fara yfir þessar tölur þá hljóti þeir að sjá að það er rangt að halda þessu fram.

    Hæstv. forseti. Hefur nokkuð frést af hæstv. iðnrh.?
    ( Forseti (SalÞ) : Hann mun vera að koma en forseti sér það ekki á töflu vegna þess að hæstv. iðnrh. hefur varamann á þingi og situr ekki á þinginu um þessar mundir. Það voru gerðar ráðstafanir til að gera honum viðvart og forseta skilst að hann sé rétt að koma.)
    Ég þakka fyrir það, hæstv. forseti. Mér er mjög umhugað um að hæstv. iðnrh. útskýri fyrir hv. þm. með hvaða hætti hann fær jákvæða niðurstöðu út úr tiltektum ríkisstjórnarinnar til lækkunar á húshitunarkostnaði og ég vonast sannarlega eftir því að hann svari spurningum um það.
    Hæstv. forseti. Mig langar til að spyrja eftir því hvort hæstv. sjútvrh. sé í húsinu.
    ( Forseti (SalÞ) : Nei hann er ekki í húsinu.)
    Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér finnst það með nokkrum ólíkindum að hæstv. ráðherrar skuli ekki vera viðstaddir og tilbúnir að mæta í þingsalinn til að greiða fyrir þingstörfum. Hér hefur verið talað um að einhvers konar samkomulag svifi yfir vötnunum um að reyna að ljúka þingstörfum. En hæstv. ráðherrar eru ýmist merkimiðalausir á sveimi í einhverjum hliðarsölum og týndir eða ekki í húsinu. Mér þykir það ekki líklegt til þess að greiða fyrir þingstörfum ef ekki er hægt að fá greið svör frá hæstv. ráðherrum við spurningum.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. iðnrh. er í húsinu en í augnablikinu er hann upptekinn á fundi en kemur innan skamms inn í þingsalinn. Forseti hefur nú þegar gert ráðstafanir til að gera hæstv. sjútvrh. viðvart um að hans sé óskað hér.)
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki neina sérstaka ánægju af því að halda hér einhverjar ræður til að drepa tímann. Ég fer fram á að ég fái að fresta ræðu minni og hefja hana aftur þegar hæstv. ráðherrum hentar að mæta í salinn.
    Ég ætlaði, hæstv. forseti, að ræða við sjútvrh. nokkuð um þau málefni sem hæst ber núna í sjávarútvegsmálum og sannarlega hefur ekki mikið borist inn á borð hv. þm. Í því plaggi sem við höfum hér til umræðu, þ.e. frhnál. frá meiri hluta fjárln., er talað um að um það bil 20 millj. kr. eigi að fara til þess að koma til móts við aflamarksbáta sem eru undir sex tonnum. Það varð nokkur umræða hér í dag um þessa upphæð vegna þess að hv. fjárln. vildi hafa hönd í bagga með hvernig henni yrði ráðstafað hjá Byggðasjóði og í framhaldi af því urðu nokkur átök. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að þarna sé ekki með merkilegum hætti tekið á þeim vanda sem er mikill hjá þeim útgerðarmönnum sem þarna eiga hlut að máli. Ég hefði talið að það hefði þurft að taka allt öðruvísi á þessu máli. Við alþýðubandalagsmenn lögðum reyndar fram frv. til laga í þinginu fyrir nokkrum dögum þar sem lagðar eru fram tillögur um það hvernig eigi að taka á þessu máli. En með þessum hætti held ég að lítill árangur náist. Það virðist eiga að fara í sama gamla farið og hv. stjórnarliðar gagnrýndu mjög í upphafi þessa kjörtímabils, þ.e. að lána mönnum peninga til að reyna að láta þá lifa eitthvað lengur, lengja í hengingarólinni. Það er bæði búið að bjóða mönnum peninga úr Byggðasjóði núna en fyrir nokkru komu einnig yfirlýsingar frá Fiskveiðasjóði um lánafyrirgreiðslu handa illa stöddum fyrirtækjum.
    Ég sé, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra er mættur í salinn og mig langar til að biðja hann að svara nokkrum spurningum um það hvernig hann telji að hafi til tekist með lækkun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum í landinu. Það var, eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, eitt af loforðum hæstv. ríkisstjórnar að ná niður húshitunarkostnaði á köldu svæðunum í landinu og efndirnar hafa verið með mjög sérkennilegum hætti svo ekki sé meira sagt. Hæstv. ráðherra lagði það á sig að skrifa grein fyrir nokkru síðan í blað sem a.m.k. sá sem ekki borgar svona reikninga hefði getað misskilið nokkuð illilega. Þar kom fram að það muni vera farið að greiða sem svarar 80% meira niður heldur en áður var í húshitunarkostnaði og ég geri ráð fyrir að sumir hafi a.m.k. skilið það þannig að þarna hafi verið orðið um verulega lækkun á húshitunarkostnaði á köldu svæðunum að ræða. En það er ekki aldeilis þannig. Það mun vera álíka dýrt núna að kynda hús á köldu svæðunum og var þegar hæstv. ríkisstjórn tók við. Kostnaðurinn hefur ekkert lækkað, en það hefur gerst annað. Ríkissjóður er allt í einu farinn að hala inn peninga ( GÁ: Ekki veitir nú af.) af húshitunarkostnaði í landinu. Síðan er búið til spilverk, greitt inn og út og niðurstaðan er sú að ríkissjóður fær tekjur til sín sem svarar jafnhárri upphæð og hann greiðir í niðurgreiðslur af húshitun.
    Þegar hæstv. ríkisstjórn tók við völdum þá var á fjárlögum fyrir árið 1991 262 millj., ef ég man rétt, til niðurgreiðslu á húshitun. Á síðasta ári voru 497 millj. til niðurgreiðslu á húshitun, en á því ári náði ríkisstjórnin í peninga af þessum sömu aðilum sem svarar 400 millj. kr. Þannig að mismunurinn var enginn. Og þessi aukna niðurgreiðsla sem hæstv. ráðherra var að hæla sér af í blaðagrein er núll og hún hefur ekki skilað, reyndar af öðrum ástæðum, lækkun húshitunarkostnaðar á landsbyggðinni eða á köldu svæðunum, eins og menn kjósa að kalla það. Þarna er auðvitað um að ræða afskaplega dapurlega niðurstöðu og ég held að það hljóti að vera til mikillar umhugsunar fyrir hv. þm. sem eru af þeim svæðum þar sem hús eru kynnt með raforku að þurfa nú að mæta í sína heimabyggð og standa frammi fyrir því að það hafi enginn árangur orðið af þessum tiltektum þeirra í sambandi við húshitunarkostnaðinn.
    Ég held að menn hefðu átt að hafa það a.m.k. sem markmið, úr því að farið var að innheimta virðisaukaskatt af húshitun, að það yrði þá tekið á þessum málum þannig að það yrði um verulega lækkun að ræða þar sem dýrasta kyndingin er. Það er til stórrar skammar og ég vil að hæstv. ráðherra heyri það, að menn skuli standa í því að innheimta virðisaukaskatt í ríkissjóð af hitaveitum sem eru á hnjánum og eru með mjög dýra gjaldskrá og eru að leita til ríkisins um hjálp, eins og hitaveita Akraness og Borgarfjarðar og fleiri hitaveitur, en eru samt að skila peningum í ríkissjóð. Þetta er ótrúlegt en svona er það nú samt. Og hitaveiturnar allar nánast, allt í kringum landið, eru að borga til ríkissjóðs í virðisaukaskatti. Síðan fara fram endurgreiðslur sem koma út eins og ég lýsti hér áðan.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að teygja lopann hér yfir þessu. Hæstv. sjútvrh. er ekki mættur í salinn. Ég ætla ekki að bíða eftir því að hann komi til umræðunnar. Ég bið þá bara aftur um orðið

ef hæstv. ráðherra skyldi láta sjá sig hér. ( Gripið fram í: Þú mátt ná í hann.) Hann er einhvers staðar að skreyta jólatréð og ég ætla ekki að trufla hann við það. Hæstv. forseti er búinn að senda honum orð. En ég ætla ekki að standa í því að teygja hér tímann. Þeir hafa gert það fyrr í dag, stjórnarliðar, að teygja tímann. Hv. þm. Egill Jónsson gerði það með miklum glæsibrag og æsti hér menn upp úr stólum, hv. þm. Guðna Ágústsson, ásamt fleirum og ærði þingið í langan tíma í dag. Ég ætla ekki að fara að bæta við þann tíma því okkur veitir örugglega ekki af ef við eigum að standa við það samkomulag sem var gert á liðnu kvöldi um að reyna að ljúka þingstörfum fyrir jól.