Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 21:33:57 (3078)


[21:33]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. iðnrh. En það hefur ekki létt mönnum að borga orkureikninginn úti á köldu svæðunum þó hæstv. ráðherra hafi tekist að hækka orkureikninginn hér í Reykjavík og víðar um landið. Það er þannig sem jöfnunin fer fram, með því að hækka fyrst og fremst orkureikninginn hér í Reykjavík og á öðrum stöðum þar sem hitaveita hefur verið ódýrari og það er engin huggun fyrir menn sem eru að borga háa reikninga úti um landsbyggðina. Það var til móts við þá sem þurfti að ganga. Það er þess vegna sem ég er hér að gagnrýna hluti, að það er þar sem mönnum hefur ekki miðað neitt. Og ég tel ekki að aðferðin sem hér hefur verið beitt af hæstv. ríkisstjórn sé sú rétta. Ég held því ekki fram að það hafi ekki mátt setja virðisaukaskatt á húshitunina ef það hefði verið tekið þá á þessum málum með beinum hætti þannig að það hefði þá verið hægt að koma orkukostnaðinum niður í eitthvað sem er viðunandi. Ég tel að það geti hugsanlega verið einhver von í því að fara í viðræður við Landsvirkjun og aðra orkusöluaðila og ég fagna því að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa ýtt af stað þeim vagni. En ég get ekki komist hjá því að gagnrýna það að ríkisstjórnin sem fór að hala inn alla þessa peninga í ríkissjóð skuli ekki hafa tekið myndarlegar á niðurgreiðslunni heldur en hún hefur gert.