Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 21:35:41 (3079)


[21:35]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Jöfnun fyrir milligöngu ríkissjóðs felur alltaf það í sér að flytja fjármuni með einhverjum hætti frá einum til annars. Það er ekki hægt að búa til fjármuni úr loftinu. En ég vil gjarnan taka það fram, virðulegi forseti, að ef flokkur þess hv. þm. sem hér talaði áðan hefði ekki haft þau illvænlegu áhrif sem hann hefur haft á uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi þá væri verð á raforku núna tugum prósenta lægra heldur en það er. ( SvG: Svona 30%.) Ætli það hafi nokkur flokkur á Íslandi kostað launamenn og greiðendur raforkureikninga meira en Alþb. Ég býst við því að Alþb. eitt hafi kostað . . .   ( SvG: Ætli það séu ekki svona 30%.) Já, það er um 30% gæti ég trúað. Það er um 30%. Þannig að hv. þm. Svavar Gestsson veit auðsýnilega hvaða reikninga landsmenn þurfa að borga fyrir stjórnarsetu flokksins sem hann stýrði á sínum tíma. (Gripið fram í.) Það er rétt hjá hv. þm., það kostar landsmenn nú að sá flokkur var á sínum tíma í ríkisstjórn um 30% hærra raforkuverð en ella mundi hafa verið þannig að honum er það mætavel ljóst og það er mjög ánægjulegt ( SvG: Hvernig ætli þetta sé í Sovétríkjunum?) út af fyrir sig, honum er það mætavel ljóst hvað stjórnarvera flokks hans hefur kostað íslenska neytendur. ( Gripið fram í: Taktu nú Sovétríkin.) Það var nú einu sinni svo, virðulegi forseti, að það var helsta baráttumál þessa þingmanns að taka upp það kerfi á Íslandi. Hann er nú hættur við það fyrir löngu síðan til allrar guðslukku og farinn að hugsa eftir öðrum leiðum. En það breytir ekki því að það er rétt sem hann sagði, ég staðfesti það, það er rétt að stjórnarvera flokks hans hefur kostað íslenska raforkunotendur 30% í verði. Það er alveg rétt og það er ánægjulegt að hann skuli vita það sjálfur en það er umhugsunarvert að hann skuli ekki hafa neitt samviskubit yfir því heldur skuli hlæja að slíkum málum.