Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:04:16 (3083)


[22:04]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þetta svar. Hann staðfesti að skuld A-hluta ríkissjóðs í lok ársins 1993 væri væntanlega um 178 milljarðar kr. og spurningin sem ég bar fyrir hann var síðan í framhaldi af því: Hver má þá ætla að hún sé í lok ársins 1994 og hver má ætla að hún verði í lok ársins 1995 miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir? Ég leyfði mér að giska á að samkvæmt þeim tölum sem væntanlega kæmu út úr þeirri athugun þá hefðu skuldir A-hluta ríkissjóðs aukist í tíð núv. hæstv. fjmrh. um 45--50 milljarða kr. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað telur hann líklegt að skuldir ríkissjóðs hafi aukist mikið í hans tíð til loka ársins 1994 og hvað telur hann líklegt að bætist við í fjárlögum ársins 1995 sem hann ber auðvitað ábyrgð á eins og þau standa nú?