Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:21:39 (3091)


[22:21]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil vegna orða hæstv. ráðherra inna hann eftir því hvort hann hafi upplýsingar um það í hve miklum mæli skip fari eða hafi farið á þessu ári til annarra landa í viðgerðir. Ég veit um að þó nokkuð mörg skip hafa farið án útboðs og það er nú einu sinni þannig að ekki er hægt að koma í veg fyrir það. Menn hafa ekki haft möguleika til að stöðva það. Skip hafa siglt til Póllands í röðum í tiltölulega ódýrar viðgerðir, sandblástur, málningu og annað því um líkt, sem vel er hægt að gera hér heima. En það hefur ekki tekist að halda þessum verkefnum hér.
    Síðan langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hinar nýju reglur, sem voru samþykktar á síðasta þingi, þ.e. þær reglur sem eiga að koma í veg fyrir undirboð, séu farnar að virka. Eiga menn von á því að hægt verði að taka á hinni óeðlilegu samkeppni t.d. frá Póllandi sem íslenskar skipasmíðastöðvar hafa ekki getað keppt við? Fróðlegt væri að vita hvort þessi nýju lög, sem voru sett á hv. Alþingi, hafi haft eitthvert gildi.