Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:45:23 (3099)


[22:45]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki athugað sérstaklega hvaða tölur það eru í reikningum Sláturfélags Suðurlands um kostnað til dýralækna og aðstoðarmanna þeirra á því svæði. Mér kemur á óvart ef sá kostnaður er ekki nema 80 aurar á kg en það er gott ef svo er. Hugsunin á bak við þennan lið er ekki sá að skattleggja sauðfjárbændur eins og hv. þm. veit. Þvert á móti er það krafa bæði í Evrópu og eins Bandaríkjunum að ekki sé tenging á milli þess sem rekur sláturhúsið og hins sem metur og þess vegna er óhjákvæmilegt að ríkið verði milliliður og ríkið leggi sérstakt gjald á hvert kg til þess að rísa undir sláturkostnaði. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að með því að fara þessa leið er auðvitað verið að jafna eitthvað á milli húsa. Hér er mikið talað um sauðfjárbændur og ég get tekið sem dæmi sláturhúsið á Króksfjarðarnesi. Þar erum við auðvitað að tala um miklu hærri tölur. Ég hef rætt þetta mál við kaupfélagsstjórann þar og hann er ekki að tala um 80 aura á kg heldur er hann þar að tala um mun hærri tölur, ég skal ekki segja hvort það er 2,50, 3 kr. eða hvað það er þannig að það er ólíku saman að jafna.
    Við erum jafnframt að tala um að það þarf að herða og auka rannsóknir á aðskotaefnum í kjöti og sláturafurðum. Við erum að tala um það að við viljum flytja vistvænt kjöt á aðra markaði og þá verðum við auðvitað að taka afleiðingunum af því og þetta er undirbúningur í því að ríkið taki yfir þessa þjónustu. Eins og ég sagði kemur auðvitað ekki til greina að þessir fjármunir verði tekjuliður fyrir ríkissjóð. Það hefur aldrei staðið til og er hreinn útúrsnúningur ef verið að gefa í skyn að með þessu sé verið að leggja á bændur nýja skatta.