Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:49:38 (3101)


[22:49]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Sauðfjárbændur hafa auðvitað greitt fyrir þessa þjónustu. Það er auðvitað alveg laukrétt hjá hv. þm. að með því að fara þá leið sem hér er lagt til að sé farin þá er auðvitað einhver tilfærsla á milli svæða. En það er laukrétt hjá hv. þm. að með því að fara þessa leið er það svona eitthvað pínulítið þyngra fyrir bændur á Suðurlandi en í Húnavatnssýslum eða Dölum, ég get ekki neitað því. En við erum auðvitað að tala um það að svara þeim kröfum sem gerðar eru til gæða íslensks kindakjöts. Við erum að tala um útflutning og við erum að búa okkur undir hann. Í þeirri hörðu samkeppni bæði hér á landi og erlendis og með þau háleitu markmið sem við höfum í sambandi við vistvæna framleiðslu og annað því um líkt, þá erum við ekki að tala um einhverjar fjárhæðir sem eru í neinum samjöfnuði við ávinninginn sem við fáum. Það má heldur ekki gleyma því að ríkið er að leggja sérstaklega til fjármuni í þessu skyni.
    En eins og ég segi og hv. þm. veit betur en ég, formaður Búnaðarfélags Íslands, þá liggur það alveg ljóst fyrir að sláturkostnaður er mjög misjafn á hinum eiginlegu sauðfjársvæðum. Ég get aftur talað um Króksfjarðarnes, ég get talað um afskekktar byggðir, t.d. norður á Ströndum og fleiri staði. Auðvitað er sláturkostnaðurinn hærri þar heldur en þar sem þéttbýlið er mest og hægt að koma við mestri hagræðingu eins og hjá Sláturfélagi Suðurlands. Og það er ákveðin afstaða hjá hv. þm. að vera á móti því að jafna þar á milli enda er hann fulltrúi fyrir þá sem eru á svæði Sláturfélags Suðurlands.