Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:53:05 (3103)


[22:53]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Eins og áður hefur komið fram þá er ætlunin að nýta endurbótasjóðinn eins og greint er frá í athugasemdum við fjárlagafrv. og þar á meðal 240 millj. til Þjóðarbókhlöðu og þar af 40 millj. til rekstrar á næsta ári, árið 1995, en endurbótasjóðurinn hefur til þessa greitt þann rekstrarkostnað sem fallið hefur á Þjóðarbókhlöðu meðan hún hefur verið í byggingu og eftir að beinn rekstrarkostnaður fór að falla á hana og það þótti ekki óeðlilegt að á fyrsta heila starfsárinu tæki endurbótasjóðurinn þátt í þessum kostnaði með 40 millj.
    Hv. þm. Jón Helgason setti fram þá ósk að það yrði ekki úthlutað --- ég skildi hann vonandi rétt --- þeim 15 millj. sem ætlaðar eru til verndunar gamalla húsa. Þar er um að ræða húsasafn Þjóðminjasafnsins sem heyrir undir þjóðminjaráð. Mér finnst sjálfsagt að ræða við þjóðminjaráð um samstarf á milli stjórnar endurbótasjóðsins og þjóðminjaráðs. Ég er reiðubúinn að beita mér fyrir því en Alþingi sýnist mér og veit er að ákvarða í raun og veru hvernig þessum fjármunum skuli varið á árinu 1995. Mér er alveg ljóst að stjórn endurbótasjóðs telur rétt að stjórnin komi þarna að verki. Til þess er hún kjörin að hafa eitthvað um það að segja hvernig tekjum endurbótasjóðsins er varið og ég er reiðubúinn að beita mér fyrir því að viðræður fari fram á milli stjórnar endurbótasjóðs og í þessu tilviki þjóðminjavarðar.