Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:56:04 (3105)


[22:56]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Óbreyttir þingmenn í stjórnarliði eru vanir að hafa hægt um sig við afgreiðslu fjárlaga og þá væntanlega vegna þess að þeir séu mjög ánægðir. Ánægja mín er nú blandin og það hefur komið hér fram í umræðum að fleiri sjálfstæðismenn en ég eru ekki alveg ánægðir.
    Ég vil fyrst eins og hv. þm. Svavar Gestsson spyrja út í jöfnunaraðstoð vegna skipasmíða. Það kom hér fram að nokkru svar til hans frá hæstv. ráðherra sem ég út af fyrir sig fagna, en ég vil hafa þessi orð um þetta mál. Skipasmíðastöðvarnar í landinu hafa fengið mjög misjafna fyrirgreiðslu ríkisins og ýmissa sjóða á undangengnum tíma. Skipalyftan í Vestmannaeyjum hefur fengið lítinn fjárstuðning í gegnum árin enda staðið tiltölulega vel. Vegna smíði nýs lóðsbáts fyrir Vestmannaeyjahöfn þarf að koma til smástuðningur ríkisvaldsins. Þessi smíði bjargar miklu atvinnuleysi sem ella hefði orðið þar í vetur. Það er engin fjárveiting til þessara mála á fjárlögum en var í fyrra 60 millj. eins og hér hefur komið fram. Eftir þeirri umræðu sem hér var áðan, ég sé að ráðherra er ekki viðstaddur, þá vænti ég að litið verði á þetta mál.
    Fyrir ári var gerð tilraun til að loka vistheimilinu í Gunnarsholti. Við umræður á Alþingi kom hins

vegar í ljós að ekki var þingmeirihluti fyrir þeirri ákvörðun. Þrátt fyrir það var hælið sett nánast á guð og gaddinn með litlum fjárstuðningi og svelt með aðeins 15 millj. en þurfti að fá 30. Á þessu tímabili skipaði ráðherra starfshóp eftir starfshóp til að kanna þessi mál en ekkert gerðist. Loks við afgreiðslu fjáraukalaga er það að fá 15 millj., ári síðar en það þurfti á því að halda.
    Ég leyni því ekki og vil lýsa því yfir við þetta tækifæri að ég skammast mín fyrir hversu stjórnvöld hafa hagað sér, stjórnvöld sem ég ber að sjálfsögðu ábyrgð á, hvernig þau hafa látið þetta viðgangast. Hælið hefur verið hálfskipað, sjúklingar eru á götunni með öllum þeim hörmungum sem því fylgir. Aðstandendur eru ráðþrota. Slíkt miskunnarleysi er ekki verjandi þegar nóg pláss og góð aðstaða er til á þessu hæli. Starfsmaður við hælið átti leið um Hlemm sl. sumar. Utan um hann hópuðust sjúklingar og báðu um að fá að koma heim. Þessi saga segir fleira en mörg orð. Ekkert var hægt að gera í þessu tilfelli þá. Þessir sjúklingar eru ódýrari þjóðfélaginu með því að vera á stofnun. Svona miskunnarleysi á ekki að þekkjast í dag. Heldur ekki það mannúðarleysi að láta verkfall sjúkraliða viðgangast. Það var rætt hér í dag og það á að leysa strax.
    Sl. sumar kom fjárln. í heimsókn að Gunnarsholti í skemmtiferð. Hrærðust engar taugar hjá hv. nefndarmönnum við komuna? Þarna beini ég fyrst og fremst máli mínu til hv. nefndarmanna úr meiri hlutanum sem eiga að hafa völdin og leysa þessi mál en sjást nú ekki hér í þingsal.
    Ég vil aðeins minnast á kartöfluræktina en hún var skilin eftir með fyrirgreiðslu þegar búvörulög voru sett 1985. Í dag fá framleiðendur kartaflna 10--20 kr. fyrir kíló af kartöflum. Það verður að koma til móts við þessa grein í þeim vanda sem hún stendur frammi fyrir. Fjöldagjaldþrot getur blasað við þeim er eingöngu stunda þessa atvinnu. Samstaða þyrfti að nást hjá framleiðendum. Smáskatt ætti að leggja á áburð, þar með talinn innfluttan áburð. Ríkisvaldið kæmi til móts með smáframlag á móti. Þannig gæti myndast sjóður til að greiða aðeins niður kartöflur og styðja útflutning í offramleiðslu. Garðyrkjan á og mjög undir högg að sækja vegna aðgerðar Jóns Baldvins. Nýverið ákvað landbrh. að leggja fram 5 millj. til markaðsaðgerða fyrir kartöflur og farið er fram á að Framleiðnisjóður landbúnaðarins greiði jafnt á móti. Þarna er um að ræða 10 millj. og þó lítið sé má þakka fyrir þessa aðgerð.
    Aðeins um vegamálin. Það er ástæða til að undirstrika að fyrir forgöngu forsrh. var stórfellt átak unnið í Suðurlandskjördæmi á árunum 1993--1994, þ.e. ný Kúðafljótsbrú auk tengdra framkvæmda í Vestur-Skaftafellssýslu og vega í uppsveitum Árnessýslu. Aðrir ráðherrar komu þar lítt nærri. Þessi fjármagnsútvegun þýddi mikla flýtingu á framkvæmdum í Suðurlandskjördæmi frá því sem vegáætlun sagði. Nú hefur fyrir forgöngu forsrh. aftur verið útvegað nýtt fjármagn. Harma ber hins vegar að þegar nýtt fjármagn kemur til þessara hluta, þá skuli vera dregið úr lögboðnum framlögum til vegamála. Þrátt fyrir það verður aukning en hún hefði þurft að verða miklu meiri. Hins vegar skal játað að niðurskurður er meiri þegar tekið er tillit til þess að hæstv. ráðherra Halldór Blöndal tók ferjur og flóabáta inn á vegalög 1993 án þess að tekjur kæmu á móti. Í ár eru þetta útgjöld upp á 569 millj. Að sjálfsögðu þurfti að sjá fyrir kostnaði við ferjur og flóabáta en það var villandi að taka ný útgjöld inn á vegalög án tekna. --- Ég sé að hæstv. vegamálaráðherra er ekki viðstaddur, en gjarnan hefði mátt spyrja hann og koma til hans hvar hann væri staddur ef forsrh. hefði ekki dregið hann að landi með útvegun fjár til vegamála.
    ( Forseti (VS) : Óskar hv. þm. eftir að hæstv. ráðherra komi?)
    Ætli við sleppum því ekki.
    Ég vil aðeins koma að vaxta- og verðtryggingarmálum. Íslenska þjóðin hefur loks gert sér grein fyrir því að skuldir heimilanna eru eitt alvarlegasta, jafnvel allra alvarlegasta vandamál sem við er að stríða hérlendis. Uppsöfnun skulda í krafti lánskjaravísitölu er orðin slík að landsmenn geta ekki lengur staðið í skilum með þeim launatekjum sem atvinnuvegirnir telja sig geta borið. Víðtæk vanskil í bönkum og sparisjóðum sem nema milljörðum króna gefa til kynna að greiðsluþol þorra heimila sé þrotið. Við blasir ókyrrð á vinnumarkaðinum sem orðið getur fyrirtækjunum og framleiðslu ofviða. Enginn dregur lengur í efa að meginorsakavaldurinn er verðtrygging fjárskuldbindinga. Hef ég í áraraðir varað við hættunni sem í var stefnt en fengið daufar undirtektir. Frv. mitt um afnám lánskjaravísitölu nýtur nú meira fylgis á Alþingi en áður þrátt fyrir öflugan áróður og slagorð hávaxtamanna en þrátt fyrir það fæst það ekki afgreitt úr nefnd.
    Verðtrygging fjárskuldbindinga var reynd á viðreisnarárunum en gafst ekki vel og var afnumin í tveim áföngum. Lánskjaravísitalan var svo tekin upp með svonefndum Ólafslögum 1979. Varð eftir það skjótt ljóst hvílíkan þátt verðtryggingin átti sjálf í því að orsaka og ala verðbólguna. Verðtrygging fjárskuldbindinga var reynd í nokkrum löndum á 8. áratugnum og í sumum reyndar fyrr, m.a. í Finnlandi og Ísrael sem bæði hættu henni. Brasilía hélt henni áfram með hörmulegum afleiðingum þó. Verðbólga var á miðju ári 1983 komin upp í 130%, nokkru síðar 500, skuldastaða nálega vonlaus og yfirstjórn peningamála færð í hendur Alþjóðabankans. Verðtrygging íbúðarlána fær staðist í vægri verðbólgu en fer úr böndunum ef verðbólga er tveggja stafa tala eða þriggja. Skuldauppsöfnunin verður með slíkum hraða að vinnulaun geta ekki fylgt eftir eins og raun hefur orðið á hér og víðar. Greiðsluþrot gerast þá almenn. Hrun blasti við hérlendis í lok 9. áratugarins og byrjun hins 10. Var þá gerð svonefnd þjóðarsátt um stöðvun verðbólgu. Eigi að síður hefur skuldasöfnun heimilanna haldið áfram. Ástæður eru a.m.k. þrjár:
    1. Sjálf raunvaxtabyrðin vex samhliða skuldastofninum.
    2. Um miðjan 9. áratuginn var kaupgjald reiknað inn í lánskjaravísitöluna þannig að skuldir jukust sjálfkrafa við hverja kjarabót launþega.
    3. Grípa varð til sérstakra skuldbreytingalána handa þeim sem verst voru staddir.
    Við erum nærri miðjum síðasta áratug aldarinnar og ástandið hefur ekki batnað. Fullljóst er orðið að skuldastaða heimilanna leysist ekki sjálfkrafa svo sem getið var fyrr. Til slíks þarf öflugt átak af opinberri hálfu. Fyrsta skrefið er að sjálfsögðu að ráðast að rót vandans, þ.e. að hætta verðtryggingu fjárskuldbindinga sem tíðkast ekki í viðskiptalöndum okkar. Það hefur lengi verið stefna íslenskra stjórnvalda

að semja okkur smátt og smátt að háttum og venjum vestrænna ríkja í vaxta- og peningamálum. Þannig hafa fjármagnsflutningar milli landa verið gefnir frjálsir og vextir eru færðir til samræmis við ESB. Aðeins verðtryggingin sker sig úr hérlendis. Hún gerir peningastjórn okkar flókna og erfiða. Sumir hyggja að ólöglegt sé eða jafnvel gegn stjórnarskránni að afnema verðtryggingu og lánskjaravísitölu. Henni hefur hins vegar verið breytt verulega og það er þá líka ólöglegt og stjórnarskrárbrot en þessu gleyma talsmenn hennar. En þessi veigamikla leiðrétting nægir ekki ein sér. Gera verður þorra heimila kleift að standa í skilum. Til slíks þarf nýja þjóðarsátt er felur í sér aukna greiðslugetu láglaunaaðila. Það gæti orðið m.a. með hækkun skattleysismarka, svo og með nýjum flokki skuldbreytingalána, t.d. úr sérstökum sjóði í líkingu við gamla kreppulánasjóðinn sem skilaði árangri.
    Ég vil í þessu sambandi mótmæla skattpíningu á láglaunafólkið í landinu. Skattleysismörkun eru í dag rúmar 57 þús. kr. Það sér hver maður að fólk sem hefur 60--70 þús. kr. í laun á mánuði er ekki aflögufært um að greiða opinber gjöld til samfélagsins, það ætti hverjum manni að vera ljóst. Miðað við að skattleysismörkin verði hækkuð upp í 70 þús. þá verður ríkissjóður óneitanlega fyrir tekjutapi sem verður að taka af þeim sem hafa hærri tekjur og hafa efni á að greiða sína skatta. T.d. hefði átt að vera löngu búið að taka upp fjármagnstekjuskatt.
    Þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp 1988 var skattprósentan 35,8%. Þessi sama skattprósenta er í dag 41,84%, þ.e. á þessum tæpu sjö árum sem liðin eru frá því að staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp hefur skattprósentan hækkað um heil 7 prósentustig og hækkun persónuafsláttar hefur ekki náð að fylgja hækkun framfærsluvísitölu á þessum tíma. Á sama tíma hafa skattálögur á fyrirtæki lækkað verulega.
    Virðulegi forseti. Þó ekki hafi verið tekið tillit til lækkunar persónufsláttar að neinu ráði við afgreiðslu fjárlaga þá væri sú aðgerð mesta innlegg í gerð kjarasamninga ef það væri gert. Enn er tími fyrir stjórnvöld til að koma til móts við fólk í þessum efnum, milli jóla og nýárs við afgreiðslu skattalaga.