Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:10:39 (3106)


[23:10]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég heyrði ræðu hv. 6. þm. Suðurl. varðandi lánskjaravísitöluna. Það er alveg ljóst að þegar til hennar var gripið á sínum tíma þá urðu menn eitthvað að gera til að stöðva þann faraldur sem blasti við að sparifé landsmanna var að brenna alveg upp. Það var mjög groddaleg aðgerð að fara þessa leið, en ég sé nú satt að segja ekki annað en menn hafi neyðst til að fara einhverja svipaða leið. En það ljóta í framhaldinu var svo það að kaupgjaldsvísitalan var tekin úr sambandi, misgengið varð til og síðan það að vöxtunum var hleypt lausum í ágúst 1984 eða 1985. En það breytir ekki því að við erum núna um nokkurt skeið búin að vera í nánast verðbólgulausu þjóðfélagi. Það eru því engin rök fyrir þessum sjálfvirku tengingum skulda við lánskjaravísitölu lengur og ég vil óska v. 6. þm. Suðurl. til hamingju með það að ég tek eftir því að í viðræðuuppleggi aðila vinnumarkaðarins núna er loksins gert ráð fyrir því að menn geti hugsað sér að fara að losa um þessi ósköp og þar tala náttúrlega þeir sem gerst vita, þ.e. eigendur lífeyrissjóðanna. Ég tel því að allar þessar mörgu ræður hafi haft einhver áhrif þrátt fyrir allt.