Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:12:09 (3107)


[23:12]
     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir hans orð. Það er rétt að þjóðarsátt hefur verið og lítil verðbólga um skeið. Samt hækkar lánskjaravísitalan á hverju ári og það verulega og það er góð viðbót í vaxtabyrðinni ofan á allt annað. Hér er því um slíkan meinvald að ræða að fyrir löngu hefði átt að vera búið að afnema hann. En þetta kerfi var upphaflega miðað við að verðtryggja bæði laun og lán. Fljótlega tóku menn kaupið úr sambandi. Þar á eftir gera menn svo annan óskunda að taka launin inn í lánskjaravísitöluna þannig að hin minnsta kauphækkun láglaunamannsins þýðir stórhækkun á lánum. Hvernig má það vera að við lifum og búum við þetta kerfi ár eftir ár? Við skulum vona að komið sé að þeirri stund að þetta breytist.