Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:28:51 (3109)


[23:28]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Ég flyt hér tvær brtt. á þskj. 478. Önnur tillagan hefur ekki útgjaldaauka í för með sér fyrir ríkið heldur tilfærslu á fjármunum og er vegna hjartaaðgerða á ungum börnum. Á árinu 1994 hafa verið gerðar í kringum 10 hjartaaðgerðir á ungum börnum á Landspítalanum, sams konar aðgerðir sem áður hafa verið gerðar erlendis. Þessar aðgerðir lofa meiru en góðu og er bylting fyrir þá er þurfa á slíkum aðgerðum að halda. Á fjárlögum er ekki fjárveiting til að halda þessum aðgerðum áfram á Landspítalanum á næsta ári auk þess sem ráð er fyrir gert að aðgerðum á almennri hjartadeild fækki um fjörutíu frá því sem er í ár, þ.e. á árinu í ár voru gerðar 290 hjartaaðgerðir en það er gert ráð fyrir í fjárlögum að 250 hjartaaðgerðir verði gerðar á næsta ári. Það er ekki reiknað með fleiri aðgerðum. Brtt. hefur í för með sér að við flytjum 15 millj. úr sjúkratryggingum sem hafa hingað til greitt kostnaðinn vegna utanlandsferða vegna þessara aðgerða á ungum börnum sem ég áður minntist á. Þessar 15 millj. nægja til að gera jafnmargar aðgerðir og í ár á ungum börnum, sem sagt 8--10 aðgerðir. Ég tel ekki þörf á að hafa fleiri orð um þessa tillögu svo sjálfsögð sem hún hlýtur að vera.
    Síðan er hér önnur tillaga, einnig varðandi Ríkisspítalana. Hún hefur aftur á móti útgjaldaauka í för með sér, en eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni þá erum við með tekjupósta á móti. Sá útgjaldaauki er um 35 millj. kr. og er í fyrsta lagi til endurbóta á aðstöðu í sambandi við fæðingu og mæðravernd á kvennadeild fæðingardeildar Landspítalans og til að efla glasafrjóvgunardeild Landspítalans, sem hefur náð undraverðum árangri í þeirri grein, en í dag er um tveggja ára bið eftir að komast til meðferðar á þeirri deild og eru um 650 pör eða um 1.300 einstaklingar sem bíða eftir að komast þar til aðgerða. Frá upphafi opnunar þeirrar deildar, sem var í október 1991, hafa 600 fengið meðferð á deildinni og sú meðferð hefur leitt til þess að á þriðja hundrað börn hafa fæðst. Til að stytta biðlista er afar nauðsynlegt að stækka deildina og auka tækjabúnað en helst vantar af tækjum fósturvísafrysti og smásjárfrjóvgunarútbúnað.
    En þó ég hafi áður sagt að um 650 pör bíði eftir meðferð og séu á biðlista þá er ekki þar með öll sagan sögð því að það vantar tilfinnanlega tækjabúnað þannig að erfiðustu tilfellin eru ekki á biðlista. Í dag er það þannig að sjúklingar borga í kringum 50% af meðferðarkostnaði, en ég sagði sjúklingar vegna þess að landlæknir skilgreinir ófrjósemi sem sjúkdóm sem hrjáir a.m.k. 15% einstaklinga á barneignaaldri.
    En tillagan sem hér er flutt er til að auka þjónustu einnar bestu glasafrjóvgunardeildar í heiminum. Ég segi einnar bestu því þrátt fyrir ungan aldur deildarinnar þá hefur náðst þarna undraverður árangur. Árangur hér er betri en víðast hvar annars staðar og þar af leiðandi hafa erlendir aðilar litið mjög til þessarar glasafrjóvgunardeildar á Íslandi og sýnt henni mjög mikinn áhuga þannig að það eru miklir möguleikar um leið og við erum búin að stytta biðlistann fyrir Íslendinga, að markaðssetja þessa deild fyrir útlendinga. En til þess að geta þetta legg ég til með tillögu minni hér að 35 millj. verði varið til þessa þáttar. Ég tel að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta mál.