Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:39:04 (3112)


[23:39]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að mæla fyrir einni lítilli brtt. sem ég flyt á þskj. 498, er reyndar efnislega sambærileg við brtt. sem felld var við 2. umr. með nokkuð öðrum upphæðum. Þetta varðar breytingu á liðnum 10-472 680 Flugvellir, framkvæmdir. Það eru framkvæmdir samkvæmt flugmálaáætlun sem nokkuð hafa verið til umræðu upp á síðkastið, sú fyrirhugaða skerðing á mörkuðum tekjum sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér hefur ákveðið að leggja til upp á um 70 millj. kr. Ég legg til að þessi tala gangi til baka og verði hluti af framkvæmdafé flugmálastjórnar á komandi ári eins og lög gera ráð fyrir og veitir ekki af miðað við þau verkefni sem þar eru. Aðilar í flugrekstri hafa brugðist mjög hart við þessum fyrirhuguðu áformum og um það hafa verið gerðar ályktanir, þar á meðal í flugráði í dag eða í gær og mjög harðorð samþykkt sem eðlilegt er þar sem um algerlega sérstakar álögur á flugið var að ræða á sínum tíma þegar tekjustofnarnir voru myndaðir. Ég legg til að enn verði látið á það reyna hvort menn eru ekki tilbúnir til þess að falla frá þessari vanhugsuðu skerðingu á framkvæmdafé flugmálaáætlunar og sjái þess í stað fyrir rekstri flugmálanna með sambærilegum hætti og verið hefur.
    Í ágætri grein í dagblöðum nýlega hefur Leifur Magnússon, fyrrv. formaður flugráðs, gert mjög skilmerkilega grein fyrir því að flugið á Íslandi er fremur veitandi en þiggjandi þegar kemur að tekjumyndun fyrir ríkissjóð í heild annars vegar og þeim fjármunum sem ríkið ráðstafar til flugrekstrarins hins vegar. Þegar allt er lagt saman er það í raun og veru svo að flugið er síður en svo á nokkurn hátt þiggjandi í þessu efni. Við þær aðstæður er auðvitað alveg forkastanlegt að ætla að gera þennan markaða tekjustofn á flugfarþega að sérstökum skatti í ríkissjóð.
    Eins er það, hæstv. forseti, að ég hefði haft áhuga á því ef hæstv. sjútvrh. er í húsinu að eiga við hann örfá orð um málefni sem varða sjávarútveginn og tengjast þessu fjárlagafrv. og afgreiðslu mála á lokasprettinum, fjáraukalögum og fjárlögum, ef hægt væri að kanna hvort hæstv. sjútvrh. gæti komið hér. Sjálfsagt gefast ekki önnur tækifæri til þess að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um þau mál, a.m.k. ekki fyrir aðfangadag, ég segi ekki fyrir kosningar nema hér séu fluttar nýjar fréttir að ástandið sé orðið þannig í stjórnarherbúðunum að verið sé að undirbúa þingrof niðri í þingflokksherbergi Sjálfstfl. Það kann vel að vera. Mér er sagt að þar standi yfir mikilvægur fundur. (Gripið fram í.) Það er upplýst að hv. þm. Finnur Ingólfsson tekur ekki að sér að svara fyrir sjútvrh.
    ( Forseti (SalÞ): Sjútvrh. er kominn.)
    Já, hæstv. forseti. Þannig var að hæstv. sjútvrh. var ekki viðstaddur þegar ég flutti ræðu mína við 2. umr. um fjárlög og þá nefndi ég ýmis atriði sem vörðuðu sjávarútveginn og lagði reyndar inn spurningar, þar á meðal eina sem mér skilst að nú liggi fyrir svar við, þ.e. að fallið hafi verið frá þeirri gjaldtöku, sérstöku gjaldtöku á krókaleyfisbáta sem fyrirhugað var samkvæmt forsendum fjárlagafrv. og boðuð sem ein af tekjuforsendum. Út af fyrir sig fagna ég því að hæstv. sjútvrh. hefur séð að sér í þessum efnum.
    Það er einnig athyglisvert að einhverja bakþanka virðist hæstv. ríkisstjórn vera búin að fá út af stöðu bátaútgerðarinnar og smábátanna sérstaklega því að nú er meira að segja til umræðu að ráðstafa heilum 20 millj. kr., til að styrkja smábátaútveg sem á í erfiðleikum, þ.e. þann hlutann sérstaklega sem er á aflamarki. Ég verð að segja alveg eins og er að ég vil að hæstv. sjútvrh. heyri það að mér finnst þetta nánasarlega skammtað úr því að menn eru að þessu á annað borð. Auðvitað veit hæstv. sjútvrh. vel að vandi þessa hluta útgerðarinnar er gríðarlegur og ekki verða gerðar miklar rósir með 20 millj. kr. úr því að menn eru að þessu á annað borð. Auðvitað átti hæstv. sjútvrh. að beita sér fyrir því að þarna væru á ferðinni einhverjir þeir fjármunir sem einhverju máli skiptu og það hvernig hæstv. ráðherra ætlar að klóra sig í land í þessum efnum varðandi vanda smábátaútgerðarinnar samanber þessa tillögu til fjárveitinga er auðvitað alveg til háborinnar skammar þegar fyrir liggur að þessi hluti útgerðar í landinu er að þurrkast út, þ.e. bátar og smábátar á aflamarki. Þeir eru stærsti hluti þeirra sem nú sækja um úreldingu í þróunarsjóði og það er ljóst að bátaflotinn og aflamarkið sem taldi hátt í þúsund skip fyrir nokkrum árum síðan stefnir nú óðfluga niður í núll. Auðvitað hlýtur það að verða eitthvert umhugsunarefni fyrir menn hvort það sé heppileg þróun í útgerð í landinu að þessi hluti flotans hverfi.
    Svo vil ég að lokum, hæstv. forseti, nota tækifærið og svara furðulegum árásum hæstv. sjútvrh. á okkur alþýðubandalagsmenn í sambandi við málefni sem þetta varðar, þ.e. annað mál sem liggur fyrir þinginu og varðar samningsveð eða hvað það nú heitir á fínu máli. Hæstv. sjútvrh. hefur notað stöðu sína í fjölmiðlum undanfarna sólarhringa til að ráðast annars vegar furðulega á Alþb. og hins vegar á hæstv. iðnrh. og viðskrh. og sakar menn um það eins og það liggi bara á borðinu að algert hrun blasi við í sjávarútveginum á landsbyggðinni og ef ekki verði lögfest hér heimild til að veðsetja aflaheimildina. Það er það sem hæstv. sjútvrh. hefur aðallega fram að færa í þessum efnum um þessar mundir svo ekki sé nú talað um bankakerfið. Bankakerfið mun hrynja bara á næstu dögum ef þetta frv. fer ekki í gegn, sagði hæstv. sjútvrh. í sjónvarpi í kvöld og vandaði hæstv. bankamálaráðherra ekki kveðjurnar. Það væri nú meiri sauðurinn sem væri að stimpast á móti þessu máli og stofnaði sjálfu bankakerfi landsmanna í hættu svo að ekki væri minnst á sjávarútveginn og landsbyggðina. Það mundi allt hrynja á morgun. Auðvitað er þetta alveg furðulegur málflutningur hjá hæstv. sjútvrh. og einkennandi fyrir þann strákslega og óábyrga stíl sem hann temur sér jafnan í umfjöllun um þessi mál.
    Nei, hæstv. forseti. Ég held að sjútvrh. væri nær að sýna það í málatilbúnaði við afgreiðslu fjárlagafrv. og fjáraukalaga að hann taki alvarlega þau vandamál sem við er að glíma í íslenskum sjávarútvegi og þar sem skórinn kreppir mest en að láta standa sig að því að setja inn einhverjar 20 millj. kr. til að leysa vanda smábátaútgerðarinnar. Það er auðvitað þvílíkur brandari og ef málið væri ekki jafnalvarlegs eðlis og dapurlegt eins og raun ber vitni væri ekkert hægt við það að gera annað en hlæja að því en það er auðvitað ekki við hæfi þegar svona stendur.
    Frágangurinn á því máli, hæstv. forseti, var eins og kunnugt er þannig að allt ætlaði vitlaust að verða hér þegar það kom frá meiri hlutanum og svona er nú myndarskapurinn og rausnin, svona er að þessu staðið. Þetta er ekki til mikillar fyrirmyndar, hæstv. forseti, eins og ég hef sagt.
    Ég notaði þetta tækifæri, hæstv. forseti, leyfði mér það til þess að koma þessum athugasemdum sem varða málefni tengd sjávarútveginum og tengjast afgreiðslu þeirra mála í umræðum um fjárlög.