Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:51:32 (3114)


[23:51]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þekki ekki svo út í hörgul þessar líffræðilegu örverufræðirannsóknir eða hvað það nú er, sem eiga að stundast þarna í Hveragerðinu. En hitt fullyrði ég að það er ekki rétt hjá hv. þm. að með þessum rannsóknum eigi nú að fara að brjóta í blað og í fyrsta skipti í sögunni muni framhaldsskólakennarar á Íslandi fara að stunda rannsóknir. Það er mikill misskilningur og ákafleg vanþekking að halda slíku fram. ( Gripið fram í: En þetta er á Suðurlandi.) Það getur að vísu verið að það eigi við um Suðurlandið, eins og hér er kallað fram í. En ég leyfi mér a.m.k. að fullyrða að við Norðlendingar t.d. erum því að góðu kunnir að framhaldsskólakennarar þar um slóðir stundi rannsóknir og mætti þar nefna einn af meiri vísindamönnum þjóðarinnar á sviði grasafræði t.d., Steindór Steindórsson, fyrrv. skólameistara, sem allan sinn langa feril sem framhaldsskólakennari stundaði að sjálfsögðu rannsóknir og það jafnvel grunnrannsóknir og vann við slíkt löngum á sumrin. Þannig að mér fannst ómögulegt annað, þrátt fyrir þessa innblásnu ræðu sem hv. þm. hélt hér um hinar merku rannsóknir, sem ég auðvitað tek undir og fagna með honum að eru að komast í gang, að leiðrétta þetta.