Fjárlög 1995

66. fundur
Fimmtudaginn 22. desember 1994, kl. 01:50:46 (3148)

[01:50]
     Guðrún Helgadóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Hér hefur verið tekinn upp sá háttur að raða upp málum þannig að menn eru hér að greiða atkvæði eftir einhverjum imbaseðlum, bunka af tillögum af öllu tagi. Ég er næstum því viss um, hæstv. forseti, að verulegur hluti þingmanna hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera, síst af öllu þegar menn eru langþreyttir. Ég verð að játa það að ég er ein af þeim sem eru allþreytt og mér sást yfir að hæstv. forseti tók saman 16.--20. brtt. á þskj. 465 og þar ægir öllu saman, ýmsum fræðistörfum, æskulýðsmálum, ýmsum íþróttamálum, Kvenfélagasambandi Íslands, Landssamtökunum Heimili og skóli og --- og þar sást mér yfir --- hverarannsóknir í Hveragerði. Ég bið hæstv. forseta að þagga niður í hv. þingmönnum. (Forseti hringir.) Hér var umræða um þetta mál í dag og þingheimur veltist um af hlátri yfir fáránleika málsins. Ég get ekki betur séð en að það hafi farið fyrir hv. þingmönnum eins og mér, að við höfum öll greitt þessari vitleysu atkvæði, þar á meðal hæstv. menntmrh. sem í kvöld sagðist ekkert vilja hafa með þetta mál að gera. Ég vil nú spyrja hæstv. forseta hvort ekki væri leyfilegt að a.m.k. ég hreinsaði mannorð mitt og fengi þessu breytt. Mér er ljóst að um þetta voru greidd atkvæði í einum pakka og hálfsofandi þingheimur virðist ekki hafa gert sér ljóst hvað hann var að gera. Þetta er nú ekki til þess að vera stoltur af. Ég óska alla vega eftir því að það verði skráð í þingtíðindi að hér hafi orðið mistök og mitt nafn verði ekki lagt við þessa vitleysu sem menn ultu um af hlátri í dag og hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hann mundi nú ekki telja sig bundinn af þessu máli.