Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 15:07:45 (3166)


[15:07]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmenn hafi átt gleðilega jólahátíð. Reyndar hefur fleira borið við síðan frv. var síðast til 2. umr. Við höfum samþykkt fjárlög í millitíðinni og þetta frv. til lánsfjárlaga, sem er til umræðu, byggist m.a. á þeim fjárlögum sem hafa nýlega verið samþykkt fyrir árið 1995. Þau fjárlög voru eins og kom fram í umræðum um þau byggð á mikilli bjartsýni um áframhaldandi bata í sjávarútvegi, á góðum efnahagshorfum í þeim byggðum þannig að þau voru byggð á nokkru óraunsæi hvað þetta varðaði. Því er það svo um lánsfjárlagafrv., sem er ófrávíkjanlegur þáttur í ríkisfjármálum og efnahagsstefnunni, að það byggir á sömu forsendum.
    Eitt af því sem fjárlögin byggðu á var það að atvinnustig mundi heldur lagast á næsta ári. Atvinnuleysisprósentan færi niður um um það bil 0,3%, atvinnuleysi yrði 4,6% á ársgrundvelli. Því væri fróðlegt að athuga lítillega þá þætti lánsfjárlaga sem hafa bein áhrif á atvinnustigið. Þá koma auðvitað fyrst upp þau ákvæði sem varða Húsnæðisstofnun ríkisins og byggingarsjóðina en það er nú svo að húsbyggingar og verklegar framkvæmdir og velta þeim tengdar hafa mikil áhrif á atvinnustigið hjá iðnaðarmönnum í landinu en sá þjónustuiðnaður er mjög mikilvægur þáttur atvinnulífsins. Auk heldur hefur fjármögnun byggingarsjóðanna mikil áhrif á vaxtastigið í landinu því að hér er um mjög verulegar fjárhæðir að ræða eins og kemur fram í þessu frv.
    Auðvitað mætti ræða miklu fleira og fara miklu ítarlegar ofan í mörg fleiri atriði þessara mála eins og t.d. málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna og málefni Þróunarsjóðs sjávarútvegs, málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem eiga eftir að koma fyrir nefnd en ég ætla að láta nægja að fara örfáum orðum um byggingarsjóðina. Málefni þeirra koma fyrir í II. kafla frv. sem fjalla um ríkisábyrgðir og þar eru heimildir til að ábyrgjast lántökur upp á 2.600 millj. fyrir Byggingarsjóð ríkisins og 6.300 millj. fyrir Byggingarsjóð verkamanna og fyrir húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins allt að 13 milljörðum kr.
    Þó að þessir 13 milljarðar kr. séu mjög há upphæð og hafi mikil áhrif í lántökum ríkissjóðs og séu mjög stór hluti af þeim 21 milljarði, sem lánsfjárlagafrv. hljóðar upp á, er þetta lægri upphæð en á yfirstandandi ári og munar þar um tveimur milljörðum kr. Ef húsbyggingar haldast í svipuðu horfi og verið hefur þarf að afla viðbótarheimildar síðar á árinu eða þá húsbyggingar dragast saman um tvo milljarða kr., húsbyggingar sem fjármagnaðar eru af húsbréfadeildinni. Ég hefði haldið að það hefði allmikil áhrif á atvinnustigið í landinu ef svo verður. Þetta er bara eitt dæmið um að verið er að halda út í nokkuð óvissa framtíð með þessu frv. Einnig er samdráttur í lántökum til Byggingarsjóðs verkamanna. Þar er áætlað að skera niður um 100 íbúðir þannig að hætt er við að þessi þáttur lánsfjárlaganna, ef eftir gengur, rími ekki alveg við þau markmið sem sett voru í fjárlögunum.
    Í umræðum um fjárlög og í umræðum, sem hafa farið fram áður um málið sem er á dagskrá, var rakið að frjáls markaður tekur ekki lengur við húsnæðisbréfum með þeirri ávöxtunarkröfu sem sett var af stjórnvöldum með 5% vaxtamarkinu. Auðvitað segir þetta sitt um efnahagsstefnuna. Auðvitað er með öllu óljóst hvernig gengur á næsta ári að selja þessi bréf nema þá að hækka á þeim vextina og hvort Seðlabankinn er þess umkominn að halda vöxtunum niðri á þeim húsnæðisbréfum sem boðin eru til sölu og væri fróðlegt að heyra álit hæstv. fjmrh. á þessu síðar í umræðunni.
    Ég vil einnig koma inn á afgreiðslu fjárlaga sem fór fram dagana fyrir jólin. Þá var m.a. samþykkt ein heimildargrein við 6. gr. fjárlaga sem er á þskj. 501 og er borin fram af fjmrh. Ég vil gera þetta að umræðuefni vegna þess að þessi grein hlýtur að koma inn á þetta frv. sem við erum að ræða núna og satt að segja var framlagning þessa máls og afgreiðsla þess með nokkrum ólíkindum. Hér er um að ræða að við 6. gr. komi nýr liður, að kaupa eignir Rafveitu Akraness, Rafveitu Borgarness og Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar fyrir Rafmagnsveitur ríkisins eða ganga til stofnunar sameiginlegs orkufélags fyrrgreindra aðila ef viðunandi samningar nást. Samningar og nauðsynleg lántaka skulu hafa samþykki iðnrh. og fjárln. Alþingis.
    Nú er það ekki svo að það kemur ýmislegt inn á 6. gr. fjárlaga sem ekki er framkvæmt á því ári sem fjárlögin taka til en hins vegar ber að athuga það að þessi tillaga er lögð fram af hæstv. fjmrh. og hún kemur fram með nokkuð einkennilegum hætti. Hún kemur fram á síðasta klukkutímanum áður en fjárlögin eru samþykkt, aldrei tekin fyrir í nefnd og ég man ekki til að hafi verið mælt fyrir henni, það hefur þá farið fram hjá mér. En eigi að síður ætla ég ekkert að mæla gegn því að það geti verið skynsamlegt að gera svo sem tillagan gerir ráð fyrir. Ég ætla ekki að mæla gegn því á þessu stigi en þetta mál hefur bara

ekkert verið rætt hér á hv. Alþingi. Og mér finnst þetta bera afskaplega sérkennilega að svo ekki sé meira sagt. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því í sambandi við lánsfjárlögin hvort ætlunin sé að taka inn á lánsfjárlög lántökuheimildir í þessu skyni eða með hverjum hætti sé hugsað að framkvæma þessa heimildargrein og á hvaða stigi málið sé. Hér er ekki um neitt smámál að ræða. Hér er um að ræða öll orkuveitufyrirtæki í heilum landshluta. Ég ætla ekki að mæla því gegn og er ekki tilbúinn að mæla á móti því að það geti verið skynsamlegt að vinna í þessa veru en eigi að síður eru þessi vinnubrögð og kynning málsins hér á hv. Alþingi með sérkennilegum hætti svo að ekki sé meira sagt og vil ég þess vegna spyrja hvert framhaldið verður.
    Það er alveg ljóst að það er óviss framtíð í efnahagsmálum á næsta ári. Vonandi gengur eftir öll sú bjartsýni sem þessi frumvörp ríkisstjórnarinnar byggjast á en það liggur ekkert fyrir um það enn sem komið er. Enn liggur ekkert annað fyrir en að opinberar skuldir eru að aukast. Það sýnir þetta frv. og önnur. Skuldir bæði ríkis og sveitarfélaga eru að aukast með langvarandi hallarekstri ríkissjóðs og sveitarfélögin hafa farið í sömu áttina núna síðustu árin svo að þetta frv. sem hér er um að ræða lýsir ekki mikið fram á veginn og það lýsir inn í óvissa framtíð.