Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 16:19:47 (3173)


[16:19]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er dálítið merkilegt að formaður Sjálfstfl., hæstv. forsrh., skuli vera að byrja á því milli jóla og nýárs að reikna sér til tekna eitthvað af fylgi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og færa það yfir á Sjálfstfl. Það er kannski vegna þess að hæstv. forsrh. er að búa sig undir að þurfa að svara því sem formaður Sjálfstfl. að úrslitin í þingkosningum kunni kannski að verða í algjöru sögulegu lágmarki. Ef ég man rétt voru úrslit Sjálfstfl. í síðustu þingkosningum í 13. sæti, hæstv. forsrh., af úrslitum Sjálfstfl. á sl. 50 árum eða svo.
    Ég ætla ekkert að útskýra af hverju það hefur verið en það var að vísu staðreynd og gott ef það voru ekki bara einar kosningar þar fyrir utan þar sem hægt var að fara neðar. Það má vel vera að hæstv. forsrh. sé að búa sig undir það að slá eigið met, eigið vallarmet, hvað snertir fylgi Sjálfstfl. og væri vissulega sögulegt ef það gerðist. En ég held að við eigum kannski ekki að vera að verja dýrmætum tíma í andsvörum til þess að velta þessu fræðilega fyrir okkur en allt er þetta nú fróðlegt, sérstaklega hvernig hæstv. forsrh. er byrjaður að reikna. Ég er nokkurn veginn sannfærður um það, hæstv. forsrh., að þeir þingmenn sem út á þetta koma verða a.m.k. ekki í fyrstu í þingflokksherbergi Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Þeir þingmenn sem kæmu út á þennan reikning yrðu a.m.k. ekki allir í fyrstu í þingflokksherbergi Sjálfstfl. Það væri kannski verðugra verkefni fyrir formann Sjálfstfl. að tryggja það að sá ágæti þingmaður sem situr á endanum á ystu röð yrði í þingflokksherbergi Sjálfstfl. eftir næstu kosningar.