Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 17:03:14 (3180)


[17:03]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Við fyrstu umræðu þessa máls, frv. til lánsfjárlaga, benti ég á að sú lánsfjárheimild sem frv. gerir ráð fyrir fyrir Stofnlánadeild landbúnaðarins væri of lág miðað við þá stöðu sem nú er í þeim málum. Til móts við þetta sjónarmið er komið í tillögum meiri hluta efh.- og viðskn. Í brtt. og nál. er vikið að þessu. Þar kemur fram að mikill hluti af þessari aukningu sem lögð er til, 900 millj., verði notaður til að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Slík skuldbreyting hefur farið fram nokkrum sinnum áður og þá borið góða raun, sem betur fer, þannig að í langflestum tilvikum hefur það nægt til að koma bændum fram úr þeim vanda sem þeir hafa þá staðið í.
    Nú er hins vegar ástandið nokkuð öðruvísi vegna þess hvernig aðstæður eru í íslenskum landbúnaði. Það kom skýrt fram í umræðum hér fyrir jólin þar sem bent var á að tekjur bænda t.d. í sauðfjárrækt muni dragast saman nú á síðustu árum um 47% að meðatali en hjá öðrum minna, vonandi, þó það sé misjafnt eftir búgreinum. Þessi staðreynd hefur að sjálfsögðu komið fram í greiðslugetu bænda af lánum í Stofnlánadeild eins og annars staðar.
    Það er því augljóst að hér er um nauðsynlega nauðvörn að ræða fyrir bændur undir þessum kringumstæðum, en hversu mörgum það kemur að notum er hins vegar ekki enn þá ljóst og verður að sjálfsögðu ekki ljóst fyrr en umsóknir um slíka skuldbreytingu munu liggja fyrir. Þá kemur í ljós hvort staða margra bænda er orðin svo að þessi leið verði ekki lengur fær til að rétta þeirra hlut og að sjálfsögðu gengur það ekki ef tekjusamdrátturinn verður viðvarandi þannig að áfram haldi að síga á ógæfuhliðina.
    Ég vil því leggja áherslu á það að þrátt fyrir þessa nauðsynlegu aðgerð nú, sem ég vænti að allir séu sammála um að sé eðlilegt að gera og muni reyna að standa þannig að að komi að sem bestum notum, þá er auðvitað framhaldið sem skiptir mestu máli. Þ.e. afkoma bænda. Þar er óvissan því miður allt of mikil og horfurnar ekki góðar, það finna allir sem eiga viðræður við bændur hversu áhyggjufullir þeir eru vegna þess hvernig þrengir að þeirra högum. Það er augljóst að slíkt ástand má ekki vara mikið lengur, ef ekki á að koma til mjög alvarlegs samdráttar og búseturöskunar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þjóðfélagið í heild. Á það vil ég leggja sérstaka áherslu af þessu tilefni um leið og ég endurtek að ég vonast til að það takist að framkvæma þetta með góðri aðstoð allra þannig að það komi að eins góðum notum fyrir þá sem það geta fengið og nokkur kostur er.