Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 17:37:23 (3182)


[17:37]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er örstutt. Fyrst um ECU-bréfin. Það verður að gera mun á þeim og hins vegar verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs. ECU-bréfin eru óverðtryggð og gengi þeirra hlýtur að markast að verulegu leyti af gengi slíkra bréfa á erlendum mörkuðum.
    Um verðtryggðu bréfin er það að segja að í raun og veru er þar um breytilega vexti að ræða því að eftir því sem verðbólgan breytist, minnkar eða vex, þeim mun minni eða meiri verða vextirnir á slíkum bréfum. Þetta liggur í hlutarins eðli og þess vegna getur það vel farið saman að það séu fastir vextir á verðtryggðum papppírum en fastir vextir með breytingum síðan sem felast í breytingum á verðbólgu eða viðmiðunum, en hins vegar þá breytast nafnvextir ECU-bréfanna sem eru óverðtryggð.
    Í öðru lagi vegna 6. gr. fjárlaga hef ég þegar svarað því að það hefur ekki verið talið nauðsynlegt að setja í lánsfjárlög lánsheimild vegna veitnanna í Borgarfirði. Þar er spurningin um að reyna að ná samkomulagi um hagstæða rekstrareiningu. Það er ekki hægt að sjá á þessari stundu hver niðurstaðan verður og þess vegna óeðlilegt að setja inn heimild í lánsfjárlög á þessari stundu.
    Í þriðja lagi var spurt um 6. gr. heimildir vegna SKÝRR. Í því sambandi ber að benda á að þar er ekki um sölu að ræða, ekki sérstök lög. Þetta er sameign Reykjavíkurborgar og ríkisins og nauðsynlegt vegna Samkeppnisstofnunar og álits hennar að breyta formi félagsins. Ef um Búnaðarbankann var að ræða þá gilda sérstök lög um viðskiptabanka, þar á meðal um ríkisviðskiptabanka. Það þyrfti að breyta þeim lögum og þess vegna er óeðlilegt að slík klásúla væri í 6. gr., en að breyttum lögum væri hugsanlegt að setja í 6. gr. heimild til sölu á hlutum ríkisins í slíku fyrirtæki.