Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 18:06:30 (3189)


[18:06]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta svar hv. þm. er ekkert svar því að ef hv. þm. vill vera heiðarlegur í málflutningi þá verður hann að segja sannleikann og hann verður að láta það koma fram að dæmið um Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna er ekkert öðruvísi gert upp en var gert í þeirri tíð þegar hann var í ríkisstjórn. Það eru nákvæmlega sams konar framlög úr ríkissjóði á ári hverju eins og þá var gert.
    Það er auðvitað hárrétt að skuldbindingarnar aukast þegar við færum upp til verðlags frá einu ári til annars og stærsta skrefið var tekið þegar það var viðurkennt árið 1989. Það var nefnilega þannig að ríkisstjórnin sem hv. þm. átti sæti í tók ákvörðun um að færa upp ríkisreikninginn með þeim hætti sem nú er gert. Það er enn verið að finna betri leiðir en þá voru fundnar upp. Þetta hefur verið þróað. En þegar við erum að bera saman tölur frá ári til árs verður að hafa tölurnar á sambærilegum grunni og það hefur engin breyting orðið hvað þetta snertir.
    Við skulum taka enn á ný árið 1993, ríkisreikningurinn kemur innan tíðar, og um afskriftirnar á því ári. Það er auðvitað stórkostlegur halli sem kemur fram vegna þess að það er verið að afskrifa eignir sem hafa verið færðar inn í ríkisreikninginn mörg árin þar á undan og það er afskrifað einu sinni. Auðvitað mætti kannski að deila þessu aftur í tímann og segja: Þetta eru afskriftir sem áttu kannski frekar heima í ársreikningum fyrri ára. Svona gerist þegar menn eru að færa upp höfuðstól og efnahagsreikning, en það sem við eigum að bera saman fyrst og fremst er greiðsluhallinn. Og þá kemur í ljós, virðulegi forseti, að hjá núv. ríkisstjórn hefur gengið mun betur að samræma hin raunverulegu útgjöld, hinn raunverulega halla, þeim halla sem var samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Það eru gífurlega bætt vinnubrögð hvað þetta snertir, sem betur fer.