Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 18:10:06 (3191)


[18:10]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins nokkur orð undir lok þessarar umræðu sem senn kunna að verða. Ég saknaði þess að hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa svarað eða tekið ítarlegar til máls í umræðunni en hann hefur gert hingað til, svo ekki sé minnst á hæstv. forsrh. sem hefði verið stórfróðlegt að heyra eitthvað í, en ég treysti því að áður en umræðunni ljúki þá svari þessir hæstv. ráðherrar einhverju. Þá meina ég bæði þeim efnislegu spurningum sem fram hafa verið bornar og tjái sig líka eitthvað almennt séð um þá umræðu og þá gagnrýni sem hér hefur komið fram.
    Ég sakna þess sérstaklega að hæstv. fjmrh. hefur valið þann kost að taka þátt í umræðunni í formi andsvara og hefur verið í nokkrum stuttum andsvörum og frekar stutt í honum taugin, eins og stundum er sagt, í þeim. Ég segi nú ekki af því að það eru jólin að hæstv. ráðherrann hafi verið snakillur en það jaðrar við. Menn hefðu sagt það í minni sveit að hann hefði verið heldur snakillur í andsvörum og órór eitthvað og órólegur eins og kom glöggt fram í orðaskiptum hans áðan við hv. þm. Svavar Gestsson.
    Gæti það ekki verið, hæstv. forseti, að ástæðan væri sú að hæstv. fjmrh. finnur það sjálfur, hann skynjar það inni í sér að spilaborgin er hrunin til grunna. Hin glæsta borg um hallalausan ríkisrekstur, afgang og niðurgreiðslur skulda og annað því um líkt er allt saman hrunið til grunna. Og hæstv. ráðherra er að reyna að komast þannig frá málsvörn sinni að hann hleypur upp í stuttum andsvörum, vefengir tölur sem menn fara með, jafnvel beinar tilvitnanir í opinber gögn, og telur allt byggt á misskilningi, röngum forsendum, ósambærilegum gögnum o.s.frv. Þetta er ekki mjög málefnaleg eða vönduð þátttaka í umræðunni að mínu mati, hæstv. forseti, og hæstv. fjmrh. væri miklu sæmra að ræða hlutina eins og þeir liggja fyrir en reyna ekki sífellt að skjóta sér á bak við slíkt.
    Aðeins fáein atriði í því sambandi, hæstv. forseti. Það hefur komið hér fram, því er ómótmælt, liggur fyrir í opinberum gögnum, að hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, er að skila af sér ríkissjóði ef honum eru reiknuð til gjalda árin 1992 til og með ársins 1995, þ.e. þau heilu almanaksár sem hann ber sem fjmrh. ábyrgð á í þeim skilningi að leggja fram fjárlagafrv. viðkomandi ára, þá er hæstv. fjmrh. að skila ríkissjóði af sér með 38--40 milljarða halla. Það er staðreynd. Því hefur enginn reynt að mótmæla og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. reyni það ekki heldur. Ef við segjum að árið 1991 sé ekki sanngjarnt að færa að öllu leyti á reikning hæstv. núv. ráðherra þá standa eftir þær tölur að hallinn á árinu 1992 var 9,5 milljarðar, á árinu 1993, bráðabirgðatölur að vísu, 10,6 milljarðar, á árinu 1994, samkvæmt nýsettum fjáraukalögum, um 10,5 milljarðar og samkvæmt fjárlagafrv., sem var afgreitt fyrir jólin, 7,4 milljarðar á árinu 1995. Þetta gerir 38 milljarða. Það er ekki hægt að fá út neitt annað. Þetta eru bestu fáanlegar niðurstöðutölur sem nú liggja fyrir.
    Hættan er þó, eins og við vitum, að þetta verði verra. ( Gripið fram í: Á verðlagi hvers árs.) Á verðlagi hvers árs. Síðan kemur það til, þó verðbreytingar séu að vísu ekki orðnar mjög miklar á seinni hluta tímans, að ríkisreikningur fyrir 1994 liggur ekki fyrir og reynslan hefur sýnt að tilhneigingin er í þá átt að útkoma verði verri, og mikil ósköp með fjárlög ársins 1995, og því er auðvitað veruleg hætta á að hallinn verði meiri ef marka má reynsluna. Þannig að, hæstv. forseti, hvað sem hæstv. fjmrh. reynir þá kemst hann ekki í kringum þá staðreynd að hann er að skila af sér ríkissjóði með methalla á einu kjörtímabili upp á 38--40 milljarða. Það er niðurstaðan, það er staðreynd. Og ég er jafnvel viss um að kjarkmaðurinn hæstv. fjmrh. reynir ekki að neita því.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, svo bara tvennt sé tekið, er það þetta með hina ábyrgu stefnu. Það var eitt meginleiðarljósið að þessi ríkisstjórn mundi taka upp gerbreytta og miklu ábyrgari stefnu í efnahagsmálum í ríkisfjármálum. Hún mundi aldeilis taka til í þeim efnum og ekki skilja eftir sig þegar hún stæði upp þó að mann gruni að vísu stundum að hæstv. ráðherrar hafi séð það í hillingum að þeir sætu langt fram á næstu öld þegar þeir voru að byrja og róa milli lands og eyja á fyrstu dögum stjórnarmyndunarviðræðnanna, þá yrði alla vega ekki fyrir að fara fortíðarvandanum, nær það yrði að þeir létu af embætti. Nei, aldeilis ekki. Þá skyldi nú öðruvísi að málum staðið.
    Nú liggur það sem sagt fyrir að svona hefur þetta nú farið með hin hallalausu fjárlög og afganginn og allt þetta en það sem mér finnst, hæstv. forseti, þó að mörgu leyti enn þá meira sláandi er sú staða sem blasir við okkur núna gagnvart fjárlögum næsta árs í ljósi þess að þjóðhagshorfur eru loksins nokkru betri. Það er viss bati merkjanlegur og vonandi einnig fyrirsjáanlegur á næsta ári og þá reynir náttúrlega á það með alveg nýjum hætti hvernig menn ráðstafa honum. Það er ekki búið að fara svo fáum orðum um það hvernig menn ætla að standa að því þegar batinn loksins láti á sér kræla. Þá munu náttúrlega hinir ábyrgu menn kunna með það að fara, eða hvað? Hefur það ekki verið sagt nokkrum sinnum af hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. svo að ekki sé nú minnst á hinn fjarstadda hæstv. utanrrh. sem hefur gapað öðrum mönnum meira um það hversu mikilvægt það sé að kunna með hlutina að fara, ekki síst þegar góðæri er komið. Hvar er hann í dag, hæstv. utanrrh. Hann er alla vega ekki sýnilegur í því að orð hans hafi haft einhver áhrif á t.d. niðurstöðutölur fjárlaga fyrir árið 1995. Þetta tvennt tel ég, hæstv. forseti, hallann á ríkissjóði, hallareksturinn, Íslandsmet hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar annars vegar og hina ábyrgu stefnu, eða hitt þó heldur, hins vegar sem eykur ríkissjóðshallann og eykur skuldasöfnunina í beinu framhaldi af upplýsingum um batnandi þjóðarhag, ráðstafar því þannig, tel ég vera markverðustu niðurstöðu þessara umræðna.
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, ætla ég að nefna skuldir og skuldastöðu hins opinbera. Yfir það hefur reyndar verið rækilega farið. Hæstv. fjmrh. getur ekki þvegið af sér gögn til að mynda frá Seðlabankanum. Það þýðir ekkert að koma hér og segja að ræðumenn hafi misskilið hluti eða séu að bera saman með ósambærilegum hætti eitthvað sem þeir bera ekki skynbragð á. Ég hef fyrst og fremst máli mínu til stuðnings notað nýleg gögn frá Seðlabankanum. Ég verð að segja alveg eins og er að ég á því ekki að venjast, ég minnist þess ekki að fjármálaráðherrar í vörn sinni og þröng seilist svo langt um hurð til lokunnar að þeir reyni að vefengja það sem Seðlabankinn setur á blað um þetta efni. Það eru aldeilis karlar, segi

ég nú bara, sem treysta sér til þess af hyggjuviti sínu eða júridísku innsæi sem lögfræðingar að blása á allt það sem kemur frá hagdeild Seðlabankans og Seðlabankanum til að mynda um mælingar á hreinni skuldastöðu hins opinbera. Ja, miklir menn erum við. Ég segi nú ekki annað en það.
    Hæstv. fjmrh. stendur alveg varnarlaus gagnvart þessari töflu um hreinar skuldir hins opinbera borið saman við landsframleiðslu sem sýnir alveg hrikalega þróun í hans tíð á þessum sömu, dökku dimmu árum eða aukningu úr 15% sem skuldirnar stóðu í þrjú ár síðustu ríkisstjórnar og voru nokkurn veginn stöðugar í upp undir 35% ef lagðar eru saman skuldir ríkis og sveitarfélaga núna. Þetta liggur náttúrlega fyrir. Nettóskuldaaukning þessara aðila, ef hún er tekin, það er fróðlegt fyrir menn að fara í það, það er hér í fylgiskjölum með nefndaráliti minni hlutans frá Seðlabankanum. Á fyrstu blaðsíðu á því fskj. er m.a. til viðbótar við hallann gerð grein fyrir þróun skulda hins opinbera, bæði brúttó og nettó sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Og staðan er þannig að skuldir ríkisins nettó eins og kemur fram á tilvitnaðri mynd hafa farið úr 15,7% í landsframleiðslu í 20,9% á árinu 1992, 27,3% á árinu 1993, 29,9% á árinu 1994 og 30,5% samkvæmt áætlun á árinu 1995. Ætlar hæstv. fjmrh. að vefengja þessa tölu? Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. svari því. Ég kippi mér svo sem engin ósköp upp við það þó hæstv. fjmrh. telji mínar vangaveltur og mína útreikninga síst betri sínum í þessum efnum og ég sætti mig prýðilega við það sem leikmaður að fá gagnrýni á slíka hluti. En mér kemur það á óvart ef hæstv. fjmrh. gengur svo langt að blása á það sem sett er fram af aðilum eins og Seðlabankanum, það verð ég að segja.
    Þriðji aðilinn sem hefur svo safnað skuldum á þessu tímabili svo miklu munar eru auðvitða heimilin í landinu. Það er ljóst og um það liggja fyrir óhrekjanlegar tölur, m.a. í svari við fyrirspurn hér á þingi. Og hvað segir þetta okkur, hæstv. forseti, þegar það er að gerast að skuldaaukning í fyrsta lagi ríkissjóðs sem á að standa undir samneyslunni, í öðru lagi sveitarfélaganna sem eru sömuleiðis með mikilvæg, félagsleg verkefni og atvinnumál og fleira á sinni könnu og í þriðja lagi heimilanna leggst með þessum þunga á á þessum árum? Það er ekki mjög björgulegt. Það væri huggun harmi gegn þó einn þessara aðila væri að auka skuldir sínar ef aðrir væru að bæta stöðuna en það er ekki. Allir þessir þrír aðilar sem til samans ráða úrslitum um lífskjörin í þjóðfélaginu, hvernig þeir geta sinnt sínum verkefnum, heimilin framfærslunni, ríkissjóður hinni opinberu samneyslu og sveitarfélögin sínum verkefnum, eru að safna skuldum. Og það ætti náttúrlega að segja meira en flest orð um hættuna upp á framtíðina gagnvart því að velferðarríkið Ísland sigli í strand innan fárra ára. Við getum ekki keyrt þetta svona áfram, það gengur ekki að allir þessir þrír aðilar samtímis axli sífellt meiri skuldabyrði ár frá ári. Svo hugga menn sig við það og er svo sem von að menn leiti að einhverju að viðskiptahallinn hefur minnkað og snúist yfir í jákvæðan jöfnuð og það er gott í sjálfu sér og fyrirtækin hafa rétt úr kútnum, sum hver a.m.k. og greitt frekar niður sínar skuldir. Á því er hins vegar sú hryggilega skýring að viðskiptahallinn er fyrst og fremst minni vegna þess að það hefur dregið úr kaupmættinum í landinu og fólk getur ekki látið eftir sér ýmsa þá neyslu sem það áður gerði. En það er annað og enn alvarlegra sem skýrir kannski minni viðskiptahalla eða betri viðskiptajöfnuð ekki síður og það er að fjárfestingar hafa nánast lagst af og það skiptir auðvitað mjög miklu máli í þessum samanburði, mjög miklu máli. Það er það óhuggulega að inni í þessum bata er fyrst og fremst sú staðreynd að það eru engin aðföng að flytjast til landsins, það eru engin ný atvinnutæki, það eru engar nýjar fjárfestingar að koma inn í landið sem áður stóðu fyrir stórum hluta af þeim viðskiptahalla sem hér var. Viðskiptahalli er alltaf stórhættulegt fyrirbæri í sjálfu sér en það er grundvallarmunur á því hvort hann er að einhverju leyti tilkominn vegna þess að menn séu að fjárfesta, menn séu að byggja upp fyrir framtíðina en ekki bara að eyða. Og það er sú skuggalega hlið á viðskiptahliðinni sem menn mega ekki gleyma í þessum samanburði þó að menn réttilega gleðjist yfir því út af fyrir sig að það er jákvæður viðskiptajöfnuður, að fjárfestingarnar eru nánast engar. Ef þær væru með eðlilegum hætti, 20--25% miðað við landsframleiðslu eins og þær þurfa að vera, eins og þær eru að meðaltali innan OECD, og eins og þær voru á Íslandi meðan hér var einhver uppbygging og einhver fjárfesting, þá væri hér enginn viðskiptaafgangur heldur viðskiptahalli þrátt fyrir miklu minni neyslu almennings.
    Ég get bara sem dæmi tekið það að ef Flugleiðir stæðu núna þessi árin, t.d. árin 1994 og 1995, í fjárfestingum af því tagi sem fyrirtækið gerði þegar mest var umleikis hjá því, 1989--1991, þegar fyrirtækið eitt, þetta eina íslenska fyrirtæki fjárfesti að langmestu leyti í útlöndum í formi flugvélakaupa og síðan flugskýla fyrir eitthvað á milli 15 og 20 milljarða kr., hvað yrði þá um viðskiptaafganginn? Hann færi bara á einu bretti í það. Auðvitað verða menn að muna eftir svona löguðu þegar þeir bera saman tölur að tölurnar viðskiptahallaárin sem við erum m.a. að mæla okkur saman við núna, það voru árin þegar bara þetta eina fyrirtæki fjárfesti fyrir á annan tug milljarða kr. á tveimur eða þremur árum í nýjum flugvélum og fleiri tækjum. Svo er hlálegt að meira að segja kemur núna á hina hlið reikningsins flugvélasala úr landi þegar fyrirtækið ákveður að selja vélar og leigja þær aftur þá færist það okkur til tekna viðskiptabatamegin upp á um 1.800 millj. kr. stykkið þegar ein 737-vél er seld úr landi. Ef hún verður bókfærð núna fyrir áramótin þá munar það næstum því tveimur milljörðum kr. upp í viðskiptaafgang. Svona er margt skondið á bak við tölurnar ef út í það er farið.
    Þess vegna segi ég það, hæstv. forseti, að því miður eru tilefnin til að gleðjast yfir þessum þætti þó sem annars er í eðli sínu jákvæður að hér hefur tekist að koma fyrir viðskiptahalla og skuldasöfnun í þeim skilningi þá á hún sér þessar dapurlegu skýringar að það eru orðnar svo litlar fjárfestingar á Íslandi að þær duga engan veginn til viðhalds. Það er alveg ljóst að fjárfestingar sem komnar eru niður fyrir eða

niður um 15% nægja ekki fyrir afskriftum, þær nægja ekki fyrir viðhaldi þeirra mannvirkja sem til eru í landinu. Það þarf a.m.k. 5% í viðbót til að svo sé og síðan önnur 5--10% til þess að hægt sé að segja að hér sé einhver uppbygging í gangi.
    Á hina hliðina er almenningur náttúrlega búinn að draga geysilega saman neyslu sína, hefur frestað ýmsum fjárfestingum í sínum einkafjárhag eins og til að mynda að endurnýja heimilisbílinn eða kaupa ódýrari bíl o.s.frv. og það mælist í þessum tölum. Nú geta menn haft þau sjónarmið að þessi eyðsla hafi verið um of, um efni fram og allt það og það geta menn rætt, en það tjáir ekki að deila um það að skýringin er sem sagt þessi. Hitt væri virkilega tilefni til að gleðjast ef við hefðum náð því að snúa viðskiptahallanum við og værum komnir í viðskiptaafgang án þess að hér hefði orðið jafnstórkostlegur samdráttur í neyslu og raun ber vitni og án þess að fjárfestingar hefðu minnkað, þá væru hlutirnir í lagi, þá væri gaman að lifa, þá væri þetta eins og það á að vera. En það er það ekki því miður nema menn ætli varanlega að sætta sig við minni neyslu og lægra fjárfestingarstig hér heldur en við þurfum að viðhalda ef við ætlum ekki að dragast aftur úr þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við.
    Þá, hæstv. forseti, að síðustu um þennan viðskilnað almennt og um fortíðarvandann og allt þetta sem mikið hefur verið til umræðu hér á þessu kjörtímabili frá því að það hófst með miklum tilþrifum forustumanna stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., á vordögum 1991. Þá voru haldnar fínar ræður og þá voru gefnar út bækur og þá voru gerðar samþykktir og það átti aldeilis að brjóta í blað eins og hér hefur verið rakið.
    Hvernig standa málin nú? Hvað segir til að mynda hæstv. forsrh. nú? Treystir hann sér til að endurflytja tvær fyrstu stefnuræður sínar, þ.e. kaflana þar um ríkisfjármál nú? Ég efast um það. Ég held að það væri fróðlegt fyrir hæstv. forsrh. að fara í þau rit og velta því fyrir sér hvað hefur gengið og hvað ekki. Er ekki ágætt fyrir okkur öll, hæstv. forsrh., að stunda svona hóflega sjálfsgagnrýni um jól og áramót (Gripið fram í.) og láta það koma fram? Hæstv. forsrh. upplýsir að hann sé með gömul plögg, gamlar perlur úr ritsafni sínu hér á borðinu og kannski fáum við að heyra eitthvað af því hér á eftir.
    Ég tók mér það bessaleyfi, hæstv. forseti, sérstaklega með tilliti til þess að hæstv. utanrrh. er fjarverandi, hefur ekki látið sjá sig hér eins og reyndar allur Alþfl. ( Umhvrh.: Umhvrh. er hér.) Það liggur við að ég taki í höndina á umhvrh. Það gleður mig svo stórkostlega að vita þó af einum eftirlifandi krata í þingsalnum. En að öðru leyti hefur farið lítið fyrir Alþfl. hér og sérstaklega er þetta athyglisvert að hæstv. utanrrh. skuli ekki láta sjá sig hér bak jólum til að ræða um efnahagsmál, erlendar skuldir og annað því um líkt því það hefur nú ekki verið svo lítill gállinn uppi á honum á köflum.
    Hæstv. forseti. Ég tók mér það bessaleyfi að fara í eina gamla ræðu sem hæstv. utanrrh. hafði flutt við stefnuræðu forsrh., útvarpsumræðu 5. okt. 1993, og það muna örugglega ýmsir eftir þessari ræðu því að þá fór hæstv. utanrrh. eins og stundum áður en miklu sjaldnar síðan mikinn og það jaðrar við að hann hafi farið með himinskautum í málflutningi sínum, svo ábyrgur var hæstv. utanrrh. orðinn. Og ég ætla að leyfa mér að taka nokkur gullkorn upp úr þessari ræðu sem fjallaði ekki síst um erlendar skuldir og þann háska sem þjóðinni stafaði af vaxandi skuldasöfnun erlendis en hæstv. utanrrh. sagði m.a. eftirfarandi eftir að hafa vikið að þeirri merku staðreynd að Norðmenn yrðu skuldlaus þjóð við útlönd á næsta ári, þ.e. það átti að ganga eftir á því ári sem senn er liðið, árinu 1994. Ég hef það að vísu eftir norskum efnahagsspekingi að það hafi ekki alveg tekist því að vegna verðlækkunar á olíu erlendis muni þeir ekki verða skuldlausir fyrr en snemma á næsta ári, en það munar nú ekki miklu. En að þessu tíunduðu sagði hæstv. utanrrh., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En þegar við skundum á Þingvöll 17. júní 1994, þá verður því miður öðruvísi um að litast í okkar þjóðarbúskap.`` Þetta vísar til þess að það verði öðruvísi hjá okkur en Norðmönnum. ,,Þá er því spáð að erlendar skuldir okkar til langs tíma fari að nálgast 70% af landsframleiðslu okkar og að greiðslubyrðin verði einhvers staðar á bilinu 30--40% af gjaldeyristekjum. Því er spáð með öðrum orðum að langtímaskuldir okkar verði um 265 milljarðar á afmælisárinu. Hvað er það í samanburði við eitthvað annað? Það nálgast að vera eins og fasteignamat allra fasteigna í Reykjavíkurborg sem er þó heldur hærri upphæð. Spáð er að greiðslubyrðin, það sem við þurfum að borga í vexti og afborganir af þessum háu upphæðum, verði á næsta ári um 51 milljarður kr.`` --- tæplega hálf fjárlögin. Síðan sló út í fyrir hæstv. utanrrh. og hann fór að ræða um árangurinn sem hann ímyndaði sér að væri orðinn í þessum efnum og hirði ég ekki að rekja það en kem aftur inn í ræðu hans þar sem hann segir:
    ,,Virðulegi forseti. Ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir þá er auðvelt að sýna fram á nokkrar bjartar hliðar og að árangur hefur náðst. Þrátt fyrir allt hefur náðst betri árangur hér í ríkisfjármálum en víðast hvar annars staðar.`` Og ég segi bara: Það er ljótt, ástandið víðast hvar annars staðar. ,,Munurinn er bara sá að skuldir okkar í útlöndum eru orðnar hættulega miklar`` segir hæstv. utanrrh. ,,Svíar skulda sjálfum sér. Þótt hallinn í Svíþjóð sé mikill í ríkisbúskapnum er það svo að þegar þeir fara að borga til baka þá borga þeir sænskum þegnum og það mun auka framboð á fjármagni í þeirra bönkum. Það mun lækka þar vexti, það mun skapa þar nýtt vaxtarskeið. Þetta er hættustig hjá okkur`` segir hæstv. utanrrh. í þessum mikla ham þegar hann var farinn að sjá fyrir sér þjóðhátíðina á Þingvöllum um hálfu ári síðar. ,,Þetta er það sem við þurfum að laga. Og þá kemur að því.`` Og síðan segir hæstv. utanrrh.:
    ,,Það er þessa áhættu sem ég vil ekki taka. Og ég skora á Alþingi Íslendinga, því að hér eru þessar ákvarðanir teknar, á alla flokka, á alla pólitíska forustumenn, ég skora á ykkur að efna til þjóðarsáttar

um eitthvað annað en rányrkju, um eitthvað annað en skattsvik og um eitthvað annað en erlenda skuldasöfnun. Vegna þess að þegar við steðjum á Þingvöll til þess að fagna 50 ára afmæli lýðveldisins þá skulum við reyna eftir megni að sýna okkar þegnskap í verki með því að færa lýðveldinu aðra gjöf en gjaldfallna víxla. Við skulum láta það sannast á Alþingi Íslendinga að hér eru ekki bara í fyrirsvari sendiherrar sérhagsmuna`` og var nú skondið að hæstv. utanrrh. skyldi detta í hug þetta orð, sendiherra, sendiherrar sérhagsmuna. ,,Að hér eru menn sem geta vikið þröngri sérhagsmunagæslu til hliðar og sameinast um það þegar almannaheill krefst að taka á þessum skuldamálum eins og lagt er til með því að við styrkjum þetta fjárlagafrv., meginmál þingsins, með því að lækka frekar ríkisútgjöld. Tillögur um það verða lagðar fram fyrir ykkur, hv. þm., sem og mun það styrkja tekjuhliðina með því að sameinast um að koma á skattlagningu fjármagnstekna.`` Lýkur hér tilvitnun í ræðu hæstv. utanrrh. í október á því herrans ári 1993.
    Svo skundaði hæstv. utanrrh. á Þingvöll ( Gripið fram í: Það gerðu fleiri.) og það gerðu fleiri, gekk misvel að komast leiðar sinnar eins og kunnugt er, ( Gripið fram í: Sumir komust alls ekki.) sumir komust alls ekki en þó átti það ekki við um hæstv. utanrrh. sem varð að ósk sinni að komast á Þingvöll.
    En hvernig líta svo málin út við afgreiðslu fjárlagafrv. meira en ári síðar að þessi ræða var flutt? Hvaða niðurstöður eru að birtast okkur hér um erlendar skuldir, m.a. um erlenda skuldasöfnun ríkissjóðs sjálfs á lýðveldisárinu, á afmælisárinu sem hæstv. utanrrh. talaði af þessum tilfinningahita um? Það er ekki björgulegt því að af um 15 milljarða lántöku ríkissjóðs nettó hefur ríkissjóður sótt yfir 11 milljarða til útlanda samkvæmt þessum frægu munnlegu upplýsingum sem drógust út úr fjmrn. rétt fyrir Þorláksmessu. ( JGS: Þær voru orðnar skriflegar núna.) Þær eru að vísu komnar á pappír hér, já. Og ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst það lélegt af hæstv. utanrrh. að bjóða okkur svo upp á þögn og fjarveru við umræður um efnahagsmál hér í kringum þessi áramót. Mér finnst það lélegt. Mér finnst það lítilmannlegt af kempunni sem tók ekki þetta litla upp í sig. ( Gripið fram í: Hann er að undirbúa prófkjör.) Það kann að vísu að vera að margt mæði á hæstv. utanrrh. núna og hann á ýmislegt erfitt fram undan eins og kunnugt er, hugsanlega prófkjör hér í höfuðborginni og fleira. En ég lýsi eftir hæstv. utanrrh., ég óska eftir því að hann tjái sig um það í þessum umræðum einhvern tíma á þessum dögum, hvað er nú orðið um eldmóðinn í hinni snemmbornu þjóðhátíðarræðu sem flutt var í október 1993, 8--9 mánuðum fyrir þjóðhátíðina? Hvar er nú allur móðurinn í kempunni sem stendur að því með flokki sínum, leifunum af honum, að afgreiða fjárlagafrv. með auknum halla og erlendri skuldasöfnun sem aldrei fyrr í batnandi árferði. Hvar er hinn ábyrgi stórsnillingur og höfuðkempa hæstv. utanrrh. sem hélt þessa tilfinningaþrungnu ræðu? Hvar er hann nú, hæstv. utanrrh.? Og skattlagning fjármagnstekna úti í hafsauga, búið að semja það af Alþfl. að geta þó haldið þeirri einu fjöður á afturendanum þegar hann fer í kosningarnar? Það er farið af honum líka.
    Auðvitað er það mjög sérkennilegt, hæstv. forseti, og lýsandi fyrir ástandið í þessum efnum að hæstv. utnarrh. skuli vera eins og gufaður upp, kannski ætti maður að segja gufaður út, samanber útlönd. Hæstv. utanrrh. hefur mikið haldið sig þar upp á síðkastið og lætur ekki sjá sig í umræðum um þessi mál.
    Niðurstaðan, hæstv. forseti, er alveg skýr. Hún liggur fyrir og hæstv. fjmrh. er hér harla einmana í málsvörninni. Það birtist okkur í þessum plöggunum, í fjárlögunum, í lánsfjárlagafrv., í fjáraukalögunum og í öðrum gögnum, uppgjöf og skipbrot í ríkisfjármálum og efnahagsmálum á þessu kjörtímabili, það er orðin óhrekjanleg staðreynd.