Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 18:39:11 (3192)


[18:39]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mun í þessari ræðu minni nefna til sögunnar nokkur atriði sem hv. þingmenn hafa nefnt í sínum ræðum. Að sjálfsögðu verður það svo að eitthvað fer fram hjá manni, ekki síst þegar umræðan er jafnslitrótt og gerðist í þessari 2. umr. sem hófst reyndar fyrir jól. En það var þá sem hv. 6. þm. Norðurl. e. spurðist fyrir um það hvernig ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við því vandamáli þegar stórinnlausn á spariskírteinum færi fram í febrúar nk.
    Hv. þm. ræddi einnig um samspil vaxta og gengis og spurðist fyrir um álit á því hvort ástæða væri til þess að óttast vaxta- eða gengisbreytingar. Nú er það svo að það sem hv. þm. sagði er rétt, enda eftir Seðlabankanum haft, að tækin sem Seðlabankinn gæti notað væru annað hvort vaxtatæki eða gengistæki. Það eina sem ég get sagt af þessu tilefni og bætt við er að það eru engar efnahagslegar forsendur til gengisbreytinga og ég held að það sé öllum ljóst og til marks um það má benda á að viðskiptajöfnuðurinn er hagstæður þriðja árið í röð en með því að skoða hann kemur í ljós að ekki er ástæða til að breyta gengi af þeim sökum en oftast hefur verið nefnt til viðmiðunar að ef viðskiptajöfnuðurinn er öfugur, mikill halli við útlönd, þá sé gengisstefnan í hættu.
    Það sem ég vil segja um þetta mál er það að auðvitað hlýtur ríkisstjórnin að kappkosta að ná sem mestum hluta þess fjármagns sem er leyst inn í febrúar aftur í einhverju formi, annaðhvort í skammtíma- eða langtímalánum. Það er ekki hægt fyrir mig hér og nú að lýsa því nákvæmlega hvernig það verður gert en Seðlabankinn annars vegar og Lánasýsla ríkisins hins vegar hafa það verkefni að undirbúa slíkar lántökur fyrir hönd ríkissjóðs og vinna nú að því. Það er m.a. þess vegna sem ég lagði mikla áherslu á að fá afgreidd lánsfjárlög sem allra fyrst til þess að tefja ekki þann undirbúning. Það er ekki hægt að svara þessu

í einstökum atriðum enda veit ég að hv. þm. skilur það að ég get ekki nákvæmlega upp á gráðu sagt hvernig fara á að þessu. Það væri ekki í takt við þá hætti sem nú eru notaðir á lánsfjármarkaðnum ef ég segði í öllum aðalatriðum, jafnvel í einstökum smáatriðum hvernig fara skuli að, en ég get fullvissað hv. þm. um að að þessu máli er unnið og undirbúnigur þegar hafinn.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, 8. þm. Reykn., flutti langa ræðu í dag og sagði þá m.a. að hann hefði á sínum tíma varað mjög eindregið við því að ríkisstjórnin legði fram yfirlýsingu um hallalaus fjárlög og benti á það þegar í upphafi og spurðist síðan í framhaldi af því hvort menn hefðu vísvitandi verið að blekkja þegar þeir lýstu því yfir að ríkisstjórnin stefndi að því að leggja fram hallalaus fjárlög í lok kjörtímabilsins.
    Það er út af fyrir sig þakkarvert ef það reynist rétt að hv. þm. hafi á sínum tíma varað ríkisstjórnina við. Það er ávallt þannig að góð ráð eru vel þegin en til þess að rifja þetta mál upp þá held ég að hv. þm. verði að átta sig á að þessi yfirlýsing var gefin eftir kosningar þegar sett var niður starfsáætlun ríkisstjórnarinnar og auðvitað voru menn ekki vísvitandi að blekkja þegar markmiðið var sett fram, síður en svo. Þetta voru engin kosningaloforð heldur markmið sem sett voru niður eftir kosningar.
    Þá má spyrja: Hvað breyttist? Og það er einmitt það sem er kjarni málsins að viðurkenna að það urðu stórkostlegar breytingar í íslensku efnahagslífi skömmu síðar þegar ljóst var að þorskaflinn var takmarkaður verulega, verð á fiskafurðum erlendis lækkaði stórkostlega, það var talið í tugum prósentna frá árinu 1991 og fram á þetta ár þegar verð fór aftur að rísa. Öll ytri skilyrði urðu því lakari og verri og ljóst að ríkisstjórnin varð að setja sér ný markmið. Það var gert með fyllilega heiðarlegum hætti, opinberum hætti, skömmu síðar og frá því sagt að ekki yrði hægt að ná þessum markmiðum. Það er langt, langt síðan ríkisstjórnin sagði frá því að ekki væri hægt að ná þessu markmiði sem nú er klifað á að hún hafi sett sér í upphafi vega. Þetta þarf að koma fram enn á ný því að mér heyrist að hv. stjórnarandstæðingar hafi gleymt því í hvaða röð þessir hlutir gerðust.
    Hv. þm. sagði síðan að höfuðstefnumið fjárlagafrv. væri gott og minntist á í því sambandi að þar stæði að nota ætti efnahagsbatann til að minnka hallann og þetta væri skynsamlegt og um það er ég hv. þm. sammála, enda hefur hann reynslu sjálfur af stjórn ríkisfjármálanna. Síðan sagði hv. þm. að við hefðum notað efnahagsbatann til að auka hallann. Auka hallann frá hverju? Frá hallanum á yfirstandandi ári? Halli ríkissjóðs á yfirstandandi ári, þ.e. í fjárlögum yfirstandandi árs, er 9,6 milljarðar. Hallinn í fjárlögum sem við samþykktum rétt fyrir jól eru 7,4 eða 7,5 milljarðar. Það er tveggja milljarða munur á þessum stærðum og það er vegna þess að efnahagsbatinn er notaður að verulegu leyti til að ná niður hallanum á ríkissjóði.
    Nú er það reyndar þannig að svo kann að fara að greiðsluhallinn á yfirstandandi ári verði í raun lægri en við reiknuðum með. Það kann vel að fara svo og það er auðvitað mikið fagnaðarefni og ég hlakka til þess þegar hv. þm. stendur upp og ræðir þau mál þegar hið sanna kemur í ljós, væntanlega í febrúar. En ég býst við að hv. þm. hafi verið að vitna til þess að hallinn frá fjárlagafrv. hafi aukist um tæpan einn milljarð. Það er rétt. Það var nefnilega niðurstaðan að auka útgjöldin og við skulum bara viðurkenna það. Og í hvað fóru þessi auknu útgjöld? Þau fóru í fyrsta lagi í að gera samninga við stórar sjúkrastofnanir í Reykjavík, bindandi skriflega samninga, sem gera ráð fyrir því að stjórnendur sjúkrahúsanna fari að fjárlögum. Þetta hafa þeir sjálfir undirskrifað. Af hverju var þetta gert? Þetta var gert vegna þess að við höfðum áhyggjur af því, að fenginni reynslu frá 1991, að erfitt sé að halda mönnum við efnið á kosningaári. Þess vegna var svona farið að. Þetta veit ég að hv. þm. skilur allra manna best.
    Í öðru lagi var ákveðið að taka ekki 600 millj. kr. frá sveitarfélögunum inn í Atvinnuleysistryggingasjóð. Þeir peningar eru eftir hjá sveitarfélögunum og nýtast þar, hjá sveitarfélögunum sem hafa skuldsett sig mikið á undanförnum árum. Og í þriðja lagi, sem er mikilvægast, var ákveðið að setja 1.250 millj. kr. í vegalagningu til þess að auka atvinnu og bæta samgöngur í landinu. Þetta eru auðvitað meginskýringarnar á því af hverju hallinn óx frá fjárlagafrv. til fjárlaga sem nú hafa verið samþykkt. Þetta veit ég að hv. þm. skilur og við höfum kappkostað, þeir sem hafa stjórnað þessu verki nú, að læra af reynslunni frá 1991 með því að setja fram fjárlög sem hægt er að taka mark á og sem væru ekta fjárlög. Við erum líka að kappkosta það núna að klára lánsfjárlögin af því að við viljum ekki hafa lánsfjárlögin með þeim hætti að þau séu opin og verði eins konar aukafjárlög fram að kosningum. Af hverju? Af því að við sáum hvernig fór 1991. Þetta eru meginástæðurnar.
    Það sem hv. þm. sagði hins vegar ekki var það að í fjárlögum sem samþykkt voru fyrir jól er gert ráð fyrir minni tekjum og minni útgjöldum sem hlutfall af þjóðar- eða landframleiðslu en allar götur frá árinu 1987, frá því áður en hv. þm. varð fjmrh. Þetta er auðvitað árangur vegna þess að í þessu felst að ríkisumsvifin hafa í raun dregist saman.
    Hv. þm. fór svo á hálar brautir þegar hann fór að tala um vaxtamálin. Hann sagði: Raunvaxtahækkunin á þriggja mánaða ríkisvíxlum hefur aukist um 15% frá því í apríl og þar til í nóvember og á sex mánuðum 15% og tólf mánuðum 25%. Þetta las hann upp úr plaggi minni hlutans, á bls. 10, en það er Seðlabankinn sem gefur þessar upplýsingar. Þar kemur í ljós að vextirnir á þriggja mánaða ríkisvíxlum eftir markaði, þetta eru kaup, vextirnir hækka úr 4,44% í 5,25%. En hann minntist ekkert á það að snemma á árinu 1993 voru vextirnir 11%, 10% og 11% eru tölur sem hann ætti að þekkja sjálfur frá sinni eigin ráðherratíð. Staðreyndin er nefnilega sú að í apríl voru vextirnir langlægstir, þetta eru óverðtryggðar skuldbindingar. Og þó að vextirnir hafi farið upp í 5,25 á óverðtryggðum skuldbindingum þá eru það ekki háir vextir og í raun miklu lægri vextir en gengur og gerist í okkar nágrannalöndum. Það er alveg ljóst að vextir á skammtímaskuldbindingum hafa hækkað að undanförnu og hv. þm. veit af hverju það er, slíkir vextir hafa hækkað í löndunum hér í kring.
    Síðan ræddi hv. þm. um viðskiptaafganginn og um það hvers vegna svo mikið hefði verið tekið af erlendum lánum fyrir ríkissjóð og reyndar komu fleiri hv. þingmenn inn á þetta atriði. Ég er ekki viss um að hér sé um neina byltingarkennda breytingu að ræða frá því sem áður var. Jafnvel á árinu 1990 þegar því var lýst yfir að ekki hefðu verið tekin erlend lán kom í ljós að auðvitað voru tekin erlend lán. Þau voru tekin á milli jóla og nýjárs. Ég veit að ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þm. En það sem skiptir máli þegar þetta er rætt er hver nettóstaðan er. Það er ljóst að þjóðin er að borga niður erlendar skuldir sínar, þjóðin. Ríkið er hins vegar að auka sínar skuldir, þar á meðal sínar erlendu skuldir. En það skiptir ekki öllu máli þegar tekið er tillit til þess að margir aðrir eru að færa fjármagn til útlanda og borga niður sínar skuldir, 6--7 milljarða. Menn eiga að líta á nettótöluna. Það er hún sem skiptir auðvitað máli. Hv. þm. segir síðan: Ekki nýtist það okkur þegar þarf að fara að borga þessar erlendu skuldir til baka, sem ríkissjóður hefur tekið, það hjálpar þeim sem lánuðu peningana. Það er alveg hárrétt, en á sama hátt hjálpar það auðvitað íslensku lífeyrissjóðunum og þeim sem hafa fært peninga til útlanda þegar þeir taka sína peninga til baka og hirða vextina af þeim. Það getur nefnilega verið þannig að það sé eðlilegt og sjálfsagt að ríkið taki lán erlendis ef vaxtakjörin eru góð fyrir ríkið á sama tíma og lífeyrissjóðirnir og aðrir kaupa erlend skuldabréf af því að þeir fá góð vaxtakjör þar. Það kann nefnilega að vera að þegar tekið er tillit til hvors tveggja þá sé þetta hagstætt fyrir Ísland. Þess vegna er ekki hægt að líta þannig á málið eins og hv. þm. gerði og það mátti helst skilja á máli hans að það væri hættulegt fyrir þjóðina að greiða niður skuldir sínar. Það er í raun og veru það sem kemur út úr því þegar maður hlustar grannt á það sem hv. þm. sagði. Það er auðvitað ekki þannig. Það sem við getum hins vegar verið sammála um er að það hefði verið betra fyrir þjóðina ef það hefði komið meira af erlendu áhættufjármagni inn í landið. Ég er sammála því. En flokkur hv. þm. er sá flokkur sem einna mest, ásamt Kvennalistanum, hefur dregið lappirnar þegar talað er um erlenda fjárfestingu hér á landi.
    Ég ætla ekki að fara aftur út í skuldaaukninguna hjá ríkissjóði. Það er auðvitað ljóst að ríkissjóður er að auka sínar skuldir þegar ríkissjóður er rekinn með halla. En ég minni á að skuldaaukningin milli tveggja ára var mest í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, hlutfallslega mest. En auðvitað eru skuldirnar að aukast, það sér hver heilvita maður.
    Hv. þm. Svavar Gestsson, einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, hélt því fram í sinni ræðu áðan, að það væri ekki á árinu 1993 um neinar breytingar að ræða samsvarandi þeim breytingum sem áður urðu þegar var verið að breyta reglum um uppfærslu á skuldum ríkisins á efnahagsreikningi. Þetta er auðvitað rangt. Á sl. ári voru gerðar breytingar á reglum sem gerðu það að verkum að eignir ríkisins, útistandandi eignir ríkisins, voru lækkaðar sem varð aftur til þess að hallinn, bókhaldslegur halli, reikningshalli ríkissjóðs, varð meiri en greiðsluhallinn. Það verður að hafa það sem sannara reynist.
    Hv. þm. koma hér upp hver á fætur öðrum og segja: Við erum hérna með tölur frá Seðlabankanum. Þeir tala um Seðlabankann eins og þetta sé einhver guðleg stofnun sem sendi frá sér heilagan sannleik í öllum málum. Ég ætla ekki að gera lítið úr Seðlabankanum, mér dettur það ekki í hug. En í fskj. með minnihlutaálitinu er einmitt fjallað um fjárlagahallann frá 1991 og þar stendur að fjárlagahallinn 1991 hafi verið 11 milljarðar, 1992 9,5 milljarðar, 1993 10,6 milljarðar og 9,6 milljarðar er hann skráður á yfirstandandi ári. Ég spái því að hann verði kannski í kringum 9 milljarðar og hann er 7,5 milljarðar en ekki 6,5 milljarðar á næsta ári. Þetta eru allt tölur sem koma frá Seðlabankanum. Það má reikna þær og leggja þetta saman. Ég skal taka undir það. Þetta eru þær tölur sem menn telja auðvitað réttastar núna í greiðsluhalla ríkissjóðs og það verður auðvitað að bera saman halla frá einu ári til annars á sambærilegum grunni.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók þennan halla síðan fyrir og sagði að ég væri skuldakóngur o.s.frv., þessa gömlu þulu sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur farið með svo margoft og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er að læra af honum. Ég bið menn um að bíða aðeins. Í febrúar kemur skýrsla um ríkisfjármálin á yfirstandandi ári og þá skulum við ræðast við um þetta. En ég ætla að segja hv. þm. eitt og það er þegar hann var að ræða um viðskiptahallann. Það er nefnilega þannig að þegar um viðskiptahalla er að ræða, þ.e. þegar þjóðin er að safna erlendum skuldum, þá græðir ríkissjóður á því. Árið 1991 var hallinn á viðskiptum við útlönd um það bil 20 milljarðar kr. Af því fékk auðvitað ríkissjóður sinn skammt. Það verður þess vegna þegar við erum að tala um árangur í ríkisfjármálunum að taka tillit til þess að nú höfum við náð þessum árangri án þess að skattleggja skuldaaukningu þjóðarinnar erlendis. Þessu verður að halda til haga og þetta veit ég að hv. þm., sem er glöggur og vel gefinn, skilur ef hann hugsar aðeins sinn gang.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Það liggur fyrir í fyrsta lagi að fjárlögin eru afgreidd með tveggja milljarða lægri halla en á yfirstandandi ári. Í öðru lagi bendir margt til þess að hallinn í ár verði undir fjárlagahallanum. Í þriðja lagi hefur komið glögglega í ljós að viðskiptahallanum hefur verið eytt og íslenska þjóðin er að greiða niður erlendar skuldir, líklega þriðja árið í röð. Í fjórða lagi gerist það í fyrsta skipti á næsta ári að tekjur og gjöld eru lægra hlutfall af vergri landsframleiðslu heldur en verið hefur á undanförnum árum og það þarf að fara aftur til 1987 til þess að finna jafnlágt hlutfall. Og loks, virðulegi forseti, þá hafa fáir haft orð á því að á sl. ári eða á yfirstandandi ári, dróst atvinnuleysið saman sem betur fer og það fólst m.a. í því að hér voru sköpuð 1.500 ný störf. Ég tel að ríkisfjármálin séu þrátt fyrir allt í það góðu lagi að þau geta verið grunnur fyrir íslensku þjóðina, grunnur fyrir stöðugleika, grunnur fyrir að kaupmáttur geti aukist í takt við efnahagsbatann og að því held ég að allir hljóti að stefna.