Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 18:58:19 (3193)


[18:58]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það þarf kokhraustan mann til að lýsa því yfir hér, með 40 milljarða halla kjörtímabilsins á bakinu, með 100% aukninu í nettóskuldum ríkissjóðs á kjörtímabilinu, að ríkisfjármálin séu í góðu lagi. Ef það er í góðu lagi að vera með 40 milljarða halla á einu kjörtímabili og 100% aukningu í hreinum skuldum ríkissjóðs á kjörtímabilinu þá vil ég biðja hæstv. fjmrh. að útskýra hugtakið, hvað er að vera með ríkisfjármálin í slæmu lagi? ( Gripið fram í: Bókhaldið er í lagi.) Hvað er að vera með ríkisfjármálin í slæmu lagi?
    Auðvitað er það þannig, hæstv. fjmrh., að þetta er engan veginn í góðu lagi, það er bara betra að viðurkenna það alveg eins og hæstv. fjmrh. viðurkenndi það núna í þessari ræðu sinni að ríkisstjórninni hefði mistekist við afgreiðslu fjárlaga að ná markmiðum fjárlagafrv. í greinargerð. Og það ber að virða það að hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, viðurkennir nú hér í fyrsta sinn að ríkisstjórninni mistókst að uppfylla frumforsendur fjárlagafrv. við afgreiðslu fjárlaga, þá frumforsendu sem vitnað var í hvað eftir annað í dag og er endurtekin hvað eftir annað í aðalkafla greinargerðar fjárlagafrv., að nota tekjubata þjóðarinnar til að minnka halla ríkissjóðs. Og ríkisstjórn sem mistekst að uppfylla meginmarkmið fjárlagafrv. hefur auðvitað mistekist í sínum grundvallaratriðum. Það er líka fáránleg kenning, hæstv. fjmrh., að reyna að halda því fram að það sé hagstætt fyrir þjóðina, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það, hagstætt fyrir þjóðina að ríkissjóður verði að sækja 11 milljarða erlendis til að fjármagna sig á yfirstandandi ári og atvinnulífið fari með 7 milljarða úr landi þannig að um 18 milljarðar samtals komi þarna til greina. Ef það er hagstætt fyrir þjóðina, hæstv. fjmrh., að haga málum þannig er auðvitað slíkur grundvallarmisskilningur á ferðinni hjá hæstv. ráðherra um framtíðarvelsæld íslenskrar þjóðar að æskilegt væri að hæstv. ráðherra fengi sér smáleiðbeiningu í því á hverju hagstæð sæld þjóðar er byggð.