Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 19:06:10 (3197)


[19:06]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hér fyrr í umræðunum í dag var margvíslegum spurningum og athugasemdum beint til hæstv. forsrh. Þá kom hæstv. forsrh. upp í andsvari, fór að leika sér að tölum í skoðanakönnunum og bað um stjórnmálafræðilegar skýringar á þeim og gaf síðan það fyrirheit, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, að hann kæmi upp í umræðunum og svaraði þeim spurningum og þeim efnisatriðum sem til hans hefur verið beint. Það er auðvitað mjög merkilegur vitnisburður að hæstv. forsrh. skuli síðan ekki treysta sér til þess og ætli að láta ljúka umræðunni eins og orð forseta gáfu til kynna án þess að hæstv. forsrh. færi í vörnina eða sóknina varðandi stöðu ríkisstjórnarinnar og viðskilnað hennar við lok kjörtímabilsins.
    Hér voru settar fram mjög alvarlegar lýsingar á viðskilnaði ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, Sjálfstfl. og Alþfl., eftir stjórnina á ríkisfjármálum, peningamálum og vaxtamálum í þessi fjögur ár. Hér voru settar fram tölur um það að hallinn væri samtals um 40 milljarðar, að ríkisstjórnin væri nú að fara inn á þá braut gagnstætt fyrri yfirlýsingum að nota bata í þjóðartekjum, ekki til þess að minnka hallann, heldur láta hann aukast. Hæstv. fjmrh. var rétt í þessu að viðurkenna að það væru alvarleg mistök og ætlar þá hæstv. forsrh. að láta þar við sitja að hæstv. fjmrh. lýsi því yfir skýrt og afdráttarlaust að þetta grundvallaratriði í efnahagsstefnu fjárlagafrv. hafi mistekist og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ætli að stíga fyrsta skrefið á þeirri braut með fjárlögum og lánsfjárlögum fyrir árið 1995 að auka ríkissjóðshallann þrátt fyrir auknar þjóðartekjur, þvert á viðurkennd efnahagslögmál, þvert á ráðleggingar allra efnahagsstofnana og þvert á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrv.
    Í þriðja lagi var svo sýnt fram á það hvað eftir annað að í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, Sjálfstfl. og Alþfl., hefur hrein skuldaaukning hins opinbera aukist um 100%, að munurinn á árunum 1990--1991, sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa notað hvað eftir annað til að fordæma það sem að þeirra dómi var slæm efnahagsstjórn, stóðu hreinar skuldir hins opinbera í stað. Það var aðeins breyting á þeirri stöðu á árinu 1989 á valdatíma fyrri ríkisstjórnar miðað við fyrri ár. En á öllum árum þessarar ríkisstjórnar hefur orðið samfelld aukning í hreinum skuldum hins opinbera þannig að nú eru þær komnar upp í 35% af landsframleiðslu úr 15% 1990 og 1991. Þetta er auðvitað slíkt risavaxið stökk og þrengir ekki bara svigrúm hins opinbera á næstu árum til þess að snúa við og gera ýmsa góða hluti fyrir atvinnulífið og þegnana í landinu heldur þrengir þetta einnig atvinnulífið í landinu, hæstv. ráðherra. Þess vegna er gersamlega út í hött að hæstv. fjmrh. sé að koma hér og halda því fram að ríkisstjórnin hafi dregið eitthvað sérstaklega úr ríkisumsvifunum. Hún hefur aukið skuldir hins opinbera af landsframleiðslu á þann hátt að þegar hún tók við voru hreinar skuldir hins opinbera aðeins um 15% af allri landsframleiðslunni. Núna eru þær komnar upp fyrir þriðjung af landsframleiðslunni. Halda menn að það komi ekki niður á svigrúmi atvinnulífsins og svigrúmi einstaklinganna og heimilanna í landinu þegar búið er að skuldsetja ríkið með þessum hætti? Auðvitað gerir það það. Það er auðvitað mjög merkilegt að forusta Sjálfstfl., sem hefur haft það sem meginstefnu að draga úr umsvifum ríkisins og efla svigrúm atvinnulífsins í efnahagskerfinu, skuli skilja þannig við að rúmur þriðjungur af landsframleiðslunni sé fyrir fram merktur vegna skulda hins opinbera. Engin ríkisstjórn hefur þrengt eins mikið að atvinnulífinu í landinu í komandi framtíð með því að setja fram skuldabagga af þessu tagi eins og hér hefur verið gert. Þeir sem taka við í framhaldinu geta vissulega, ef þeir kæra sig um, haft á orði harðari dóma um fortíðarvanda en settir voru fram þegar núverandi ríkisstjórn tók við því að það verður erfitt verk fyrir ríkisstjórnir á næstu árum að snúa ofan af þessari hækkun, hæstv. forsrh., að færa súlurnar í reikningsskuldastöðu hins opinbera niður í það þó ekki væri nema það sem var 1991, það verður risavaxið verkefni í ríkisfjármálum á næstu árum að ná hreinni skuldastöðu íslenska ríkisins niður í það sem var vorið 1991. Mér er til efs að það takist á einu kjörtímabili þannig að það verður ekki fyrr en eftir aldamót sem það mun takast að koma skuldum hins opinbera niður í það sem þær voru þegar núv. ríkisstjórn tók við. Svo koma menn hér upp eins og hæstv. fjmrh. og segja að hlutirnir séu í góðu lagi, þetta sé góð efnahagsstjórn og menn geti bara þakkað fyrir góðan árangur.
    Í fjórða lagi hefur svo verið rætt um það hvað eftir annað, hæstv. forsrh., að núv. ríkisstjórn er að fara inn á þær brautir í auknum mæli á síðari missirum að sækja sér rekstrarfé á erlenda lánamarkaði, ekki fjárfestingu heldur rekstrarfé. Ríki sem eru farin að reka sig fyrst og fremst á erlendum lánamörkuðum eru auðvitað komin inn á ákveðna hættubraut, sérstaklega þegar því er haldið áfram þegar batamerkin fara að sjást. Hugsanlega er hægt að réttlæta slíka þróun ef verið er að ráðast í meiri háttar fjárfestingu sem skilar arði í framtíðinni eins og virkjanir eða annað. Það hefði verið óhjákvæmilegt að taka erlend lán ef menn hefðu farið í virkjanir vegna stórframkvæmda. En þegar það er gert á sama tíma og fjárfestingarstigið er að falla svo mjög að lengi þarf að leita í hópi þeirra landa sem við helst viljum bera okkur saman við á Vesturlöndum til þess að finna jafnlágt fjárfestingarstig og er hér hjá okkur á Íslandi er auðvitað alveg ljóst að hér er verið að fara inn í mjög hættulegar brautir.
    Í fimmta lagi, hæstv. forsrh., rifjaði ég upp þá meginyfirlýsingu í stefnuræðu hæstv. forsrh. 4. okt. að ríkisstjórnin mundi tryggja á næstunni vaxtalækkun og það væri sú vaxtalækkun vetrarins sem kæmi atvinnulífinu í gang, vera undirstaðan fyrir bættum lífskjörum og leiða síðan til árangursríkra kjarasamninga og áframhaldandi stöðugleika. Nú hefur hæstv. fjmrh. staðfest í svörum sínum að í staðinn fyrir vaxtalækkanir er hér samfelld þróun vaxtahækkana á undanförnum mánuðum, jafnvel svo að hæstv. fjmrh. viðurkennir það hér að hækkunin, raunvaxtahækkunin á skammtímabréfum ríkissjóðs er 15--25% á síðustu fimm mánuðum. Það eru vissulega lágar prósentutölur, það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. og hann varð að hlaupa aftur í samanburð á árinu 1993, en það var bara svar sem var fullkomlega út í hött vegna þess að við vorum að tala um þróunina, hæstv. fjmrh., og bera það saman við það fyrirheit sem hæstv. forsrh. gaf í stefnuræðunni 4. okt. Hæstv. fjmrh. gafst líka algerlega upp við það í svörum sínum og það er rétt að halda því til haga að skýra það hver sé ástæðan fyrir því að ríkissjóður hefur hvað eftir annað lent í því að geta ekki tekið tilboðum eða látið ganga fram útboð á langtímaskuldabréfum.
    Í nál. minni hlutans hefur verið birt athyglisverð tafla frá Seðlabanka Íslands þar sem hvað eftir annað kemur fyrir á undanförnum vikum og mánuðum: Útboði ekki tekið. Það eru engar vaxtatölur í þessum dálkum hér, bara útboði ekki tekið. ( VE: Það er góð staða að geta hafnað því.) Það er góð staða að geta hafnað því, segir hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. En hvers vegna hefur verið hægt að hafna því? Það er af því að menn hafa farið á erlendan lánamarkað, hv. þm. Það er af því að íslenski peningamarkaðurinn hefur sagt: Útboði ekki tekið og þess vegna ekki boðið í þá pappíra sem ríkið er að leggja fram. Það er ekki góð staða, hv. þm., og það veit hv. þm. ósköp vel.
    Það er ekkert gaman fyrir ríkissjóð eða fjmrh. að þurfa að horfa framan í töflur af þessu tagi þar sem fjmrn. leitar eftir tilboðum. Ef fjmrn. hefði ekki gert neitt í málinu þá væri kannski hægt að halda því fram sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson var að reyna að gera hér í frammíkalli, en það var bara ekki gert. Fjmrn. reyndi bara aftur og aftur. Hver er skýringin, hv. þm.? Er ekki skýringin sú að sú vaxtastefna sem hæstv. forsrh. boðaði í stefnuræðunni er hrunin? Hún er hrunin, hv. þm. Markaðurinn hefur dæmt hana af og það veit hv. þm. Vegna þess að ekki einu sinni aðildarfyrirtæki Verslunarráðsins eru reiðubúin að kaupa þessa pappíra á því verði sem fjmrn. er að reyna að selja þá á.
    Í sjötta lagi hefur það svo komið fram í þessum umræðum að kröfur Seðlabankans á ríkissjóð eru nú við lok þessa árs u.þ.b. 100% hærri en þær voru í árslok 1991. Það hefur verið notað hér ár eftir ár sem vitnisburður um viðskilnað síðustu ríkisstjórnar, um þá efnahagsstjórn sem aldrei mætti aftur innleiða á Íslandi, hver hafi verið staða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum, en í þessu nál. kemur það fram í fyrsta sinn að á sama tíma og í árslok 1991 voru nettókröfur Seðlabankans á ríkissjóð 8,7 milljarðar. Þær eru nú 16 milljarðar og hafa meira að segja fyrr á þessu ári komist upp í 17,6 milljarða. Hvað segja þeir menn, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., sem hér dæmdu mjög hart árið 1991, við þessum tölum? Hæstv. fjmrh. treysti sér ekki til þess að segja orð. Hæstv. fjmrh. treysti sér ekki til þess að segja orð um þessar upplýsingar Seðlabankans í sinni svarræðu hér áðan vegna þess að hún sýnir með afgerandi hætti að það er búið að reka ríkissjóð og halda ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á floti af Seðlabankanum á undanförnum missirum. Það er Seðlabankinn sem hefur haldið þessari ríkisstjórn á floti, sem hefur gert það kleift að ríkisstjórnin hefur ekki þurft að horfast í augu við þennan mikla vanda. En það kemur að því, hæstv. forsrh., það kemur að því að það verður að horfast í augu við þennan vanda og hann er tvöfalt meiri en hann var í árslok 1991. Það er því ekki aðeins þannig að ný landsstjórn þurfi að taka hér við 100% aukningu í hreinum skuldum hins opinbera á kjörtímabilinu, 100% aukningu, heldur verður hún einnig að taka við ástandi sem krefst brýnna aðgerða vegna 100% aukningar á kröfum Seðlabankans gagnvart ríkinu, úr 8 milljörðum í u.þ.b. 16 milljarða. Og það getur ekki beðið, það er staða sem verður að taka á strax en bæði Sjálfstfl. og Alþfl. hafa í þessum umræðum skilað auðu, skilað algerlega auðu í umfjöllun um það vandamál. Þess vegna er það nú þannig að umræðan í dag hefur leitt í ljós að Alþfl. reynir ekki einu sinni að verja þá stöðu sem hér er við viðskilnaðinn þar sem enginn af þeim ráðherrum Alþfl. sem ber ábyrgð á

efnahagsmálum hafa reynt að taka þátt í umræðunum.
    Fjmrh. viðurkenndi í svarræðu sinni hér áðan að ríkisstjórninni hafi mistekist það sem hún setti sér í fjárlagafrv. Og hæstv. forsrh. ætlaði að láta þessari umræðu ljúka án þess að efna það fyrirheit sitt að svara þeirri efnislegu gagnrýni og ábendingum sem hér hafa komið fram. En því miður er það þannig, hæstv. forseti, að það verður erfitt og mikið verk fyrir nýja landsstjórn að loknum kosningum að takast á við þann viðskilnað sem þessi ríkisstjórn skilur eftir sig í ríkisfjármálum og efnahagsmálum.