Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 19:50:39 (3204)


[19:50]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. staðfestir það okkur til ánægju að það var ekki svo fjarri sanni að hann hafi ástundað það að skoða töfrabrögð og læra af þeim sem ungur maður. En það þarf þó nokkra hugmyndaauðgi til samt sem áður að líkja þorski úr Smugunni við kanínur og staðreyndin er auðvitað sú að það eru fyrst og fremst kanínurnar sem eru að koma upp úr hatti hæstv. forsrh. Það eru slíkir ytri ávinningar sem okkur hafa hlotnast. Það eru veiðar utan landhelgi og annað því um líkt. Og það er fátt ef nokkuð meira öfugmæli en að segja að efnahagsbatinn að svo miklu leyti sem hann er raunverulegur og sjáanlegur sé vegna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eins og hæstv. forsrh. er að reyna að segja. Smuguveiðarnar eru ekki vegna stefnu ríkisstjórnarinnar heldur þrátt fyrir hana. En eins og kunnugt er hafði stjórnin það á dagskrá að banna þær veiðar í byrjun. Flest það annað sem núna mælist okkur til tekna í þjóðarbúskapnum er vegna ytri breytinga en ekki vegna árangurs af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.
    Það eru hins vegar innri vandamálin sem við er að glíma í formi atvinnuleysis, skuldasöfnunar á heimilunum og annað því um líkt sem ríkisstjórnin ætti að líta á og horfa þar í eigin barm. Staðreyndin er sú að við hv. þm. skulum ekki síst núna um jólahátíðina tala af mikilli hógværð um batann. Meðan fimmtungur þjóðarinnar gefur það upp að hann hafi ekki efni á jólahaldinu, meðan 5--7 þúsund manns ganga atvinnulausir, meðan heimilin eru að safna skuldum svo milljörðum nemur á hverju ári þá skulum við tala af mikilli hógværð um bata, hæstv. forsrh.