Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 22:07:23 (3212)


[22:07]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil einungis mótmæla því að núverandi ríkisstjórn hafi farið með einhverjum ofsóknum á hendur fiskeldi. Ég vil minna hv. þm., formann efh.- og viðskn. á það að við vorum rétt áðan að ræða um það og rifja upp á fundi nefndarinnar að það hafi einmitt farið 300 millj. kr. í sérstök lán í fiskeldi á starfstíma þessarar ríkisstjórnar til þess að hjálpa þeim fyrirtækjum sem þá voru illa stödd. Mikið af þessum fjármunum eru þegar tapaðir. Síðan held ég að það sé langt til seilst hjá hv. þm. að kenna hæstv. ríkisstjórn um það hvort það er komin sem niðurstaða úr skýrslu og niðurstaða úr reikningum fiskeldisfyrirtækja að þau hefðu ekki fyrir breytilegum kostnaði. Mér finnst að það sé ansi langt gengið að telja það til sérstaks ámælis til handa ríkisstjórninni að það sé verið að fjalla um ákveðnar staðreyndir í rekstri fyrirtækja og ef það kemur út úr reikningum að staðan hafi verið slík á þeim tíma, þá er ekki annað en gera grein fyrir því og reyna síðan að vinna út frá þeim staðreyndum. Hv. þm. þekkir það vel til í rekstri að ef það liggur fyrir samkvæmt reikningum einhvers fyrirtækis að það hefur ekki fyrir breytilegum kostnaði þá þarf að sjálfsögðu eitthvað að gera, annaðhvort að hækka tekjurnar eða lækka kostnaðinn þannig að þetta geti gengið. Eitt af því mikilvægasta sem þessi ríkisstjórn hefur einmitt gert er að styrkja útflutninginn í landinu með því að skrá gengi krónunnar rétt og skrá það á markaði og þessi ríkisstjórn hefur rekið efnahagslífið með viðskiptaafgangi gagnvart útlöndum í fyrra, á þessu ári og væntanlega á næsta ári sem er algert úrslitaatriði til þess að einhver útflutningsatvinnuvegur hér á Íslandi geti borið sig og rekist af einhverju viti.