Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 22:11:15 (3214)


[22:11]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson rifjaði upp áðan þá þurfti að sjálfsögðu að grípa til róttækra aðgerða varðandi fiskeldið þegar núv. ríkisstjórn tók við. Menn höfðu byggt það upp allt of skarpt og á forsendum sem ekki gátu staðist. Mál greinarinnar voru komin í óefni og eins og hefur náttúrlega komið á daginn í afdrifum þeirra fyrirtækja sem hafa verið í þessum atvinnuvegi. En núna er sem betur fer að byggjast upp á nýjan leik starfsemi víða þar sem fyrirtæki höfðu áður farið á hausinn og við skulum vona að þetta geti byggst upp á nýjan leik og menn geti horft björtum augum til framtíðarinnar hvað það snertir. En ég held að það sé ekki rétt af hv. þm. að draga núv. ríkisstjórn fram sem einhvern sérstakan óvin þessarar atvinnugreinar. Þvert á móti þurfti að taka á málum og ég held að núv. ríkisstjórn hafi vaxið í áliti einmitt hjá lánardrottnum þjóðarinnar erlendis fyrir það hversu myndarlega var tekið á þessum málum á sínum tíma og horfst í augu við þann vanda sem til staðar var. (Gripið fram í.)