Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 22:12:39 (3215)


[22:12]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Varðandi það sem hv. þm. sagði hér um viðskiptajöfnuðinn þá er það vissulega jákvætt að vera með hann réttu megin við núllið. Ég held hins vegar því miður að síðustu tvö árin endurspegli viðskiptajöfnuðurinn að einhverju leyti samdrátt í þjóðfélaginu. Það er einfaldlega þannig að það er hægt að keyra hlutina svo niður, það er hægt að draga svo úr fjárfestingu, sem kemur okkur þá í koll seinna meir, að viðskiptajöfnuðurinn verði jákvæður. Við verðum að reyna að greina þar eilítið á milli hvað af því er jákvætt ef má nota það orð í þessu samhengi og hvað aftur með neikvæðum formerkjum. Ég er þeirrar skoðunar að hluti af þessu sé einmitt sá að hér hefur sl. þrjú ár ríkt stöðnun í atvinnulífinu þannig að fjárfestingar eru komnar langt niður fyrir þau hættumörk sem eru viðurkennd alls staðar í kringum okkur því að hv. þm. er mjög tamt að vitna til þess sem gerist í okkar nágrannalöndum og viðskiptalöndum og vill að við tengjumst þeim sem sterkustum böndum. Ég minni þá hv. þm. á þetta að hér eru fjárfestingarnar komnar langt niður fyrir hættumörk og það kemur vissulega fram í viðskiptajöfnuði.