Um fundarstjórn forseta.

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 23:01:35 (3221)

[23:01]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þó ég hafi notað dagskrárliðinn fundarstjórn forseta til þess að kveðja mér hljóðs þá er það fyrst og fremst vegna þess að hér eru að eiga sér stað atburðir og meðferð mála sem er allóvenjuleg. Það var lagt á það gífurlegt kapp af hálfu fjmrh. og forustu ríkisstjórnarinnar fyrir jól að það yrði gefin skuldbindandi yfirlýsing um það af hálfu stjórnarandstöðunnar að lánsfjárlagaumræðunni yrði lokið á þessum sólarhring. Nú gerist það hins vegar við 3. umr. að nokkrir þingmenn stjórnarliðsins flytja brtt.

sem er búin að setja málið í slíkt uppnám að þingflokkur Sjálfstfl. er búinn að þurfa 45 mínútur til þess að halda sérstakan neyðarfund. Ég vil spyrja hvort það sé virkilega ætlunin að svo haldi umræðan áfram eins og ekkert hafi í skorist og þessu sé lokið núna í kvöld. Heldur Sjálfstfl. virkilega að hlutirnir gangi þannig fyrir sig? Það kom ekkert fram um það um hvað þessi þingflokksfundur hafi verið. Hvers vegna var þörf á honum? Hvers vegna er samkomulag um það að halda umræðum áfram rofið af Sjálfstfl. til þess að halda sérstakan neyðarfund í 45 mínútur? Og síðan er enginn af forustumönnum Sjálfstfl. sem hefur í sér manndóm til þess að biðja um orðið til að skýra frá því hvað sé að gerast eða kalla til sín forustumenn annarra flokka til að upplýsa það. ( Umhvrh.: Það var boðið upp á áheyrnarfulltrúa.) Það var hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem gerði það en hann fer nú ekki með . . .  ( MB: Hann er ekki tekinn alvarlega.) Nei, hann er ekki tekinn alvarlega eins og hv. þm. Matthías Bjarnason segir en það vill hins vegar svo til að þessi Vilhjálmur Egilsson er 1. flm. að þessari brtt. sem setti allt upp í loft. Ég vil í fyrsta lagi spyrjast fyrir um það hvað er hér eiginlega að gerast og í öðru lagi vil ég beina því til forsetaembættisins að það verði skoðað að þessari umræðu verði frestað til morguns vegna þess að varla getur Sjálfstfl. ætlast til þess að aðrir flokkar haldi áfram umfjöllun um málið þegar Sjálfstfl. sjálfur hefur þurft 45 mínútur rétt fyrir miðnætti fyrir sérstakan neyðarfund. Það hlýtur því að koma til álita að við ljúkum ekki þessari umræðu hér og nú heldur gefist okkur tækifæri til þess að meta þessa nýju stöðu í ljósi þeirra upplýsinga sem hér kunna að koma fram um niðurstöðurnar af þingflokksfundi Sjálfstfl. og ég óska eftir því að hér verði flutt skýrsla um niðurstöðurnar af þingflokksfundi Sjálfstfl. áður en umræðan heldur áfram. Það er fullkomlega eðlilegt og ekkert hlægilegt, hæstv. umhvrh., og síðan verði það metið í ljósi þeirrar skýrslu hvort umræðan heldur áfram í kvöld eða hvort það verði tekið hlé á henni og henni lokið á morgun. Það er sjálfsagt að ljúka henni á morgun en það getur verið nauðsynlegt að skoða málin áður en hún heldur áfram.