Um fundarstjórn forseta.

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 23:07:14 (3224)


[23:07]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þetta hefur greinilega verið mjög erfiður fundur í þingflokki Sjálfstfl. Það má vel vera að hv. þm. Geir Haarde vilji ekki kalla það neyðarfund þegar forustuflokkur ríkisstjórnarinnar klukkan rúmlega 10 að kvöldi til þegar á að fara að ljúka afgreiðslu lánsfjárlaga biður um sérstakt fundarhlé til þess að geta haldið þingflokksfund vegna ágreinings sem kominn er upp í Sjálfstfl. Ef það er ekki neyðarfundur í þingflokki, sama þingflokki og er að biðja um að málið sé afgreitt, þá veit ég ekki hvað er neyðarfundur.
    Síðan er það einnig rangt hjá hv. þm. að forustumönnum flokka hafi verið skýrt frá því hver hafi

orðið niðurstaðan af þingflokksfundi Sjálfstfl. Það hefur engin slík skýrsla verið gefin. Og heldur hv. þm. virkilega að það geti haldið áfram umræða eins og ekkert hafi í skorist þegar hv. þm. Matthías Bjarnason er búinn að lýsa þeirri brtt. sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talaði fyrir fyrir fundarhléð með þeim hætti sem hv. þm. Matthías Bjarnason gerði? Við viljum fá að vita það hér: Styður þingflokkur Sjálfstfl. þessa brtt. eða ekki? ( GHH: Það kemur bara í ljós.) Kemur bara í ljós. Já, akkúrat. Sjálfstfl. þorir nefnilega ekki að láta upplýsa á þessum sólarhring hvort þingmenn Sjálfstfl. styðja þessa brtt. Og þess vegna hefur Sjálfstfl. ákveðið það að atkvæðagreiðslan eigi ekki að fara fram fyrr en á morgun. Nú er allt í einu hægt að fresta atkvæðagreiðslunni. Nú allt í einu liggur ekkert á að ljúka málinu á þessum sólarhring af því að það passar ekki í ágreininginn í þingflokki Sjálfstfl. Og það er auðvitað mjög merkilegt að það sé ekki hægt að fá svör við því hér hvort þingmenn Sjálfstfl. styðja þessa brtt. eða ekki. ( GHH: Til þess er atkvæðagreiðslan að fá það fram.) Nú, það er bara orðið svona í þingflokki Sjálfstfl. Það veit bara enginn hver styður hvað af því sem stjórnarliðið flytur fyrr en málin koma til atkvæða. Maður fer þá að velta því fyrir sér til hvers þessir þingflokksfundir eru yfir höfuð. Er það bara til þess að hv. þm. Matthías Bjarnason geti lesið mönnum pistilinn og síðan komi það bara í ljós hér í þingsalnum hvernig atkvæðin falla? Það dugir okkur ekki, hv. þm. Við viljum fá að vita t.d. hvort hæstv. forsrh. styður þessa brtt. í ljósi þess sem hann hefur sagt um fiskeldið á undanförnum árum. Við viljum fá að vita, hvort hæstv. fjmrh. styður þessa brtt. og við viljum fá að vita hvort meiri hlutinn í þingflokki Sjálfstfl. hefur komist að þeirri niðurstöðu að styðja þessa brtt. eða ekki. Og ef það er virkilega þannig að það liggur ekkert fyrir um það eftir þennan þriggja stundarfjórðunga fund hvort Sjálfstfl. styður þessa brtt. eða ekki þá er auðvitað fullkomlega óeðlilegt að hægt sé að halda umræðunni hér áfram. Þegar þingmaður stjórnarflokksins hefur forustu um það eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gerði að tala fyrir brtt. við lánsfjárlögin á síðustu stundu og ekki fæst svar við því hvort þingflokkur fjmrh. styður brtt. eða ekki er það fullkomlega eðlilegt að þeirri umræðu sé frestað þar til málið hefur verið upplýst.