Um fundarstjórn forseta.

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 23:10:40 (3225)


[23:10]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Út frá umræðunni sem hefur spunnist um þessa litlu tillögu hlýtur að verða að koma fram að hér er ekki um að ræða neina venjulega þingmannatillögu sem sé eitthvert hipsumhaps hvernig fari með í atkvæðagreiðslu. Hér er um að ræða tillögu sem er flutt af fjórum nefndarmönnum í efh.- og viðskn. að beiðni hæstv. fjmrn. Nefndinni barst bréf frá fjmrn. undirritað af ráðuneytisstjóra þar sem farið er fram á að við þessu verði orðið. Og þegar tillagan kemur fram, sem ég í fáfræði minni og fávisku taldi víst að hæstv. fjmrh. væri búinn að tryggja meiri hluta fyrir í stjórnarliðinu, kemur í ljós að Sjálfstfl. þarf að halda langan þingflokksfund til þess að fjalla um tillöguna. Þá þýðir ekkert fyrir formann þingflokks Sjálfstfl. að koma og segja að það komi okkur hinum ekkert við hvað gerðist á þeim fundi. Ég veit ekki hvernig menn skilja hlutverk okkar hér á Alþingi ef menn leyfa sér að tala svona. Mér datt ekki annað í hug en í framhaldi af þingflokksfundinum yrði kallaður saman fundur formanna þingflokkanna til þess að fara yfir málið og framhald málsins eftir að Sjálfstfl. er búinn að stefna því samkomulagi í voða sem hæstv. fjmrh. lagði ofurkapp á, að afgreiðsla lánsfjárlaga yrði kláruð á þessum sólarhring. Síðan er tillaga borin fram að beiðni hæstv. fjmrh. sem setur allt upp í loft. Svo kemur hv. þm. Geir Haarde og segir: Það kemur ykkur bara ekkert við af hverju við tókum klukkutíma hlé. ( Gripið fram í: Er það orðinn klukkutími?) Það er orðinn klukkutími sem fer í þetta, hv. þm., þegar við tökum umræður á eftir í það. Að sjálfsögðu krefjumst við þess að fá skýringu á því hvað verður um framgang tillögunnar. Efnislega sagði ég það í ræðu minni áðan að ég gæti stutt hana. Mér dettur hins vegar ekki í hug að bjarga ríkisstjórninni fyrir þetta mál ef stjórnarflokkarnir eru ekki sammála um þetta, mér dettur það ekki í lifandi hug. Ég tel því að við stjórnarandstöðuþingmenn eigum heimtingu á að fá að vita það hvernig þetta mál liggur því að í mínum huga hefur málið ígildi stjórnarfrv. Þetta er tillaga sem er borin fram samkvæmt beiðni hæstv. fjmrh. og ég held að ég brjóti engan trúnað þó að ég segi að þeir voru ekki allir með hýrri há sem urðu við þeirri beiðni hæstv. ráðherra þannig að ég held að full rök séu fyrir því að við fáum skýringu á því hvort sú tillaga, sem er borin fram að frumkvæði og að beiðni hæstv. fjmrh., nýtur stuðnings stjórnarflokkanna.