Um fundarstjórn forseta.

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 23:26:27 (3232)


[23:26]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Aðeins út frá orðum hæstv. ráðherra um að hann hefði staðið í þeirri meiningu að þetta mál hefði verið kynnt fyrir efh.- og viðskn. fyrir jólin, þá er um það það að segja að þessi tillaga var kynnt einstökum nefndarmönnum, m.a. þeim sem hér stendur. Hins vegar var enginn fundur haldinn í nefndinni eftir að það var gert þannig að það gafst ekkert tækifæri til þess að fjalla um málið í nefndinni. Það kom í ljós þegar fundur var haldinn í dag að tillagan mun ekki hafa verið kynnt fyrir öllum nefndarmönnum fyrir jólin þannig að einhverjir nefndarmenn voru að sjá hana í fyrsta skipti á fundinum í kvöld. Það er reyndar búið að koma tillögunni í möppu nefndarmanna en ég býst við að fæstir hafi gluggað í möppur sínar yfir jólin. Ég þekki engan þingmann sem hefur það mikinn áhuga á sínum störfum að hann hafi staðið í því. Formlega var þetta því ekki kynnt í nefndinni fyrr en upp úr kl. 8 í kvöld á fundi sem þá var haldinn.