Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 00:05:02 (3239)


[00:05]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Matthías Bjarnason upplýsti það fyrr í kvöld að þetta mál hefði aldrei verið rætt í þingflokki Sjálfstfl. Því var ekki mótmælt í þingsalnum og hefur ekki verið mótmælt enn að sú yfirlýsing hafi ekki verið rétt. Það er þess vegna í fyrsta skipti í kvöld að þingflokkur Sjálfstfl. tekur þetta mál til umfjöllunar. Fyrr var ekki hægt að tala um neina ábyrgð þingflokks Sjálfstfl. á málinu. Það má vel vera að formaður þingflokks Alþfl. ætli að axla ábyrgðina á þessari tillögu fyrir hönd Alþfl. en það verður auðvitað gengið eftir því í umræðum, ef þær halda áfram, hvort hæstv. umhvrh. er aðili að þessari ábyrgð ríkisstjórnarinnar á málinu því að hann er sá eini ráðherranna sem hefur sérstaka sérþekkingu í þessum málaflokki og hefur starfað að hliðstæðum málum hér á árum áður. Auðvitað væri það æskilegt í ljósi málsins alls að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir hvenær ríkisstjórnin axlaði þessa ábyrgð en það getur verið að það reynist snúið fyrir hæstv. ráðherra að gera það.
    Hins vegar hefði mátt spara sér töluvert miklar umræður í þingsalnum ef hæstv. fjmrh. hefði lýst því skýrt og skorinort yfir fyrr í kvöld að þessi tillaga væri flutt á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna. Það hefur ekki komið fram fyrr en nú heldur var ávallt sagt áður að hún væri flutt af þessum fjórum þingmönnum að beiðni hæstv. fjmrh. og þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir fékkst það ekki uppgefið hvort Sjálfstfl. hefði tekið afstöðu með eða á móti tillögunni.