Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 00:31:57 (3244)

[00:31]

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég lít svo á að þingmaðurinn hafi frestað ræðu sinni. Þessi umræða um ríkisábyrgð fyrir Silfurlax er þess eðlis að ég held að það sé ástæða til þess að upplýsa hv. þingheim um það hverjir standa að þessari stöð. Fyritæki í Svíþjóð heitir TetraPak og er eitthvert auðugasta fyrirtæki í Evrópu. Það er í eign, ef ég man rétt og ég vona að ég fari rétt með nafnið, tveggja bræðra sem heita Rösing held ég eða Rovsing, ekki skal ég fullyrða það. En þessir menn eru meðal allra auðugustu einstaklinga áreiðanlega í Evrópu og þó víðar væri leitað, enda hafa þeir þegar lagt í þetta fyrirtæki líklega eitthvað á annan milljarð og munar ekki mikið um. Það hlýtur því að vera sérkennilegt, frú forseti, að hér skuli fárast yfir 50 millj. íslenskra króna, sem eru ekki nema dagpeningar eða vikupeningar manna á borð við þessa góðu bræður, á meðan fyrirtæki sem stendur ágætlega án slíkra, fiskeldisstöðin á Tálknafirði, er neitað jafnvel um fyrirgreiðslu í bönkum. Stöð sem talin er standa allsæmilega. Ég vil spyrja: Vita hv. þm. um greiðslugetu og fjármagnseign þessara ágætu eigenda, sem þegar eru búnir að láta í þetta á annan milljarð? Hvaða ástæða, og ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaða ástæða er til að fara að ábyrgjast 50 millj. fyrir eigendur TetraPak? Vita menn um hvað þeir eru að tala? Þessir ágætu Svíar geta ekki lengur verið í Svíþjóð og hafa ekki verið um árabil vegna þess að þar höfðu þeir allt of háa skatta, búa báðir í Englandi, eftir því sem ég best veit. Ég vil fá að vita hvort hæstv. ráðherra eru þessi mál kunnug.