Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 00:56:05 (3249)


[00:56]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Fyrst varðandi það sem hv. þm. nefndi síðast, þ.e. meintar óskir fulltrúa bandarískra hernaðaryfirvalda um kostnaðarþátttöku við rekstur flugvallarins. Svar við því er að engar slíkar kröfur hafa verið settar fram eftir að samningar tókust 4. jan. sl. um starfsemi varnarliðsins á grundvelli varnarsamningsins með sérstakri bókun. Þar á móti varð samkomulag um það að samstarfsaðilarnir ynnu sameiginlega að lækkun tilkostnaðar við rekstur og þjónustu við varnarliðið. En um kröfu um kostnaðarhlutdeild við rekstur flugvallarins er ekki að ræða.
    Að því er varðar fjárhagsvanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar þá er það rétt sem fram kom í máli hv. þm. sjálfs að allar upplýsingar um það mál liggja fyrir. Ótal tillögur hafa verið settar fram um lausn málsins og mér er tjáð að þær hafi allar út af fyrir sig verið kynntar við umfjöllun í efh.- og viðskn. og þess vegna óþarfi að setja langar tölur um miðjar nætur um þetta mál því það er að fullu upplýst.
    Ef mig ekki misminnir þá hef ég í fjórgang á þessu kjörtímabili flutt tillögur um lausn málsins. ( SJS: Hvar?) Í ríkisstjórn. Á þessu hausti fyrst þann 1. nóv. sl. og flutti nýjar tillögur að nokkru breyttar þann 25. nóv. Fyrsta atriði þeirra tillagna er að leitað verði eftir heimild Alþingis til að skuldbreyta lánum þannig að afborganir miðist við þær tekjur sem munu skila sér með þeim tillögum sem lagðar voru fram þegar tekið hefur verið tillit til rekstrarkostnaðar. Vegna þess að það er rétt sem fram hefur komið að á árunum 1995 fellur í gjalddaga um helmingur þeirra lána sem voru tekin á sínum tíma vegna byggingar þessarar flugstöðvar. Það eru 1.965 millj. kr. af alls 4.200 millj. kr. og á árinu 1997 falla í gjalddaga önnur lán stöðvarinnar.
    Fyrsta tillagan var um það að skuldbreyta þessum lánum og fá til þess heimild Alþingis þannig að endurgreiðslur dreifist á 20--25 ár. Því næst verði gripið til margvíslegra aðgerða varðandi rekstur stöðvarinnar og gjaldtöku vegna flugs og starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Fyrsta tillagan var reyndar sú sem hv. þm. nefndi að frá ársbyrjun 1996 þá tilheyri rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar samgrn. Þetta er tillaga sem var flutt í málamiðlunarskyni vegna þess að allar tillögur sem ég hef flutt um lausn á þessum fjárhagsvanda hafa hingað til strandað á samgrn. sem hv. þm. sagði að hefði feykilega mikið vit á rekstri samgöngumannvirkja umfram utanrrn. Tillagan var með öðrum orðum um að stjórnun flugstöðvar og Flugmálastjórnar yrði aðskilin. Sjálfstæð stjórn hefði það hlutverk að vera yfirstjórn rekstrar flugstöðvarinnar, ábyrg fyrir fjárhagslegri afkomu, markaðssetningu og samskiptum við leigutaka. Hún ráði sér framkvæmdarstjóra sem fari með daglegan rekstur og stjórnun og þessi breyting taki gildi þá þegar.
    Aðrar tillögur vörðuðu breytingu á verslunarrekstri fyrst og fremst sem átti að skila verulega auknum tekjum sem áttu að renna til flugstöðvarinnar, m.a. með því að stækka verulega verslunarrými og auka vöruúrval án þess þó að gera breytingu á því rekstrarformi sem þar er. Þær tillögur voru í ýmsum öðrum smáatriðum en gerðu ráð fyrir verulega auknum tekjum vegna aukins rýmis og aukins vöruúrvals og aukinnar verslunarþjónustu.
    Að því er varðar tekjuöflun þá voru gerðar tillögur um breytingar á húsaleigu. Þótt það sé rétt að húsaleiga sé há þá hvílir hún misþungt á aðilum eftir því hvaða rekstur er um að ræða, hvort um er að ræða ábatasaman og veltumikinn verslunarrekstur eða þjónustu. Húsaleigu átti að breyta í annars vegar grunnleigu, fast gjald á hvern fermetra, og hins vegar veltuhlutfall hvers leigutaka. Fastagjaldið gæti verið annaðhvort breytilegt eftir starfsemi eða það sama hvar sem er í verslunar- og þjónustustarfsemi, leiga vegna geymsluhúsnæðis verði lægri, sameiginlegur kostnaður leigutaka greiðist í hlutfalli við húsaleigu þeirra. Þessi breyting taki gildi um næstu áramót. Þessi tillaga hefði skilað umtalsverðum fjármunum.
    Ein tillagan var sú að þriðjungur núverandi farþegagjalds renni til flugstöðvarinnar en verði ekki tekjustofn flugmálaáætlunar. Farþegagjald í millilandaflugi er nú 1.250 kr. á farþega en 165 kr. á farþega í innanlandsflugi. Allar tekjur vegna farþegagjalds hafa farið til fjármögnunar á framkvæmdum á innanlandsflugvöllum samkvæmt flugmálaáætlun þrátt fyrir að meginhluti teknanna verði til í millilandaflugi. Eðlilegt er að hluti þessara tekna renni til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar enda er uppbygging annarra flugvalla langt komin. Þessi breyting átti að taka gildi í ársbyrjun 1996.
    Reynt verði síðan að auka flugumferð, m.a. með breytingum á rekstrarformi, með sérstöku kynningarátaki og með heimild stjórnar til sveigjanlegrar gjaldskrár til að laða að aukna starfsemi sem gæti skilað tekjum.
    Þetta eru aðalatriði þeirra tillagna, skuldbreyting, breyting á verslunarrekstri og auknar leigutekjur og að einhver hlutdeild af þeim tekjum sem þarna verða til verði til að standa undir þessu. Þannig átti að vera tryggt að tekjur væru fyrir hendi til að standa undir árlegri greiðslubyrði við framlengingu lána.
    Ef mig ekki misminnir þá er þetta í fjórða sinn sem ég hef flutt tillögur í ríkisstjórn um lausn á þessum vanda því sannleikurinn er sá að það er til vansa að þetta mál hefur verið látið drattast árum saman í tíð margra ríkisstjórna, þar á meðal í tíð þeirrar ríkisstjórnar þegar við hv. þm. sátum saman, hann sem samgrh. og beitti sama neitunarvaldinu og sömu andstöðinni við slíkar tillögur.
    Niðurstaðan að því er varðar þessar tillögur er sú að þar sem ágreiningur er uppi við samgrn. þrátt fyrir það að tillaga hafi verið gerð til málamiðlunar um að færa forræði yfir rekstur stöðvarinnar til samgrn. frá árinu 1996, eins og gert var í þessum tillögum, að því var beint til forsrh. að hann beitti sér fyrir því að leysa þennan ágreining milli ráðuneyta svo sem er starfsregla ef ágreiningur er uppi milli fagráðherra.
    En tillögurnar eru fyrir hendi. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. að þær eru út af fyrir sig ekkert sérstaklega nýjar. Það hefur aldrei skort tillögur. Tillögurnar hafa verið fyrir hendi frá utanrrn. árum saman en því miður ekki verið enn pólitísk samstaða um þær. Nú er tíminn að renna frá okkur að því er það varðar. Þessu máli verður ekkert skotið lengur á frest og það verður að taka afstöðu. Þess vegna er leitað eftir þessari lengingu lána og settar fram tillögur um tekjuöflun til að standa undir greiðslubyrðinni.