Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:10:54 (3257)


[01:10]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. utanrrh. að mestallar þessar upplýsingar komu fram í efh.- og viðskn. í kvöld, en þar var jafnframt sagt að það sem vantaði í málinu væru pólitískar ákvarðanir og þess vegna má hæstv. utanrrh. ekki verða undrandi á því að eftir því sé lýst hvaða afstöðu hann hafi í þeim efnum. Það voru gagnlegar upplýsingar út af fyrir sig að hæstv. ráðherra hefur líklega fjórum sinnum árangurslaust lagt til tiltekin úrræði í sambandi við þennan vanda.
    Ég skil það einnig mjög vel að menn hafa ekki haft hátt um það hér að hluti af þessum tillögum sé að skerða flugvallarfarþegagjaldið um einn þriðja til viðbótar þeirri 70 millj. kr. skerðingu sem var verið að gera samkvæmt fjárlögum á flugmálaáætlun. Það er skiljanlegt að menn hafi ekki flaggað því að þar til viðbótar væri e.t.v. í farteskinu viðbótarskerðing upp á einn þriðja af öllu því sem innheimtist í Keflavík.
    Í þriðja og síðasta lagi er það svo rangt hjá hæstv. ráðherra að ég hafi sérstaklega staðið í vegi fyrir honum í síðustu ríkisstjórn varðandi það að leysa þetta mál. Það eina sem ég gerði í sambandi við þetta mál þar var að ég lýsti þeirri skoðun minni, sem ég hef lengi haft, að þetta samgöngumannvirki ætti auðvitað að heyra undir samgrn. eins og önnur. Að öðru leyti lagði ég ekki stein í götu hæstv. ráðherra hvað það varðaði að taka á þessum vanda enda var þá arfurinn nýlega til kominn.