Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:57:44 (3270)


[01:57]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Þessar umræður eru nú orðnar næsta furðulegar og kannski má reyndar segja að þær séu spegilmynd af því hvernig hér hefur verið haldið á málum af hálfu stjórnarflokkanna við þinghald. En ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á vinnubrögð eins og þau hafa komið fram hér við þessa umræðu.
    Ýmislegt hefur þar komið á óvart, jafnvel þó margt hafi gerst að undanförnu sem kannski ætti að koma í veg fyrir að manni komi nokkuð á óvart. Mér finnst það reyndar vera táknrænt fyrir stjórn þessara mála hjá stjórnarflokkunum að ég skuli nú vera annar þingmaðurinn sem kemur inn í ræðu annars hv.

þm. og meira að segja var farið að hafa andsvör hér í kvöld inn í miðri ræðu þingmanns. Ég minnist þess aldrei fyrr en hjá þessum stjórnarflokkum að þingmaður fengi að fresta ræðu sinni til þess að hleypa öðrum þingmanni að. Ef þingmaður óskaði eftir að fá að ræða við eða fá ráðherra til að hlýða á sitt mál þá varð ávallt að fresta ræðunni og fresta fundi. Ég vissi ekki til að það væri samkvæmt fundarsköpum Alþingis að fara þannig að kljúfa ræðu sundur. Ef það varð að binda enda á ræðu þingmanns þá varð hann að ljúka sinni ræðu og hefja nýja ræðu þegar ráðherra væri við ef fundi væri ekki frestað. Þetta finnst mér vera eitt dæmi um þann losarabrag sem er orðinn á þinghaldi. Það er hlaupið út og suður í málin og erfitt að gera sér grein fyrir því eftir hvaða skipulagi er farið í vinnubrögðum. Það finnst mér gilda líka um þetta mál sem við erum að ræða núna.
    Ég varð undrandi á ummælum hv. 8. þm. Reykv., formanns þingflokks Sjálfstfl., eftir að þingflokksfundi þeirra lauk, þar sem hann taldi að engin spurning væri um það hverjir stæðu raunverulega að brtt. á þskj. 509. Sem betur fer mun hv. þm. hafa séð að sér og eftir fundarhlé fékkst nú skýring á þessu og hæstv. fjmrh. bætti þar úr. En auðvitað stafa þessar uppákomur, eins og varla er hægt annað en að nefna þau vinnubrögð sem hér hafa farið fram, ekki af öðru en því að það er enginn undirbúningur á málatilbúnaði hér. Það virðist algerlega vera tilviljun hvernig málum er kastað hér inn. Það var vissulega ástæða til þess við lok fjárlagaumræðu að taka fyrir vinnubrögð sem nefnd hafa verið hér í dag, brtt. hæstv. fjmrh. um heimild til samninga um milljarða kr. lántökur eða eignakaup ríkissjóðs án þess að mæla fyrir þessari tillögu. Mér finnst það satt að segja vera ótrúleg fyrirlitning gagnvart alþingismönnum sem þeim eru sýnd með svona vinnubrögðum. Mér finnst líka, því miður, vinnubrögð efh.- og viðskn. í þessu máli ekki vera nægilega vönduð og verð að taka undir með hv. 5. þm. Reykv. um það.
    Það er sagt að þar hafi verið tvö mál sem hafi verið tekin til umræðu á milli 2. og 3. umr. Annars vegar var það málefni flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, þar sem fjallað var um milljarða kr. lántökuheimild til ríkissjóðs vegna hennar, hins vegar tillögu á þskj. 509 um sjálfskuldarábyrgð lántöku Silfurlax hf. Þegar við lesum þessa brtt. þá endar hún með orðunum, með leyfi hæstv. forseta: ,,. . .  gegn skilyrðum sem fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra setja.``
    Fyrsta spurningin hjá mér þegar ég sá þessa tillögu var: Hver eiga þau skilyrði að verða? Við því er ekkert svar að fá í þingskjölum. Það er vegna þess að það er ekki skilað neinu frhnál. um þessi málefni. Úr því að efh.- og viðskn. taldi nauðsynlegt að halda fund milli 2. og 3. umr. og fjalla þar um svo stór mál, annað alveg nýtt og hitt þar sem mikilvægar nýjar upplýsingar komu fram á nefndarfundi þá var það lágmarkssanngirni gagnvart öðrum þingmönnum að meiri hlutinn gæfi út frhnál. þar sem þessi gögn væru sem fskj. sem gáfu þær upplýsingar sem hér hafa verið lesnar upp á tætingi af hinum og þessum en við þingmenn höfum ekki fengið neina heildarmynd af þessum upplýsingum.
    Ég vildi fara fram á það við hv. efh.- og viðskn. að það yrði bætt úr þessu áður en þessari umræðu lyki og gefið út frhnál. með þeim gögnum og upplýsingum sem liggja til grundvallar í þessum málum. Mér finnst algerlega óviðunandi fyrir hinn almenna þingmann að svona sé haldið áfram að vinna algerlega af handahófi og undirbúningslaust og upplýsingar ekki gefnar sem eru nauðsynlegar forsendur fyrir afstöðu til málanna. Sá dráttur sem hefur orðið á þessari umræðu nú er að kenna þessum handahófsvinnubrögðum, þ.e. að málin eru ekki kynnt í þingflokkum stjórnarliðsins áður en farið er að leggja tillögurnar fram af því að það er engin stjórn og engin yfirsýn virðist vera yfir málefnin sem þarf að leysa og leggja fyrir þingið. Slík vinnubrögð eru auðvitað niðurlægjandi fyrir Alþingi og gefur því miður ekki nógu góða mynd af störfum þess fyrir þjóðina.
    Ég ætla ekki að fjalla efnislega um þessa tillögu en vil taka undir það sem hér hefur komið fram að mér sýnist að eftir þeim upplýsingum sem ég hef verið að reyna að leggja saman gæti verið um að ræða mikilvægar rannsóknarniðurstöður sem fengjust ef þessi starfsemi héldi áfram, þó ekki væri nema eitt ár, rannsóknarniðurstöður sem væru kannski margfalt meira virði en þessar krónur þó há upphæð sé, 50 millj. En hins vegar vil ég taka undir það sem hér hefur verið sagt að þetta handahóf að ákveða að styðja þetta fyrirtæki en ekki hitt er náttúrlega algerlega ólíðandi en í samræmi við þessi handahófs- og fálmkenndu vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna.
    Það hefur aðeins verið vikið hér að sögu fiskeldisins og einu sinni enn heyrist sú skýring að þetta mál hafi ekki verið tekið nægilega föstum tökum af ríkisstjórninni þegar fiskeldi var að byggjast hér upp. Ég get tekið undir að slíkt hefði verið æskilegt en það var ekki viðhorf sem átti upp á pallborðið á þeim tíma. Á minn fund komu þá ýmsir áhugamenn um fiskeldi, m.a. Svíi sem knúði mikið á um að fá leyfi til að hefja það fyrirtæki, Silfurlax, sem hér er til umræðu. Það var hvorugur þessara ágætu bræðra sem hér hafa verið nefndir og þekki ég ekkert þá sögu síðan. En þessir frumherjar stofnuðu fljótlega með sér samtök og eitt var alveg grundvallaratriði í samþykktum þessara samtaka. Það var að þeir vildu ekki afskipti ríkisvaldsins af sínum málum. Það mátti ekki gerast að ríkisvaldið væri að hefta framtak þessara ágætu manna því að ef það gerðist mundi það ekki góðru lukku stýra. Því miður fór það svo að vonirnar rættust ekki og þá var síðan farið að snúa sér til ríkisins þegar í óefni var komið. Vissulega get ég tekið undir að það hefði verið betra að slíkt viðhorf hefði verið fyrr hjá þessum ágætu aðilum. Það var hins vegar erfitt að standa þannig að málum að hægt hefði verið að segja að vegna afskipta ríkisins hefði verið lagður steinn í götu þessara hugsjónamanna til að byggja upp álitlegan atvinnuveg því að það er ég enn sannfærður um að fiskeldið er þó að svona hafi tekist til hér. Sanna tölurnar sem hafa verið nefndar frá

Noregi að hér er vissulega um mikilvægan atvinnuveg að ræða.
    Þá er eitt atriði að lokum sem ég vildi víkja að og það er ræða hæstv. forsrh. í lok 2. umr. um þetta mál. Vissulega hefði verið ástæða til þess að kveðja sér hljóðs þá þegar að lokinni þeirri ræðu en ég vildi ekki tefja það að hægt væri að ljúka 2. umr. um málið. En því miður mun því vera svo farið að hæstv. forsrh. hefur a.m.k. ekki verið við 3. umr., ég veit ekki hvort hann er í húsinu, þannig að hægt sé að ræða þetta mál í hans viðveru. Það er eitt einkennið á umræðum á Alþingi þessar síðustu vikur að hæstv. forsrh. hefur ekki sést mikið við þær. Þá endurtók hæstv. forsrh. aftur og aftur hvað samkeppnisstaða íslenskra atvinnuvega væri afskaplega góð. Hér hefðu orðið þáttaskil og nú væru orðnar bjartar horfur í íslensku atvinnulífi.
    Mér datt í hug þegar hann fór að lýsa þekkingu sinni á sjónhverfingum að það hefði því miður farið svo hjá honum að þessi lærdómur hans hefði beinst inn á þá braut að blekkja fyrst og fremst hann sjálfan. A.m.k. stangast þessi lýsing hæstv. forsrh. á stöðu íslenskra atvinnuvega ákaflega mikið á við þá lýsingu sem hv. 3. þm. Austurl., formaður landbn., gaf á stöðu íslensks landbúnaðar og þá ekki síst sauðfjárræktar þar sem hann sagði að nú á nokkrum árum dragist saman tekjur bænda um 47%. Ég get ekki skilið hvernig hægt er að telja það góða stöðu atvinnuvegar sem þannig er ástatt fyrir. Og ætli garðyrkjubændur vilji fallast á að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar hafi styrkt og bætt afskaplega mikið stöðu þeirrar atvinnugreinar.
    Það virðist því vera að hæstv. forsrh. fylgist alls ekki með raunveruleikanum í íslensku atvinnulífi og það virðist ekki vera að hv. 3. þm. Austurl. ræði við hæstv. forsrh. um stöðu íslensks landbúnaðar eða geti komið honum í skilning um það hvernig staðan er þar raunverulega úr því að hæstv. forsrh. ítrekar hvað eftir annað að samkeppnisstaða íslenskra atvinnuvega sé svo ákaflega góð. Eða er hæstv. forsrh. búinn að afskrifa landbúnað sem íslenskan atvinnuveg?
    Það væri ákaflega æskilegt að fá skýringar hæstv. forsrh. á þessum ummælum hans. Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. er í húsinu til þess að svara því. En ég vildi a.m.k. ekki að umræðu um lánsfjárlög lyki án þess að þessum röngu fullyrðingum hæstv. forsrh. væri mótmælt og e.t.v. verður hægt að inna hann eftir því við umræðu um önnur mál sem eftir eiga að koma hvernig stendur á svona fullyrðingum hjá honum.
    Ég ætla ekki að tefja umræðuna meira að þessu sinni en áskil mér rétt til að ítreka þessar spurningar síðar ef ég ekki fæ svör við þeim núna, ef hæstv. forsrh. hefur ekki heyrt mitt mál og er í húsinu. Eða þá hv. 3. þm. Austurl. gæti gefið skýringar á því af hverju hæstv. forsrh. tekur ekkert mark á lýsingum hans, hv. 3. þm. Austurl., Egils Jónssonar, á staðreyndum sem blasa við í íslenskum landbúnaði.
    ( Forseti (StB) : Forseti getur upplýst hv. þingmenn um að hæstv. forsrh. er skráður í húsið.)