Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 02:19:33 (3271)


[02:19]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég stend ekki upp til þess að ræða 1. eða 2. tölul. þess breytingatillagnaskjals sem hér liggur fyrir, sem þó eru aðalatriði skjalsins heldur eingöngu, virðulegi forseti, til þess að ræða um 3. tölul. skjalsins sem lýtur að því að heimild til þess að veita fyrirtækinu Silfurlaxi hf. lán með sjálfskuldarábyrgð allt að 50 millj. kr. gegn skilyrðum sem fjmrh. og landbrh. setja. Út af fyrir sig ef allt væri eðlilegt og þetta mál hefði haft eðlilegan aðdraganda er ekki að vita nema það væri hægt að taka á þessu máli fremur jákvætt og án þess að hafa nokkra fyrirvara þar um, en eins og hér er í pottinn búið og eins og aðdragandi þessa máls er er óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að ræða þetta dálítið nánar.
    Nú er það svo að ég er ekki mjög kunnugur starfsemi þessa fyrirtækis og ýmislegt af því sem ég veit núna var mér ekki kunnugt um í upphafi umræðunnar og ýmislegt af því sem hv. þm. hafa sagt um þetta fyrirtæki var mér nýnæmi og þess vegna var og er afstaða mín til þess fyrirtækis býsna jákvæð fyrir fram vegna þess að ég hafði enga sérstaka skoðun á því og hafði ekki gert mér neinar hugmyndir hvorki háar né lágar um starfsemi þess fyrirtækis. Ég dreg ekkert í efa það sem hér hefur verið sagt í þessari umræðu, t.d. af hv. 4. þm. Norðurl. e. sem er mjög kunnugur fiskeldismálum, að á vettvangi þess fyrirtækis fari fram merkileg starfsemi. Og það er örugglega rétt sem líka hefur komið fram í umræðunni í kvöld að eigendur fyrirtækisins, sem munu vera sænskir að meiri hluta, hafa lagt í það mikið af eigin fé. Ég er ekki eins og sumir efasemdamaður gagnvart því að útlendingar eigi hlut í fyrirtækjum sem hér starfa, síst af öllu fiskeldisfyrirtækjum vegna þess að ég held að það sé þarft að fá slíkt áhættufjármagn frá útlöndum vegna þess að það liggur fyrir að á Íslandi fæst slíkt áhættufjármagn ekki. Þess vegna, virðulegi forseti, er ég fyrir fram fremur jákvæður gagnvart því að styðja við bakið á atvinnustarfsemi af því tagi sem hér er verið að tala um, þ.e. fiskeldi í einhverri mynd, hvort sem um er að ræða hafbeitarstöð, eins og hér er um að ræða, eða einhvers konar hefðbundið fiskeldi af öðru tagi og hvort hér er um að ræða þátttöku útlendinga eða ekki finnst mér ekki skipta mjög miklu máli.
    Það sem er hins vegar ákaflega athugavert við þetta mál er aðdragandi þess ef það er skoðað í tilteknu samhengi. Samhengið sem ég held að sé nauðsynlegt að þetta mál sé skoðað í er einfaldlega það sem hér hefur verið vakin athygli á að það eru til önnur fyrirtæki, kannski ekki nákvæmlega í sömu starfsemi

og þetta fyrirtæki sem hér um ræðir en fyrirtæki á sviði fiskeldis sem þurfa á sérstakri fyrirgreiðslu að halda til þess að þau geti haldið áfram sinni starfsemi og hafa þurft á sérstakri fyrirgreiðslu að halda til þess að þau hefðu getað haldið áfram sinni starfsemi. Vandinn var bara sá og það var hin sorglega niðurstaða að menn töldu ekki á þeim tíma að hægt væri að ljá því máls. Menn töldu að það væru ekki efnislegu rök til þess að grípa til álíka aðgerða og hér er verið að grípa til, þ.e. að veita tiltekna ríkisábyrgð til þess að auðvelda starfsemi þessara fyrirtækja. Því fór sem fór.
    Þar sem ég þekki best til er um að ræða fyrirtækið Þórslax á Tálknafirði sem hefur verið nokkuð mikið til umræðu við 3. umr. lánsfjárlagafrv. Þar var það svo að fyrirtækið hafði eins og mörg önnur fiskeldisfyrirtæki fengið fyrirgreiðslu hjá ábyrgðadeild fiskeldislána en varð vegna þess að skilmálar ábyrgðadeildarinnar voru svo erfiðir að segja upp tryggingum sem gerðu að að verkum að þessi lán voru öll gjaldfelld. Fyrirtækið varð að borga upp sín lán hjá ábyrgðadeildinni jafnskjótt og greiðslur bárust fyrir afurðir og vandanum var þar með velt af ábyrgðadeildinni yfir á viðskiptabanka þessa tiltekna fyrirtækis. Þegar svo var komið að ekki var hægt öllu lengur að veita slíka fyrirgreiðslu af hálfu viðskiptastofnunar fyrirtækisins. Þá var eftir því leitað hvort hægt væri að greiða fyrir málinu þannig að sú fyrirgreiðsla sem þá lá í loftinu að yrði veitt og raunar kemur fram í 11. gr. þessa frv. að þegar lögin um ábyrgðadeild fiskeldislána falla úr gildi þá sé fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að breyta útistandandi ábyrgðaheimildum í lán, sbr. tiltekin lög.
    Niðurstaðan varð sú á þeim tíma að þetta var ekki hægt vegna þess m.a. að þá þyrfti að grípa til álíka aðgerða og verið er núna að grípa til gagnvart fyrirtækinu Silfurlaxi hf. Með öðrum orðum þyrfti að ganga lengra en ætlunin var í þessu frv. til lánsfjárlaga skv. 11. gr. og þess vegna væri þetta ekki hægt.
    Nú vil ég strax taka það fram að hér var um að ræða mun lægri upphæðir en talað er um í þessari brtt. og lýtur að lántöku Silfurlax hf. Það var um að ræða mun lægri upphæðir. Engu að síður varð þetta niðurstaðan. Og menn vita hvernig fór. Fyrirtækið var að lokum því miður tekið til gjaldþrotaskipta, eitt elsta og merkasta laxeldisfyrirtæki landsins.
    Ég nefndi það áðan að í frv. til lánsfjárlaga er verið að ljúka ákveðnum kaflaskiptum í sögu fiskeldisins með því að leggja ábyrgðadeild fiskeldislána niður. Ég verð að játa það að ég sé ekkert sérstaklega eftir þeirri deild í sjálfu sér. En við skulum hins vegar aðeins átta okkur á samhengi hlutanna. Þar er verið að tala um að yfirtaka ábyrgðaheimildir upp á 60 millj. kr. miðað við stöðuna 5. júlí á þessu ári. Ef ég skil það rétt þá eru m.a. inni í því ábyrgðir vegna þessa tiltekna fyrirtækis sem ég hef þráfaldlega verið að nefna.
    Hins vegar er ætlunin að veita sérstaka ábyrgð, reyndar með mjög ströngum skilyrðum, það ber að játa, til þessa fyrirtækis, Silfurlax, upp á 50 millj., þ.e. álíka upphæð og verið er að tala um varðandi ábyrgðadeildina. Ég viðurkenni það fúslega að það er verið að setja ströng skilyrði til handa þessum eigendum samkvæmt bréfi sem efh.- og viðskn. barst frá fjmrn. Það er gert ráð fyrir því að hluthafar útvegi jafnháa fjárhæð, þ.e. 50 millj. kr., og önnur skilyrði jafnframt sett sem mér er mætavel ljóst að venjulegur meðaljón mundi eiga í miklum erfiðleikum með að uppfylla. Engu að síður er þetta sjálfsagt mál sem hluthafar og eigendur Silfurlax geta uppfyllt vegna þess að það hefur verið upplýst hér að eigendur fyrirtækisins eru vel stæðir og þeir hafa örugglega burði til þess og er ekkert nema gott um það að segja. En þá vekur það athygli líka að veðin og tryggingarnar byggjast á því að það er afli ársins 1996 sem er veðsettur, ekki næsta árs, því að hann er veðsettur, heldur ársins 1996. Og það, svo að ég taki ekki dýpra í árinni, vekur dálitla forvitni.
    Virðulegi forseti. Ég er sjálfur mikill áhugamaður um vöxt og viðgang fiskeldisins og ég hef aldrei ljéð því eyra þegar menn hafa verið að tala gegn þessari atvinnugrein og gera lítið úr henni og fjargviðrast yfir þeim mistökum sem þar hafa orðið. Það hafa vissulega orðið mikil mistök en þar er þó ekki eingöngu við þá að sakast sem stóðu að rekstri fyrirtækjanna. Þeir lentu í gríðarlegum töpum vegna þess að forsendurnar sem menn treystu á í upphafi hrundu. Tekjurnar hrundu, aðstæðurnar breyttust og það sem líka verður að hafa í huga er að þau skilyrði sem þessari grein voru búin voru auðvitað mjög erfið. Það hefur t.d. verið reiknað út að þegar allt er talið með, tryggingar, allur lántökukostnaður og þess háttar í þessari ábyrgðadeild, þá hafi fjármagnskostnaðurinn á ári svarað til um það bil 25%. Og það sér hver einasti maður að engin atvinnugrein, hvorki fiskeldi né önnur, stenst slíkar arðsemiskröfur.
    Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt vegna þessa máls, vegna þess að það hefur komið mjög til umræðu þetta tiltekna mál varðandi Þórslax á Tálknafirði sem ég geri ráð fyrir að ég þekki betur en ýmsir aðrir sem hér eru inni, að ég varpaði aðeins ljósi á það vegna þess að mér finnst að afgreiðsla þess hafi verið gersamlega á skjön við það sem við sjáum birtast í þessum brtt. Ég ítreka það að ég hef engar óskir nema jákvæðar í garð fyrirtækisins Silfurlax og ég dreg ekkert í efa að það sé merkileg starfsemi sem þar fer fram og þýðingarmikil og nauðsynlegt að slík fiskeldisstarfsemi eins og önnur fiskeldisstarfsemi í landinu geti haldi áfram. En það er alveg óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að vekja athygli á því hversu þetta er á skjön við það sem áður hefur gerst og það vekur með manni, ég vil segja í senn, ákveðin vonbrigði, sárindi og reiði.