Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 02:36:14 (3274)


[02:36]
     Finnur Ingólfsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þegar menn gerðu þetta samkomulag, sem margoft hefur komið til umræðu í kvöld, þá var að mínu viti gengið út frá því að allir hæstv. ráðherrar sem málinu tengjast, þar á meðal hæstv. viðskrh., væru til staðar hér í þinginu til þess að greiða fyrir málinu gegnum þingið. Ég held að það sé nú svo með öll okkar sem komum nálægt því að gera þetta samkomulag, að þá hafi sá skilningur verið til staðar að ríkisstjórnin væri hér með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar að koma þessu máli í gegnum þingið og það ætti að gerast í góðu samstarfi og samvinnu við stjórnarandstöðuna. Ég tel að fram undir þetta hafi þetta samstarf að meginhluta til gengið upp og það er því dálítið alvarlegt nú þegar komið er undir lok umræðunnar og óskað er eftir því að einstakir hæstv. ráðherrar verði hér til svara þá skuli því svarað að þeir munu ekki mæta.
    Nú hefur það komið fram hjá hv. 8. þm. Reykn. að hann óskaði ekki eftir því að hæstv. umhvrh. komi til umræðunnar ( ÓRG: Ég óskaði eftir því en ég ...) en hann mun ekki halda því til streitu. Það er í sjálfu sér ágætt, enda held ég með allri virðingu fyrir hæstv. umhvrh. að hann hafi mjög lítið vit á fiskeldismálum, sérstaklega hvað rekstur varðar, þó að ég þykist vita að hann sé ágætur í laxageldingum. En ef ég skil hv. 8. þm. Reykn. rétt þá er það ekki það sem hv. þm. ætlar að ræða við umhvrh.
    Ef ekki verður hægt að fá svör við þeim spurningum sem hv. 8. þm. Reykn. vill spyrja hæstv. viðskrh. þá er það auðvitað á ábyrgð ríkisstjórnarinnar ef þarf að fresta þessari umræðu til morguns. Það er ekki á ábyrgð stjórnarandstöðunnar. Stjórnarandstaðan hefur verið hér að störfum í kvöld, fylgst með þessari umræðu, en það er ríkisstjórnarliðið, það eru hæstv. ráðherrar sem neita að vera við þessa umræðu. Og það verður að gera þá kröfu til forseta þingsins og samráðherra hæstv. viðskrh. í ríkisstjórninni að þeir óski eftir því að hæstv. viðskrh. komi og verði viðstaddir lok umræðunnar, sé það vilji hæstv. fjmrh. að ljúka þessari umræðu hér í kvöld. Ef ekki, þá er það í lagi stjórnarandstöðunnar vegna að málinu verði haldið áfram á morgun.