Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 02:44:00 (3277)


[02:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er sjaldgæft að menn takist í hendur til þess að innsigla samkomulag um störf í þinginu. Það var gert fyrir jól eftir að talsvert langar umræður höfðu farið fram á milli formanna þingflokka, þeirra flokka sem eiga aðild að þinginu, og það sem samið var um var í fyrsta lagi hvaða mál skyldu rædd fyrir jól og í öðru lagi að lánsfjárlög skyldu afgreidd fyrsta dag eftir jól. Um þetta var gott samkomulag. Það voru haldnir tveir eða þrír fundir og loks var þetta innsiglað með handabandi, sem er afar sjaldgæft.
    Í dag hefur síðan farið fram fyrst 2. umr. málsins, sem hófst kl. 3 í dag, fyrir um það bil 12 tímum síðan. Sú umræða stóð til klukkan langt gengin í átta og í henni tóku þátt m.a. forsrh., sem var hér og flutti yfirgripsmikla ræðu og fjallaði þar um ýmsar spurningar sem til hans var beint. Að sjálfsögðu fjmrh., sem hér stendur, því að hann fer með þessi mál sem hér eru til umræðu.
    Eftir kvöldmat og eftir fundi nefndarinnar kom í ljós að menn töldu að ný atriði hefðu komið upp. Haldnir voru fundir til þess að fjalla um þau og aftur vissi ég ekki betur en að niðurstaða hefði fengist. Ég stóð hér upp og það er ekkert leyndarmál að það var vegna þess að menn vildu fá skýr svör um afstöðu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna til tiltekinnar tillögu. Það var gert í fullu samkomulagi og þegar það samkomulag var gert hafði ég ekki heyrt að það væri sérstaklega óskað eftir viðskrh. hér við umræðuna, enda sé ég ekki hvað honum kemur þetta mál við frekar en öðrum ráðherrum. Það hefði verið eðlilegt um miðnætti að láta þá vita, þegar öll mál voru komin upp á borðið, hvaða ráðherrar væru beðnir um að vera viðstaddir umræðuna. Ég hef nefnilega grun um það að sá leikur sé leikinn hér af hálfu formanns Alþb., því miður, og ekki í fyrsta skipti, að draga það fram eftir nóttu að koma í ræðustól og óska eftir því að einstakir ráðherrar séu hér viðstaddir og þá þeir sem hann veit að eru nýfarnir úr húsinu. Þetta er gamall siður, en ekki góður.
    Ég vil aðeins taka það fram að fyrir mitt leyti tel ég að það hafi verið staðið fyllilega við það samkomulag sem var gert. Það hefur verið reynt eftir öllum mætti að standa við það sem eftir er, en menn hafa

ekki vilja og það verður auðvitað að leita skýringar á því hvers vegna formaður Alþb. vill ekki standa við það samkomulag sem gert var við formann þingflokks Alþb., Ragnar Arnalds.