Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 02:47:21 (3278)


[02:47]
     Finnur Ingólfsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Sú atburðarás sem hæstv. fjmrh. hefur lýst hér er í öllum meginatriðum hárrétt og ég staðfesti að svo sé. Það verður hins vegar að teljast fullkomlega eðlilegt, að mínu viti, að einstakir þingmenn sem þátt taka í þessari umræðu óski eftir því að einstakir ráðherrar séu viðstaddir umræðuna og komi til umræðunnar til að svara fyrirspurnum frá einstökum þingmönnum. Það hlýtur að vera sanngirniskrafa. Af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni er fullur vilji fyrir því að ljúka umræðunni í kvöld og standa við það samkomulag sem gert var milli stjórnar og stjórnarandstöðu fyrir jól um að þessari umræðu gæti lokið á þessum degi. Aftur á móti er það ríkisstjórnarinnar að svara því hvort hún er tilbúin til að senda þá ráðherra sem í ríkisstjórninni eru til þeirrar umræðu sem fer hér fram. Ef hæstv. ríkisstjórn treystir sér ekki til þess þá er ábyrgðin hennar á þessu máli að það frestist til morguns en ekki stjórnarandstöðunnar. Því að það er auðvitað bara sanngirniskrafa stjórnarandstöðunnar að fá þá ráðherra er málið snertir hingað til þessarar umræðu.