Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 02:48:52 (3279)


[02:48]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. hlýði á mál mitt. ( Fjmrh.: Hann hlýðir á mál þitt.) Það er gott að heyra það, hæstv. fjmrh., vegna þess að ég sit ekki undir þeim getgátum sem hæstv. fjmrh. var með hér áðan. Ef hæstv. fjmrh. grandskoðar umræðuna þá sér hann það að ég var hér fyrstur á mælendaskrá eftir að nefndarmennirnir höfðu talað. Ég hafði beðið um orðið alllöngu áður, en forseti kaus að láta nefndarmenn tala fyrst og ég gerði enga athugasemd við það. En ég var fyrstur þingmanna utan nefndarmanna til þess að koma hér í ræðustól og ég fór strax í byrjun ræðu minnar fram á það að þessir tveir hæstv. ráðherrar yrðu hér viðstaddir og rökstuddi þá beiðni mína. Það er þess vegna algerlega rangt hjá hæstv. fjmrh. að hér séu einhver undirmál af minni hálfu um tafir og bið um það að koma þessu sjónarmiði á framfæri. Það var gert um leið og mér var gefið hér orðið fyrstum manna eftir að nefndarmenn höfðu talað.
    Það er hins vegar rétt hjá hæstv. fjmrh. að það var nokkuð liðið fram yfir miðnætti þegar að því kom, m.a. vegna þess að þingflokkur hæstv. fjmrh. tók hér þrjá stundarfjórðunga fyrr á þessu kvöldi í sérstakan fund.
    Ég skal játa það, hæstv. fjmrh., að það hvarflaði ekki að mér að það þyrfti að biðja sérstaklega um það að viðskrh. yrði viðstaddur þessa umræðu. Ég hef vanist því, bæði þegar ég hef verið í stjórnarandstöðu og eins í ríkisstjórn, að það sé talið reyndar sjálfsögð og almenn regla að flestir ráðherrar ríkisstjórnar séu viðstaddir lokaumræðu um fjárlög og lánsfjárlög og sérstaklega viðskrh. varðandi lánsfjárlögin. Auk fjmrh. er það talið nauðsynlegt að hann sé þar viðstaddur. Það er þess vegna, virðulegi fjmrh., ekki hægt að halda því fram með nokkurri sanngirni að það sé ósanngjarnt sjónarmið að óska eftir því að viðskrh. komi til þessarar umræðu.
    Ég vek athygli fjmrh. á því að ég hindraði í engu að umræðan gæti haldið áfram, hæstv. fjmrh., ég samþykkti að hér gætu þeir þingmenn sem á mælendaskrá voru tekið til máls.
    Vandi ríkisstjórnarinnar er hins vegar sá að hún hefur ekki vald á sínum mönnum og ekki á lykilráðherrum í málinu. Það er vandi sem hæstv. ríkisstjórn verður að glíma við á sinni heimaslóð. En ég tel það, virðulegi forseti, stórhættulegt fordæmi að það verði viðurkennt að hægt sé að láta umræðu um lánsfjárlög fara fram án þess að hæstv. viðskrh. þurfi að svara þeim spurningum sem til hans er beint. Ef hæstv. viðskrh. hefði verið hér í kvöld þá værum við sjálfsagt að ljúka þessari umræðu. Það hefur enginn okkar í stjórnarandstöðunni sýnt tilburði til þess að reyna að flytja langar ræður eða tefja umræður. (Forseti hringir.) En með sama hætti og hæstv. forsrh. tók réttilega þátt í umræðunni og hæstv. fjmrh. hefur gert það þá eru ákveðin lykilatriði sem verður að ræða við hæstv. viðskrh. Þess vegna bið ég hæstv. fjmrh. (Forseti hringir.) að taka þessu ekki með þeim hætti sem hann gerði hér og bið hann og forseta að hugleiða það hvort ekki sé skynsamlegra að reyna að fresta umræðu (Forseti hringir.) ef hæstv. viðskrh. kemur ekki og ljúka henni skikkanlega á morgun og ég er reiðubúinn að beita mér fyrir því og það eru engin undirmál í því af minni hálfu eða okkar.