Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:07:01 (3297)


[04:07]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rengja orð hæstv. viðskrh. hvað snertir Landsbankann. Það sem ég er að vekja athygli á er þessi staða greinarinnar í heild. Þessi grein býr við það að hún nýtur ekki eðlilegrar fyrirgreiðslu í formi afurðalána neins staðar, hvorki hjá Landsbankanum né öðrum ríkisbönkum. Það er einungis ef einhver bankastofnun, sem er ekki of bundin í viðjar einhverra boða og banna, sér sér fært að eigin frumkvæði og eigin hvötum, eins og Eyrarsparisjóður hefur gert, að veita þessum mönnum fyrirgreiðslu, að þeir fá eitthvað. Það er þetta sem ég er að vekja athygli á og sé það svo að ekkert sé hægt að tala við Landsbankann varðandi þetta, sem vel kann að vera, þá vil ég beina því til hæstv. ríkisstjórnar að hún beiti sér fyrir því að þessi grein sitji við sama borð og aðrar atvinnugreinar í landinu og henni verði gert kleift með einhverju móti að fá almenna lánafyrirgreiðslu fyrir afurðir.