Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:18:29 (3304)


[04:18]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held nú satt að segja að ef menn líta á það sem gert hefur verið fyrir hinar ýmsu atvinnugreinar í landinu af hálfu hins opinbera þá geti forráðamenn fiskeldis og fiskeldisfyrirtækja ekki kvartað undan því að þeir hafi ekki fengið stuðning frá opinberum aðilum og er ég þá ekkert fremur að telja þessa ríkisstjórn en aðra. Því sú ríkisstjórn, sem hv. þm. sem talaði hér síðast sat í, veitti einmitt þessari atvinnugrein mjög mikinn stuðning. En staðreyndin er einfaldlega sú, að þær vonir um tekjumöguleika og afkomumöguleika sem menn gerðu sér upphaflega þegar hafist var handa um fiskirækt í stórum stíl hér á Íslandi hafa ekki gengið upp og það má segja að einu forsendurnar sem hafi staðist séu forsendur um orkuverð. Allt annað hefur verið víðs fjarri því sem menn gerðu sér vonir um í upphafi og það er vandamálið, ekki skortur á stuðningi. Því að íslenskur almenningur á enn eftir að borga þau miklu lán sem tekin voru m.a. í útlöndum til þess að veita fyrirtækjum í þessari starfsgrein aðstöðu fyrir milligöngu ríkisins. Þannig að það verður ekki kvartað undan því að hið opinbera hafi ekki sýnt þessari starfsgrein

skilning.
    Ég vil aðeins taka fram til þess að leiðrétta það sem hv. þm. sagði, að í 11. gr. frv. til lánsfjárlaga er verið enn einu sinni að koma til móts við þau þrjú fyrirtæki sem enn lifa í þessari grein, því þar er ekki verið að fella ábyrgðadeildina úr gildi heldur verið að breyta útistandandi ábyrgðaheimildum í lán án þess að farið sé fram á og krafist einhverra umtalsverðra trygginga sem aðrir lántakendur munu þurfa að leggja fram. Þarna er því enn einu sinni verið að reyna að ganga til móts við þau fyrirtæki sem eru starfandi í þessari atvinnugrein.