Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:23:41 (3307)


[04:23]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessa umræðu eða gera hér neinar kröfur, en mér varð það á í kvöld að mismæla mig nokkuð illa uppi í ræðustól. Í flestum tilfellum lætur maður sér nægja að leiðrétta slíkt í þingtíðindum, en þar sem ég heyrði því fleygt hér á göngum þingsins að sem dæmi um dáðleysi og dugleysi stjórnarandstöðunnar hér í kvöld væri það að hún gæti ekki farið rétt með íslenskt mál þá tel ég mér skylt að gera hér nokkra leiðréttingu.
    Ég áttaði mig á því um leið og ég steig ofan úr ræðustól og sá framan í félaga minn, 4. þm. Norðurl. e., að ég mundi hafa farið með einhverja ambögu. Það sem ég ætlaði að segja var það að hæstv. viðskrh. hefði ekki döngun í sér til þess að koma hér til umræðunnar, en varð það á að segja að hann hefði ekki dögun í sér, sem að sjálfsögðu er hin versta ambaga. En e.t.v. er þetta vegna þess að það var komin nokkur dögun í umræðuna og að öllu réttu ef við væri hér á öðrum árstíma væri sólin komin upp, þá býst ég við að það hafi verið ástæða þess að þetta kom svona út úr mér. En að hafa ekki döngun til einhvers er náttúrlega eins og allir vita að hafa ekki dug til einhvers, en að hafa ekki dögun til einhvers veit ég ekki til að hafi neina merkingu í íslensku máli.