Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:27:19 (3309)


[04:27]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Bara til að öllu sé nú til skila haldið þá vil ég taka það fram að ég kom ekki hingað sökum beiðni forseta eða sakir upphringingar frá honum heldur segi ég það dagsatt að ég hrökk upp af værum svefni og kveikti á Sýn og sá þá að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var að ganga úr ræðustóli eftir að forseti hafði veitt 10 mínútna hlé vegna þess að ég var ekki viðstaddur. Þannig að ég vildi bara svona ,,for the record`` og ég bið forseta afsökunar á því að ég skuli sletta erlendu máli, láta það koma fram að ég hrökk upp eins og ráð var fyrir gert og ráð er fyrir gert þegar Hurðaskellir gengur um ganga. Þannig er nú það.
    Enn fremur vil ég taka það fram að ég sagði um þessa sérstöku tillögu að allt orki tvímælis þá gert er. Ég lýsti því alls ekki yfir, eins og hv. þm. er að reyna að leggja mér í munn, að ég ætti von á því að þessi tillöguflutningur mundi enda með tjóni fyrir ríkissjóð. Ég á ekki von á því, það er ástæðan fyrir því að ég féllst á að styðja tillöguna. En ég sagði hins vegar að allt orki tvímælis þá gert er og það veit hv. þm. að er rétt. Hann þekkir það nefnilega, virðulegi forseti, af eigin reynslu.