Ábyrgð á láni til Silfurlax hf.

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 13:06:13 (3315)

[13:06]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Rétt fyrir kl. 10 í gærkvöldi var lögð fram brtt. við frv. til lánsfjárlaga um að heimila fjmrh. að ábyrgjast sjálfskuldarábyrgð lántöku Silfurlax hf. allt að 50 millj. kr. gegn skilyrðum sem fjmrh. og landbrh. setja. Um þetta mál urðu miklar umræður í nótt og lögð var á það áhersla að umræðunni lyki sem og gert var um það bil kl. 4.30 í morgun. Það var upplýst í umræðunni að ætlunin væri að taka veð í afla ársins 1996 til þess að tryggja þær 50 millj. sem tillagan felur í sér.
    Nú hefur mér borist í hendur í morgun afrit af dómi Hæstaréttar frá 16. júní sl. í máli Íslandsbanka hf. gegn Sundagörðum hf. og þrotabúi Vogalax hf. Þessi dómur Hæstaréttar frá 16. júní felur það í sér að hafbeitarlax sé ekki eldisfiskur sem veðsetja má til fjögurra ára, heldur skuli hann vera afli í merkingu 4. mgr. 4. gr. veðlaga, nr. 18/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 43/1986, sbr. 14. gr. laga. nr. 9/1989. Þess vegna megi eingöngu veðsetja hafbeitarlax sem afla til eins árs.
    Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, beina þeirri ósk til hæstv. fjmrh. að áður en Alþingi greiðir atkvæði síðar í dag skv. 5. dagskrárlið þessa fundar um þessa brtt. þá verði það upplýst af hálfu fjmrh. hvort það hafi verið kannað alveg ótvírætt að þessi brtt. sé ekki brot á hæstaréttardómi frá 16. júní sl. í ljósi þess að taka á veð í afla ársins 1996 sem samkvæmt dómnum er óheimilt. Mér virðist þess vegna blasa við að þessi hæstaréttardómur feli í sér að fjmrh. og landbrh. hafi ekki heimild samkvæmt dómi Hæstaréttar til þess að taka það veð fyrir þessum 50 millj. kr. sem lýst var hér í nótt að ætlunin væri að gera. Ég óska þess vegna eftir því, virðulegi forseti, að þetta verði upplýst svo að þingheimur fái í hendur tryggingu fyrir því að grundvöllur tillögunnar brjóti ekki í bága við nýlegan dóm Hæstaréttar.