Ábyrgð á láni til Silfurlax hf.

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 13:09:59 (3316)


[13:09]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Mér hefur eðlilega ekki gefist kostur til þess að kynna mér þessa nýju ástæðu sem hér er nefnd til sögunnar en ég bendi á að sú brtt. sem liggur fyrir er á þessa leið með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku Silfurlax hf. allt að 50 millj. kr. gegn skilyrðum sem fjmrh. og landbrh. setja.``
    Samkvæmt brtt. er einungis um að ræða að í lögum segir að skilyrði skuli sett af fjmrh. og landbrh. Í bréfi til nefndarinnar kemur hins vegar fram að hugmyndin er að taka 1. veðrétt í seiðum og hafbeitarlaxi félagsins og því er þar lýst, eins og vandlega hefur komið fram í umræðunum, hvernig hugmyndin er að tryggingar verði settar.
    Þetta mál hefur verið undirbúið og skoðað af embættismönnum en að sjálfsögðu verður þess gætt að ekki verði farið öðruvísi að en lög heimila og er sjálfsagt að kynna sér það í alla staði og fara að þeim enda liggur það í hlutarins eðli.
    Ég vil taka það fram og það hefur reyndar komið fram í umræðunum líka að það eru sett mjög ströng skilyrði fyrir félagið. Hluthafarnir þurfa að leggja fram verulega fjármuni. Það er alls óvíst hvort af þessu getur orðið en þessum ströngu skilyrðum sem sett verða verður auðvitað fylgt eftir. Ég vil láta það koma fram að það verður að sjálfsögðu farið að þessu með löglegum og lögmætum hætti. Ég sé því ekki ástæðu til að tefja atkvæðagreiðsluna af þeirri ástæðu sem hér hefur verið nefnd til sögu.