Lánsfjárlög 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 13:51:49 (3327)


[13:51]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Tillagan er fram borin af fjórum fulltrúum sem eru nú reyndar orðnir þrír í efh.- og viðskn. nokkrum mínútum áður en 3. umr. um lánsfjárlög hófst. Ég hef alltaf verið hlynntur fiskeldi og ekki ráðist að stjórnvöldum þegar þau hafa sýnt skilning á þeim málum eins og allar fiskveiðiþjóðir hafa gert. Hins vegar gagnrýni ég harðlega að fyrirtækjum sé mismunað eins og þegar Landsbanki Íslands gerði vel reknu fyrirtæki, Þórslaxi í Tálknafirði, óbærilegt að starfa áfram og rak það í gjaldþrot. Fyrirtækið er að verulegu leyti í eigu útlendinga og virðist ríkisstjórnin gera mikinn mun á því hvort um er að ræða íslenskt framtak eða erlent. Þessu óréttlæti mótmæli ég og segi nei.